Mótmæli gegn ítrekuðum kjaraskerðingum dómara
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra
6. júní 2023
Efni: Mótmæli gegn ítrekuðum kjaraskerðingum dómara
Dómarafélag Íslands vísar til boðaðra aðgerða gegn verðbólgu hér á landi þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sem kveður á um að laun dómara skuli 1. júlí ár hvert hækka miðað við „hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár“, verði með lögum vikið til hliðar. Fyrir liggur að dómarar eiga á grundvelli þessa lagaákvæðis von á því að laun þeirra hækki um rúm 6%. Gangi boðaðar skerðingar á kjörum dómara eftir munu laun dómara þess í stað aðeins hækka um 2,5%.
Í því sambandi er vert að taka fram að þau rök, að dómarar og aðrir embættismenn eigi ekki að vera leiðandi þegar kemur að launahækkunum og að af þeim sökum sé farið fram með þessa aðgerð, halda ekki. Ákvæði 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 og annarra lagaákvæða, sem ná til um 220 annarra embættismanna, gerir þvert á móti ráð fyrir að laun hækki til samræmis við launaþróun ríkisstarfsmanna, það er hækki til samræmis við launahækkanir ríkisstafsmanna sem þegar eru komnar fram. Markmiðið að baki lagaákvæðinu var meðal annars að laun dómara yrðu gagnsæ og fyrirsjáanleg auk þess að koma í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir.
Dómarafélag Íslands minnir á að dómarar skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins, sbr. 2., 59., 61. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 er rakið að áskilnaður 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um óháða dómstóla feli í sér að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og „ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins“. Er skírskotað til þess að „kjör sem dómendum eru tryggð“ séu einn af efnisþáttum í mati á hvort dómstólarnir teljist sjálfstæðir þannig að fullnægt sé kröfum stjórnarskrárinnar. Er það meðal annars í samræmi við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R (94) frá 13. október 1994 um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómenda.
Gangi fyrirhugaðar breytingar eftir yrði það í þriðja sinn á rétt rúmum þremur árum sem dómarar þyrftu að sæta því að laun þeirra séu skert, en með 20. gr. laga nr. laga nr. 25/2020 var launahækkun dómara í samræmi við 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 frestað frá 1. júlí 2020 til 1. janúar 2021. Þá var útreikningi við ákvörðun launa dómara breytt til lækkunar með ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem boðuð var með bréfi Fjársýslu ríkisins 29. júní 2022, og dómarar að auki endurkrafðir um það sem ráðuneytið taldi vera ofgreidd laun þeirra. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí sl. í máli nr. E-3847/2022 voru framangreindar ákvarðanir ráðuneytisins ógiltar. Íslenska ríkið hefur óskað eftir leyfi til að áfrýja þeim dómi til Hæstaréttar Íslands.
Með réttu má halda því fram að dómstólar hér á landi séu ekki fyllilega sjálfstæðir í störfum sínum ef löggjafarvald og framkvæmdavald skerða ítrekað lögbundin launakjör dómara.
Dómarafélag Íslands skorar því á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá fyrirhugaðri skerðingu á lögbundinni hækkun launa dómara 1. júlí næstkomandi.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen
Fundur EAJ í Aþenu í Grikklandi 1.-3. júní 2023
Fyrri ársfundur Evrópudeildar IAJ (EAJ) 2023 var haldinn í Aþenu í Grikklandi dagana 1. til 3. júní 2023. Fulltrúar Dómarafélags Íslands á fundinum voru formaður félagsins, Kristbjörg Stephensen og Arnaldur Hjartarson stjórnarmaður.
Á fundinum voru meðal annars samþykktar ályktanir varðandi Armeníu, Búlgaríu, Frakkland, Króatíu, Litháen og Rúmeníu en þessar ályktanir má finna hér: https://www.iaj-uim.org/iuw/eaj-resolutions-adopted-in-athens-on-2nd-june-2023/
Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum nr. 91/1991 og 88/2008 – frásögn af skýrslutöku
Alþingi
b.t. allsherjar- og menntamálanefndar
Kópavogi, 30. maí 2023
Efni: Umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (frásögn af skýrslutöku), 923. mál.
Vísað er til umsagnarbeiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sem send var Dómarafélagi Íslands 8. maí sl.
Dómarafélag Íslands tekur undir með flutningsmönnum frumvarpsins að samfélagið hafi ríka hagsmuni af því að starfsemi dómstóla sé gagnsæ og fari fram fyrir opnum tjöldum. Jafnframt telur félagið að fjölmiðlar gegni mikilvægu hlutverki við að miðla upplýsingum um dómsmál til almennings og það sé til þess fallið að auka skilning á hlutverki og störfum dómsvaldsins sem að sama skapi sé til þess fallið að auka traust almenning til dómstóla. Dómarafélag Íslands bendir á hinn bóginn á að hagsmunir aðila að dómsmálum og hætta á sakarspjöllum geta gert það að verkum að takmarka verður fréttaflutning af dómsmálum. Af þeim sökum leggst félagið gegn frumvarpinu.
Ákvæðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var breytt í núverandi horf með lögum nr. 76/2019 í því skyni að treysta réttaröryggi. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum var áréttað að 3. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 hefði að geyma þá mikilvægu reglu að hvert vitni skuli að jafnaði prófa sér án þess að önnur vitni hlýði á. Ákvæðinu væri ætlað að tryggja að framburður vitnis í dómsmáli mengist ekki af framburði annarra vitna sem þegar hefðu gefið skýrslu þannig að áhrif gæti haft a niðurstöðu dómsmáls. Ákvæði sama efnis er í 4. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómarafélag Íslands leggur áherslu á að framangreindar varúðarreglur séu til lítils ef vitni getur fylgst með því í gegnum fjölmiðla eða annars konar miðla hvað önnur vitni hafa borið fyrir dómi áður en það gefur skýrslu. Réttaröryggissjónarmið að baki tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 91/1991 og 88/2008, vegi þyngra en þau sjónarmið sem flutningsmenn frumvarpsins tefli fram. Þá er þess að gæta að í ákvæðinu er gert ráð fyrir að dómari geti veitt undanþágu frá banni við að greina frá skýrslum vitna.
Í athugasemdum með frumvarpinu er rakið að skýrslutökur af aðilum og vitnum við aðalmeðferð tiltekins máls í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í vetur hefðu tekið sjö vikur og hafi fjölmiðlum verið óheimilt að greina frá því sem fram kom við skýrslutökur allan þann tíma. Dómarafélag Íslands tekur fram að til algjörra undantekninga heyri að skýrslur fyrir dómi taki svo langan tíma.
Fyrir hönd Dómarafélags Íslands,
Kristbjörg Stephensen
Umsögn um frumvarp – sameining héraðsdómstólanna
Alþingi
b.t. allsherjar- og menntamálanefndar
18. apríl 2023
Efni: Umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarp um sameiningu héraðsdómstólanna
Vísað er til umsagnarbeiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sem send var Dómarafélagi Íslands 30. mars sl., og samskipta formanns félagsins við nefndina 11. apríl sl. í tengslum við beiðni félagsins um framlengingu frests til að skila umsögn um málið til 18. sama mánaðar.
Áður en lengra er haldið er vert að rifja upp að í umsögn félagsins. 21. febrúar sl. um frumvarpsdrög sem birtust í samráðsgátt stjórnvalda var bent á það að ef þær breytingar, sem þar væru lagðar til, yrðu að lögum yrði þar um að ræða stærstu breytingu á skipan héraðsdómstólanna í rúmlega 30 ára sögu þeirra. Þar var einnig bent á að dómstólar hafa sérstaka stöðu samkvæmt 2. gr. og ákvæðum V. kafla stjórnarskrárinnar. Því væri mikilvægt að hafa að leiðarljósi við skipulagsbreytingar af þessum toga að þær ógni ekki stjórnskipulegu sjálfstæði dómstóla, bæði sem stofnana svo og sjálfstæði einstaka dómara í störfum sínum. Því næst sagði að þótt frumvarpsdrögin fælu í sér grundvallarbreytingar á skipulagi héraðsdómstóla í landinu yrði ekki séð að í undirbúningnum hefði verið metið sérstaklega hvort og þá hvaða áhrif slík nýskipan hefði mögulega á sjálfstæði dómstóla þar á meðal starfskjör dómara og hvernig tryggt væri að breytingarnar stæðust þær kröfur sem leiddar yrðu af ákvæðum stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga í þessum efnum. Dómarafélag Íslands teldi mikilvægt að slík vinna færi fram ef til þess kæmi að frumvarp byggt á drögunum yrði lagt fram á Alþingi, enda væri löggjafanum nauðsynlegt að geta metið breytingar út frá þessum fyrirmælum stjórnarskrárinnar.
Í athugasemdum með frumvarpinu er vikið að fyrrgreindri umsögn Dómarafélags Íslands og tekið fram að hún hafi ekki leitt til breytingar á þeim lagatexta sem til væri lagður en aukið væri við umfjöllun í 5. kafla athugasemdanna. Af þessu tilefni skal því haldið til haga að sá kafli er stysti kafli frumvarpsins og hefði félagið talið æskilegra að brugðist hefði verið við athugasemd þess með öllu ítarlegri umfjöllun, einkum í ljósi þess hversu mikil grundvallarbreyting er lögð til í frumvarpinu að gerð verði á starfsemi héraðsdómstólanna.
Þá kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að athugasemd réttarfarsnefndar um 2. gr. frumvarpsdraganna, sem snýr meðal annar að því að fela dómstólasýslunni að setja reglur um úthlutun dómsmála, hafi ekki orðið til þess að hróflað væri við orðalagi ákvæðisins um það atriði. Dómarafélag Íslands tekur undir með réttarfarsnefnd um að vandséð sé hver þörfin sé á slíkri stefnubreytingu um breytt verklag varðandi úthlutun mála og leyfir sér að vísa til nánari umfjöllunar réttarfarsnefndar í þeim efnum og þá sérstaklega þess að mikilvægt sé að betur verði hugað að því hvort þörf sé fyrir slíka breytingu á áralangri og rótgróinni framkvæmd og jafnframt að fram fari nánari könnun á reglum sem um þetta gilda í nágrannalöndum.
Stjórn Dómarafélags Íslands boðaði til fundar félagsmanna sem haldinn var 13. apríl sl. og var hann nokkuð fjölmennur. Á fundinum komu ýmis sjónarmið fram um frumvarpið. Heilt á litið virtust flestir fundarmenn hafa efasemdir um frumvarpið og leggjast gegn því. Meðal þeirra sjónarmiða sem fundarmenn röktu voru eftirfarandi:
Þó nokkrir fundarmenn settu fyrirvara við það að ráðast í sameiningu héraðsdómstólanna áður en rafræn málsmeðferð yrði innleidd en nánar er vikið að þeirri gagnrýni hér á eftir.
Fram kom það sjónarmið að kostir sem raktir eru í frumvarpinu, svo sem um einföldun stjórnsýslu og eflingu starfsstöðva á landsbyggðinni, fengju ekki staðist. Í raun væri verið að leggja niður dómstóla á landsbyggðinni. Áhyggjum var lýst af því að frumvarpið gæti orðið til þess að draga úr sjálfstæði héraðsdómstóla í landinu. Dómstólar á landsbyggðinni yrðu veikari og þjónusta þeirra á landsbyggðinni rýrari. Auk þessi gæti þetta leitt til fækkunar lögmanna sem þar eiga starfsstöð sína.
Fram kom það sjónarmið að skerðing kjara dómara sem starfa á landsbyggðinni geti gert það að verkum að ekki fáist eins færir og hæfir umsækjendur um slík embætti. Slíkt geti veikt dómskerfið og dregið úr réttaröryggi.
Rök voru talin skorta fyrir því að hverfa frá því að dómarar kjósi úr sínum hópi þann dómara sem þeir treysta til að gegna embætti dómstjóra.
Bent var á að tilvik þar sem allir dómarar við dómstól teljast vanhæfir horfðu með öðrum hætti við þegar starfandi væru fleiri héraðsdómstólar heldur en ef aðeins einn héraðsdómstóll væri við lýði. Ekki væri að sjá að þetta hefði verið skoðað sérstaklega við samningu frumvarpsins.
Nokkrir fundarmenn veltu því fyrir sér hvort tekið væri of stórt skref í einu með frumvarpinu, þ.e. að fækka mætti héraðsdómstólum lítillega í stað þess að fækka þeim strax í einn dómstól.
Bent var á að ná mætti helstu markmiðum frumvarpsins án þess að ráðast í jafn mikla breytingu á dómstólum landsins og að sameina alla héraðsdómstóla í landinu í einn dómstól. Mætti til dæmis efla dómstóla úti á landi með frekari mönnun löglærðra starfsmanna óháð frumvarpinu. Þá mætti dreifa álagi með því að auka heimildir til að flytja mál á milli héraðsdómstóla.
Áhyggjum var lýst af fjármögnun breytinganna þar sem ráðherra virtist ekki sjá fyrir sér að fjármunir fylgdu breytingunum sem fælust í frumvarpinu, jafnvel þótt viðurkennt væri að frumvarpið hefði í för með sér aukinn kostnað.
Nokkrir fundarmenn lýstu þeirri skoðun sinni að viss tækifæri fælust í frumvarpinu, til dæmis þegar kæmi að dreifingu álags. Einnig mætti líta svo á að minnstu starfsstöðvarnar fengju ákveðinn liðsauka með frumvarpinu.
Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að ein mikilvægasta breyting komandi ára í starfsemi dómstóla lýtur að rafrænni málsmeðferð. Slíkt kallar á lagabreytingar sem hefðu í för með sér breytingar á mörgum atriðum sem varða rekstur dómstólanna, til dæmis sérhæfingu og menntun starfsfólks auk margvíslegra tækniþátta. Að mati Dómarafélags Íslands, einkum út frá sjónarmiðum um skilvirkni, virðist einboðið að ljúka slíkum lagabreytingum áður en lengra er haldið, enda liggur þá fyrir hvernig starfsemi dómstólanna verður háttað á komandi árum. Dómarafélag Íslands leggst því gegn samþykkt frumvarpsins að svo stöddu enda liggur ekkert fyrir um hvenær vinnu við stafræna rafvæðingu dómstólanna lýkur. Er vandséð hvaða hagræði felst í einni stofnun, sem dreifð verður á átta starfsstöðvar, án þess að grundvöllur fyrir rekstri slíkrar stofnunar í þeim búningi liggi traustur fyrir. Getur félagið ekki tekið undir það sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu um að starfshópur sá, sem ráðherra skipaði um sameiningu héraðsdómstólanna, teldi „enga ástæðu til að bíða með sameiningu héraðsdómstóla þar til séð verður fyrir endann á þeirri vinnu og að sameining héraðsdómstóla geti búið í haginn fyrir hana.“ Á það er minnt að starfshópurinn var skipaður eftir að ráðherra hafði þegar ákveðið að sameina héraðsdómstólana. Þannig ber að halda því til haga að starfshópnum var ekki falið að meta hvort yfir höfuð væri skynsamlegt að sameina héraðsdómstólana heldur að útfæra pólitíska ákvörðun ráðherra.
Í ljósi framangreinds skal þó tekið fram að Dómarafélag Íslands útilokar ekki að skynsamlegt kunni að vera að sameina héraðsdómstólanna í einn dómstól síðar þegar reynsla er komin á þá stafrænu rafvæðingu sem framundan er og að ýmislegt hagræði geti verið af einum héraðsdómstól. Sú breyting er á hinn bóginn eins og fram er komið ekki tímabær nú. Þá er á það bent að sá asi sem virðist á þessum áformum, en þingmálinu var útbýtt á Alþingi 23. mars sl., er ekki í samræmi við þá málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið til þessa þegar kemur að veigamiklum breytingum á skipan dómsmála hér á landi. Er í því sambandi bent á þann vandaða undirbúning sem viðhafður var við réttarfarsbreytinguna 1992 og stofnun Landsréttar 2018.
Loks mótmælir Dómarafélag Íslands alfarið þeirri fyrirætlan að ekki fylgi sérstök fjárveiting vegna þess tímabundna kostnaðar sem sannanlega mun hljótast af sameiningunni ef af henni verður þrátt fyrir framangreindar athugasemdir félagsins. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að gera megi ráð fyrir að af sameiningu héraðsdómstólanna í einn dómstól muni hljótast tímabundinn kostnaður, sem meðal annars felist í launakostnaði nýs dómstjóra í allt að fimm mánuði, launakostnaði nýs skrifstofustjóra í allt að þrjá mánuði, tvennum árslaunum löglærðra aðstoðarmanna (sem nefnast dómarafulltrúar í frumvarpinu), breytingu á upplýsingakerfum héraðsdómstólanna, prentun nýrra bréfsefna og umslaga og innleiðingu breytinganna og kynningu á þeim. Er þetta í samræmi við það sem fram kom í skýrslu starfshóps ráðherra sem undirbjó frumvarpið. Þá segir jafnframt í athugasemdunum að stofnkostnaður sem af frumvarpinu hljótist muni einkum felast í skilaskyldu skjala skv. 5. mgr. 15. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn, uppfærslu á málaskrárkerfi, breytingum á upplýsingakerfum héraðsdómstigsins, kaupum á búnaði, þ.e. húsgögnum og tækjabúnaði og undirbúningi að skipun þeirra embættismanna sem veita muni sameinuðum héraðsdómi forstöðu. Þrátt fyrir framangreint segir í frumvarpinu að gert sé ráð fyrir að kostnaðurinn rúmist innan ramma gildandi fjárlaga. Dómarafélag Íslands hafnar því og minnir á að sjálfstæði dómstóla felst meðal annars í eðlilegri og traustri fjármögnun á starfsemi þeirra. Fara framangreindar fyrirætlanir gegn því.
Virðingarfyllst,
fyrir hönd Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen
formaður stjórnar
Umsögn um frumvarp – fjölgun dómara við Landsrétt
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis
29. mars 2023
Efni: Umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla nr. 50/2016 (fjölgun dómara við Landsrétt), 822. mál.
Vísað er til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis 16. þessa mánaðar um umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2016 um dómstóla þar sem lagt er til að fjölga dómurum við Landsrétt um einn, úr 15 í 16.
Stjórn Dómarafélags Íslands hefur fjallað um frumvarpið. Ljóst er að vegna ófyrirséðra atvika, sem lýst er í greinargerð með frumvarpinu og urðu eftir að Landsréttur tók til starfa, að röskun varð á starfsemi dómstólsins á fyrstu starfsárum hans. Samkvæmt upplýsingum frá dómstólasýslunni sem lýst er í greinargerð með frumvarpinu hefur þetta ásamt fleiri ástæðum aukið mjög álag við réttinn undanfarin ár og leitt til þess að tafir hafa orðið á meðferð mála. Af upplýsingum um málafjölda og þróun málshraða við dómstólinn verður ráðið að verði ekkert að gert muni málsmeðferðartími við Landsrétt halda áfram að lengjast frá því sem nú er.
Af hálfu félagsins er eindregið tekið undir þau sjónarmið sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu um nauðsyn lagasetningar til að fjölga dómurum við réttinn. Dómarafélag Íslands styður því tillögu um fjölgun dómara við Landsrétt enda stuðlar hún að því að tryggja rétt aðila að dómsmálum til málsmeðferðar innan hæfilegs tíma, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Í tengslum við umfjöllun um fjölda dómara við Landsrétt vill Dómarafélagið nefna sérstaklega að í febrúar á þessu ári var auglýst laust til setningar embætti dómara við réttinn til 28. febrúar 2029 í tengslum við leyfi skipaðs landsréttardómara sem tekið hefur sæti í alþjóðlegum dómstóli. Er þetta í fyrsta skipti sem auglýst er setning dómara til svo langs tíma, eða sex ára samfleytt, en áður hefur verið auglýst embætti dómara við Hæstarétt til setningar í þrjú ár vegna leyfis dómara af sömu ástæðu.
Dómarafélag Íslands bendir á að dómarar við hina almennu dómstóla landsins eru eina stétt embættismanna sem skipaðir eru ótímabundið, sbr. ákvæði laga nr. 50/2016 um dómstóla. Þótt ekki séu bein fyrirmæli þess efnis í stjórnarskránni hefur verið leitt af orðalagi 61. gr. hennar að dómarar skuli skipaðir til óákveðins tíma þar til þeir brjóta af sér eða fullnægja ekki lengur almennum hæfisskilyrðum og færu því lagafyrirmæli um fimm ára skipunartíma gegn þessu ákvæði. Þessi tilhögun hvílir á þeirri grundvallareglu að tryggja beri sjálfstæði dómara og að þeir eigi ekki yfir höfði sér lausn frá embætti að loknum styttri skipunartíma vegna verka sinna.
Þótt þeir sem eru settir til að gegna starfi dómara til fyrirfram ákveðins tíma njóti sömu stöðu og skipaðir dómarar á setningatímanum og sjálfstæði þeirra sé tryggt geta skapast álitaefni um hvort tímabundin setning geti haft áhrif á sjálfstæði og störf dómarans, stefni hann að því að setning verði framlengd eða hann leiti síðar eftir skipun í embætti.
Til að viðhalda skilvirkni dómskerfisins getur verið nauðsynlegt að manna stöður dómara tímabundið, svo sem vegna veikinda eða forfalla fastra dómara. Við slíkar aðstæður er heimilt samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/2016 að setja dómara til allt að tólf mánaða. Þegar slík málefnaleg rök eru fyrir tímabundinni setningu dómara og úrræðið er aðeins nýtt í afmörkuðum og lögmæltum tilvikum verður ekki talið að það fari gegn meginreglunni um sjálfstæði dómara.
Heimild laga nr. 50/2016 til að setja dómara á öllum dómstigum til sex ára, sbr. 3. mgr. 18. gr. um Hæstarétt, 3. mgr. 26. gr. um Landsrétt og 3. mgr. 35. gr. um héraðsdóm, vegna leyfis skipaðs dómara til að starfa hjá alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun er hins vegar af öðrum toga. Hún vekur upp spurningar um hvort svo langur setningartími í dómaraembætti samrýmist sjónarmiðum um sjálfstæði dómstóla sem fyrr er lýst og varið er í stjórnarskrá.
Fyrir liggur að allir umsækjendur um setningu dómara við Landsrétt til sex ára sem lýst var að framan eru héraðsdómarar. Þegar héraðsdómari er settur af þessari ástæðu sem landsréttardómari skal embætti þess fyrrnefnda auglýst laust til setningar annars dómara á leyfistímanum, þ.e. einnig í sex ár, sbr. 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/2016. Sama gildir ef landsréttardómari er settur hæstaréttardómari til sex ára, sbr. 3. mgr. 26. gr. laganna.
Af þessu fyrirkomulagi leiðir að einhvers konar keðja getur skapast í sex ára setningum dómara á öllum dómstigum fái dómari við Hæstarétt leyfi frá störfum til svo langs tíma. Setningartími miðast við þann tíma sem leyfi hins fasta dómara stendur. Af ákvæðum laga er hins vegar ekki ljóst hvernig skuli fara með ef leyfi fasts dómara reynist styttra en áætlað var eða hann lætur af embætti. Þannig er öryggi hins setta dómara í leyfi annars dómara enn minna en ella, enda er starfstími hans í raun þá háður því að engar breytingar verði á leyfi þess dómara sem hann er settur fyrir.
Dómarafélagið telur að lagafyrirmæli um setningu í embætti dómara til sex ára geti dregið úr festu sem þarf að ríkja um skipun dómara og skapað óvissu um stöðu þeirra sem settir eru í embætti til svo langs tíma. Félagið hvetur allsherjar- og menntamálanefnd til að huga að breytingum á fyrirkomulagi um setningu í embætti fyrir dómara sem fær sex ára leyfi frá störfum til að starfa hjá alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun. Einn valkostur gæti verið að bæta við dómstólalögin ákvæði um að fjölga megi tímabundið við dómstól þegar dómari kemur til baka úr slíku leyfi eða að hann geti tekið við embætti sem er laust þegar störfum hans við alþjóðastofnun lýkur. Félagið telur að núverandi skipan sé til þess fallin að stefna sjálfstæði dómara í hættu. Leita þarf leiða til bæta úr því og lýsir félagið sig viljugt til samvinnu í þeim efnum.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen
Umsögn um drög að frumvarpi – sameining héraðsdómstólanna
Dómsmálaráðuneytið
Borgartúni 26
105 Reykjavík
21. febrúar 2023
Efni: Umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarpsdrög í samráðsgátt – sameining héraðsdómstólanna
Vísað er til draga að lagafrumvarpi um sameiningu héraðsdómstólanna sem birtist í samráðsgátt stjórnvalda 10. febrúar sl.
Af hálfu Dómarafélags Íslands er vakin athygli á því að verði þær breytingar, sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum, að lögum yrði þar um að ræða stærstu breytingu á skipan héraðsdómstólanna í rúmlega 30 ára sögu þeirra. Komi til þess að ráðherra leggi fram á Alþingi frumvarp um slíka sameiningu mun félagið fjalla nánar um málið og skila umsögn um það.
Dómarafélagið bendir á að dómstólar hafa sérstaka stöðu samkvæmt 2. gr. og ákvæðum V. kafla stjórnarskrárinnar. Því er mikilvægt að hafa að leiðarljósi við skipulagsbreytingar af þessum toga að þær ógni ekki stjórnskipulegu sjálfstæði dómstóla, bæði sem stofnana svo og sjálfstæði einstaka dómara í störfum sínum. Þótt frumvarpsdrögin feli í sér grundvallarbreytingar á skipulagi héraðsdómstóla í landinu verður ekki séð að í undirbúningnum hafi verið metið sérstaklega hvort og þá hvaða áhrif slík nýskipan hefur mögulega á sjálfstæði dómstóla þar á meðal starfskjör dómara og hvernig er tryggt að breytingarnar standist þær kröfur sem leiddar verða af ákvæðum stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga í þessum efnum. Dómarafélagið telur mikilvægt að slík vinna fari fram komi til þess að frumvarp byggt á fyrirliggjandi drögum verði lagt fram á Alþingi, enda er löggjafanum nauðsynlegt að geta metið breytingar út frá þessum fyrirmælum stjórnarskrárinnar.
Virðingarfyllst,
Stjórn Dómarafélags Íslands
Aðalfundur Dómarafélags Íslands 2018
Aðalfundur Dómarafélags Íslands 2018 verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15 í Reykjavík, föstudaginn 23. nóvember nk.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands 2018 verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15 í Reykjavík, föstudaginn 23. nóvember nk.
D A G S K R Á
Kl. 14:00 Fundarsetning og ávarp: Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands
Ávarp fjármálaráðherra
Ávarp formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis
Ávarp formanns Lögmannafélags Íslands
Kl. 15:00 Kaffi
Kl. 15.20 Skúli Magnússon héraðsdómari: Fullveldi og dómstólar, í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands
Kl. 16:20 Aðalfundarstörf:
a) skýrsla stjórnar
b) reikningar félagsins
c) ákvörðun árgjalds
d) kosning stjórnar og varamanna
e kosning endurskoðanda
f) önnur mál
Kl. 17:00 Fundarslit – Léttar veitingar
Athygli er vakin á 3. og 4. mgr. 4. gr. laga félagsins sem hljóðar svo: Framboð til formanns og stjórnar félagsins skal tilkynna til stjórnar félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir boðaðan aðalfund. Ber stjórn að tilkynna félagsmönnum um framboð eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn.[/] Atkvæðisrétt hafa einungis þeir félagsmenn sem staddir eru á aðalfundi.
Í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga félagsins er tilkynnt að stjórnarmennirnir Hildur Briem og Sandra Baldvinsdóttir gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Að öðru leyti gefur sitjandi stjórn kost á sér til áframhaldandi setu í stjórninni, þ.e. Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Kjartan Bjarni Björgvinssonar og Karl Axelsson.
Stjórnin væntir þess að sem flestir félagsmenn mæti til fundarins. Óskað er eftir að tilkynning um þátttöku á fundinn verð send í síðasta lagi miðvikudaginn 28. nóvember á netfangið ingibjorg.thorsteinsdottir@domstolar.is
Hádegisverðarfundur 29. maí 2018
Lögmannafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Dómarafélag Íslands efna til hádegisverðarfundar um #metoo byltinguna og ávinning hennar
Samtal um siðmenningu
#metoo byltingin og lögfræðingastéttin
Lögmannafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Dómarafélag Íslands efna til hádegisverðarfundar þriðjudaginn 29. maí kl. 12.00-13.15 um #metoo byltinguna og ávinning hennar í H sal á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2. Þessi stórmerkilega bylting hefur afhjúpað hegðun og framferði innan fjölmargra stétta, þar á meðal lögfræðinga, sem hefur legið í þagnarhjúpi og þannig verið samþykkt og viðurkennd. En ekki meir og ekki lengur, þökk sé þeim sem hafa opnað umræðuna og deilt reynslu sinni.
Á fundinum mun Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari fjalla um hin skráðu lög og dr. Salvör Nordal heimspekingur, umboðsmaður barna, um óskráðar reglur í samfélagi manna.
Að loknum erindum munu formenn félaganna þriggja sem standa að fundinum, þau Berglind Svavarsdóttir lögmaður, verðandi formaður Lögmannafélags Íslands, Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari, formaður Lögfræðingafélags Íslands og Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari, formaður Dómarafélags Íslands, ræða um hvort og þá hvað félögin geti gert til að koma í veg fyrir brot á óskráðum meginreglum um mannleg samskipti. Hver eru næstu skref og hvaða aðgerða er þörf? Er hægt að koma á hugarfarsbreytingu um ásættanlega hegðun í samfélaginu og hvernig ætlum við að breyta því ástandi sem sögur í #metoo byltingunni hafa afhjúpað?
Fundarstjóri verður Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður, formaður Félags kvenna í lögmennsku.
Skráning stendur yfir til kl. 13.00 mánudaginn 28. maí 2018. Verð kr. 4.000,- hádegisverður innifalinn.
Skráning á lmfi.is
Ávarp fráfarandi formanns á aðalfundi DÍ 24. nóvember 2017
Skúli Magnússon héraðsdómari lét af störfum sem formaður DÍ á aðalfundi félagsins 24. nóvember sl. Hér má lesa ávarp Skúla sem hann flutti á fundinum.
Skúli Magnússon héraðsdómari lét af störfum sem formaður DÍ á aðalfundi félagsins 24. nóvember sl. Hann hefur verið formaður félagsins sl. fjögur ár. Voru honum færðar þakkir félagsmanna fyrir góð störf í þágu félagsmanna og dómstólanna í landinu.
Hér fyrir neðan má lesa ávarp Skúla sem hann flutti á fundinum.
Ávarp formanns DÍ á aðalfundi 2017
forseti Hæstaréttar Íslands
frú dómsmálaráðherra
formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis
formaður Lögmannafélags Íslands
formaður dómstólasýslunnar
ágætu dómarar og aðrir félagsmenn í DÍ
dömur mínar og herrar.
Ég vil sérstaklega bjóða velkomna á þennan aðalfund Dómarafélags Íslands nýskipaða dómara við Landsrétt. Ég leyfi mér að vona að hinn 1. janúar nk., þegar Landsréttur tekur á ný til starfa eftir 98 ára hlé, munið þið kjósa að vera félagsmenn í Dómarafélagi Íslands.
Dómarafélag Íslands á rætur sínar í félagi héraðsdómara sem stofnað var í október árið 1941. Félagið á sér því nálægt 76 ára sögu. Félagið státar af þeim einstæða árangri, leyfi ég mér að segja, að allir starfandi dómarar landsins eru meðlimir í félaginu. Ekki vegna þess að það sé skylt með lögum – svo er auðvitað ekki – heldur vegna þess að þeir kjósa að vera félagar. Af þessu má draga þá ályktun að dómarar á Íslandi styðji eindregið það grundvallarhlutverk félagsins að standa vörð um sjálfstæði dómara og dómstóla og telji mikilvægt að fyrir hendi sé félag sem getur verið málssvari dómarastéttarinnar.
Því miður er staða félaga dómara úti í hinum stóra heimi ekki alls staðar góð. Í Tyrklandi hefur félag dómara, skst. YARSAV, verið leyst upp og stjórnvöld beitt sér fyrir stofnun nýs félags. Þetta nýja félag hefur sótt um inngöngu í alþjóðasamtök dómara sem DÍ er aðili að. Hinu nýja félagi hefur verið synjað um inngöngu af þeirri augljósu ástæðu að við dómarar föllumst ekki á umrædda aðgerð tyrkneskra stjórnvalda og lítum svo á að YARSAV sé áfram réttur fulltrúi tyrkneskra dómara á okkar vettvangi, alþjóðasamtaka dómara. YARSAV, og reyndar einnig alþjóðasamtök dómara, hafa í framhaldinu verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök af tyrkneskum stjórnvöldum. Í landinu bíða fleiri hundruð dómara – eða þúsundir – þetta vitum við ekki með vissu – réttarhalda vegna saka sem í besta falli eru óljósar og mjög almenns eðlis. En eitt af því sem dómurunum virðist gefið að sök er að hafa tekið virkan þátt í starfi tyrkneska dómarafélagsins og alþjóðasamtaka dómara. Alþjóðasamtök dómara eru með öðrum orðum talin hryðjuverkasamtök.
Í fleiri löndum er sótt að félögum dómara. Í Búlgaríu hafa dómarar verið skyldaðir til þess að skrá opinberlega aðild sína að félagi dómara þar í landi. Þessi aðgerð varð til þess að umtalsverður fjöldi dómara taldi hag sínum best borgið með því að skrá sig úr félaginu. Þannig náðu stjórnvöld markmiði sínu.
Allt vekur þetta upp spurninguna: Til hvers eru félög dómara? Hvers vegna er réttur dómara til að hafa með sér félag sérstaklega áréttaður í alþjóðasáttmálum og yfirlýsingum? Og hvers vegna er þar einnig sérstaklega minnst á rétt dómara til að taka þátt í alþjóðlega samstarfi.
Svarið er í grófum dráttum það að félög dómara gegna veigamiklu hlutverki við að stuðla að og tryggja sjálfstæði dómara, sem og dómsvaldsins í heild. Félag dómara færir hverjum og einum dómara heim sanninn um að hann eða hún er aðili að samfélagi – samfélagi sem veitir stuðning með bæði beinum og óbeinum hætti, ekki síst með miðlun upplýsinga.
Innan dómarafélags ræða dómarar mál sem brenna á dómurum og dómskerfinu. Eitt slíkt framfaramál eru siðareglur dómara sem verða til umfjöllunar hér síðar í dag og kunna að verða bornar upp til samþykktar, ef sá er almennur vilji félagsmanna.
Dómarafélag er einnig málssvari dómara og í sumum tilvikum málssvari dómskerfisins í heild. Dómarafélag getur verið í þeirri stöðu að þurfa að veita ríkisvaldinu aðhald, t.d. þegar um er að ræða breytingar á dómskerfinu. Dómarafélag getur þó einnig þurft að bregðast við þrýstingi úr öðrum áttum ef það á að standa undir nafni sem málssvari dómara. Að því mun ég víkja nánar síðar í ræðu minni.
DÍ er því ekki hádegisverðarklúbbur eða fordild vel haldinna embættismanna heldur stofnun sem er í reynd hluti af gangverki sjálfstæðs dómsvalds og ein af forsendunum fyrir viðhaldi réttarríkis. Með hliðsjón af því samfélagslega hlutverki sem félagið gegnir höfum við dómarar því talið eðlilegt að við nytum einhvers stuðnings hins opinbera, enda erum við það fáir að félagsgjöld hrökkva skammt. Misvel hefur gengið að afla þessa stuðnings svo ekki sé meira sagt. Í ár var framlag dómsmálaráðuneytisins til félagsins aðeins 500.000 krónur.
Við núverandi aðstæður leyfi ég mér að spyrja hvort yfirhöfuð sé unnt sé halda uppi trúverðugu starfi félags dómara. DÍ hefur ekki aðgang að starfsmanni eða starfsaðstöðu. Allt starf er unnið í sjálfboðavinnu án þess að þeir sem þar koma að málum fái einhvers konar afslátt af sínum vinnuskyldum, svo sem tíðkast á flestum norðurlöndum. Heimasíða félagsins er úrelt og ekkert fé er til þess að uppfæra hana eða halda henni uppfærðri. Helsti kostnaður félagsins er útlagður kostnaður vegna þátttöku í alþjóðasamstarfi dómara. Miðað við núverandi fjárhagsforsendur er erfiðleikum bundið að taka þátt í alþjóðasamvinnu dómara.
Einn valkostur, sem ræddur hefur verið á göngum dómhúsa landsins, er sá að leggja félagið niður í núverandi mynd. Verkefni félagsins færu þá með einum eða öðrum hætti til nýstofnaðrar dómstólasýslu sem er fyrirkomulag sem við þekkjum hjá ríkjum sem við viljum helst ekki bera okkur saman við. Ég vona auðvitað að sú verði ekki niðurstaðan og að hagur félagsins vænkist. Hitt er ljóst að núverandi forsendur fyrir rekstri félagsins eru ófullnægjandi svo að félagið geti gegnt hlutverki sínu með viðunandi hætti.
Ég kalla því eftir auknum skilningi ráðamanna á eðli þeirra starfa sem DÍ vinnur, ekki í þágu þröngra hagsmuna dómara, heldur í þágu dómskerfisins í heild sinni og þar með til almannaheilla.
Góðir fundarmenn:
Svo sem ég hef nú vikið að er eitt af hlutverkum DÍ að vera málssvari dómara, ekki aðeins gagnvart stjórnvöldum heldur einnig gagnvart samfélaginu. Í reynd hefur það ítrekað fallið í hlut DÍ að vera málssvari dómskerfisins á breiðari grundvelli, enda er ekki alltaf einfalt að greina á milli hagsmuna dómara og þeirra stofnana sem þeir hafa helgað ævistarf sitt.
Ég árétta þetta hér og nú vegna þess að þegar litið er yfir fjölmiðlaumfjöllun síðustu ára er ljóst að íslenskir dómarar og dómstólar hafa ítrekað þurft að sæta mjög neikvæðri og í ýmsum tilvikum ómálefnalegri umfjöllun í opinberri umræðu.
Umræða um ofurlaunahækkanir dómara á árinu 2015 var einkum rekin áfram af Fréttablaðinu en teygði einnig anga sína til annarra fjölmiðla samsteypunnar 365 miðla. Ítrekað voru fluttar fréttir af margra tuga prósenta launahækkun dómara þegar allir þeir sem vildu kynna sér málið gátu séð að raunveruleg hækkun á launum dómara samkvæmt úrskurði Kjararáðs í árslok 2014 hafði numið 6-7%. Umfjöllunin þjónaði þeim augljósa tilgangi að skapa þá mynd af dómurum hjá almenningi að þeir væru einhvers konar forréttindahópur. Engu máli skipti þótt umfjöllunin væri leiðrétt, blaðið hélt við sinn keip. Það var ekki fyrr en ítrekuð skrif blaðsins voru kærð til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sem þessu linnti.
En þá var nýr þráður fundinn hjá Fréttablaðinu til þess að ræða dómara með neikvæðum hætti – atriði sem vinsælt er að nota víða um heim þegar ráðast á að dómurum og dómskerfinu: Aukastörf dómara og fjármál þeirra. Tekið var til við að fjalla um reglur um hagsmunaskráningu dómara. Og það er auðvelt að selja almenningi þá hugmynd að dómarar eigi að vera algerlega upphafnir, lausir við öll hagsmunatengsl og án hvers kyns fyrirframgefinna skoðana. Og það er einnig auðvelt að selja þá hugmynd að allt eigi að vera uppi á borðum: Að líf dómara eigi að vera eins og opin bók, hverjum sem vill aðgengileg.
Ég minnist þess að hafa átt samtal við blaðamann Fréttablaðsins sem spurði mig hvers vegna í ósköpunum dómarar þyrftu að eiga hlutabréf eða hluti í hlutabréfasjóðum. Hvers vegna þeir gætu ekki haft sinn sparnað inn á sparisjóðsbók? Þegar leið á samtalið varð mér ljóst að blaðamaðurinn hafði hringt í mig til tjá sínar skoðanir á málinu en ekki til þess að taka eiginlegt viðtal. Það þurfti svo sem ekki að koma á óvart. Fréttablaðið flutti reyndar frétt um aukastörf þess sem hér talar. Sú frétt er væntanlega fæstum í minni enda var þar afskaplega lítið kjöt á beinunum.
Síðastliðinn desember, fyrir tæpu ári, keyrði svo um þverbak. Þá birti Fréttablaðið á forsíðu sinni myndir af persónulegum gögnum þáverandi forseta Hæstaréttar sem augljóslega stöfuðu frá fyrrum viðskiptabanka hans. Gögnin hlutu því að hafa verið illa fengin. Kvöldið áður hafði Kastljós RÚV flutt langa frétt sem greinilega var byggð á sömu gögnum. Á næstu dögum birti Fréttablaðið myndir af fleiri nafngreindum hæstaréttardómurum og upplýsingar um hlutabréfaeignir þeirra.
Upphaflega var fréttin sú að tilteknir dómarar, þ.á m. forseti Hæstaréttar, hefðu ekki tilkynnt um hlutabréfaeign sína samkvæmt gildandi lögum og reglum. Sá fréttaflutningur reyndist þó fljótt haldlaus, a.m.k. að öllu verulegu leyti. Þeir dómarar sem um var að ræða, a.m.k. þeir sem fjölmiðillinn hafði mestan áhuga á, höfðu tilkynnt um hlutabréfaeign sína samkvæmt reglum þótt nefnd um störf dómara hefði illa haldið á skráningu upplýsinga hjá sér. Þetta skipti þó litlu máli því nú var kvæðinu einfaldlega vent í kross og hafin umfjöllun um að hlutaðeigandi dómarar hefðu verið vanhæfir í málum þess banka sem þeir höfðu átt hlutabréf í en samt sem áður tekið þátt í afgreiðslu þeirra. Og enn og aftur var boltinn gefinn upp með það að reglur á Íslandi um aukastörf dómara og skráningu þessara starfa væru með einhverjum hætti stórgallaðar og frábrugðnar því sem almennt tíðkast. Almenningur í landinu átti að fá það á tilfinninguna að eitthvað meiriháttar væri að í dómskerfinu.
Öll þessi uppákoma byggði á illa fengnum gögnum frá Glitni banka. Því gat ekki farið á milli mála hvaða tilgangi afhending gagnanna til blaðamanna átti að þjóna. Allt ber þetta að sama brunni: Um var að ræða þaulskipulagða aðgerð til að koma höggi á trúverðugleika íslenskra dómstóla, hugsanlega að reyna knýja tiltekna dómara til að segja af sér embætti.
Í nýjum grunnsáttmála dómara (Universal Charter of the Judge) sem samþykktur var einróma fyrir rúmri viku á fundi alþjóðasamtaka dómara í Santiago í Chile segir meðal annars að dómari eigi að geta farið með vald sitt án félagslegs, efnahagslegs og pólitísks þrýstings.
The judge, as holder of judicial office, must be able to exercise judicial powers free from social, economic and political pressure, and independently from other judges and the administration of the judiciary.
Þar segir einnig að forðast eigi gagnrýni á dóma, sem vegi að sjálfstæði dómsvaldsins eða grafi undan trúverðugleika þess gagnvart almenningi. Ef slíkar ásakanir séu settar fram eigi að vera fyrir hendi viðeigandi ferlar þannig unnt sé að hefja mál og hagsmunir viðkomandi dómara séu verndaðir.
Any criticism against judgements, which may compromise the independence of the judiciary or jeopardise the public’s confidence in the judicial institution, should be avoided. In case of such allegations, appropriate mechanisms must be put in place, so that lawsuits can be instigated and the concerned judges can be properly protected.
Sú staða sem upp var komin í lok sl. árs var augljóslega óviðunandi með hliðsjón af þessum kröfum. Öllum mátti vera ljóst að verið var að beita dómara, íslenska dómskerfið, þrýstingi og það með samstilltum aðgerðum.
Hvað gekk þeim aðila eða aðilum til sem öfluðu persónlegra gagna með ólögmætum hætti – væntanlega með því að greiða fyrir þau – og komu þeim til tiltekinna fjölmiðla? Þeirri spurningu hefur enn ekki verið svarað enda hafa fjölmiðlar – með örfáum undanteknum – ekki hirt um að spyrja hennar. Sami aðili eða sömu aðilar geta því endurtekið leikinn og munu eflaust gera það. Hverju hafa þeir að tapa?
Það hlýtur að vekja athygli að þegar þessar aðstæður voru komnar upp sá dómsmálaráðherra eða annar fulltrúi ríkisstjórnar enga ástæðu til þess að skerast í leikinn með einhverjum hætti, t.d. með því að lýsa því yfir að íslenskt dómskerfi væri í það heila tekið traust. Ekki verður heldur séð að Alþingi eða alþingismenn hafi brugðist við málinu með nokkrum hætti. Hugsanlega fannst stjórnmálamönnum þessa lands sú staða sem upp var komin bara allt í góðu lagi eða hvað?
Að síðustu verður ekki hjá því litið að einn af þeim sem harðast gekk fram í umræðunni, Jón Steinar Gunnlaugsson, var starfandi lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari. Hvort Jón Steinar tók þátt í því að skipuleggja þessar aðgerðir frá grunni eða hvort hann samsamaði sig þeim, þegar hann varð þeirra áskynja, verður hann svara sjálfur fyrir. Hver og einn getur einnig svarað því hvort og með hvaða hætti framganga Jóns Steinars var samræmanleg siðferðilegum skyldum hans sem starfandi lögmanns sem og skyldum hans sem fyrrverandi dómara við Hæstarétt Ísland. Ekki síst ætti Jón Steinar að reyna að gera það sjálfur.
Þeir sem ýttu úr vör þeirri umfjöllun sem ég hef hér gert að umtalsefni náðu kannski ekki ítrustu markmiðum sínum, hugsanlega þeim að knýja tiltekinn dómara eða tiltekna dómara til að segja af sér. Þeir náðu hins vegar vafalaust því markmiði sínu að skaða trúverðugleika íslenskra dómstóla. Í árslok 2016 mældist traust á íslenskum dómstólum skv. þjóðarpúlsi Gallup í sögulegu lágmarki eða einungis 32%.
Dómarar eru í afar þröngri stöðu til að tjá sig opinberlega og verjast ómálefnalegum málflutningi og röngum ásökunum. Og auðvitað má gagnrýna dómstóla og úrlausnir þeirra og jafnvel dómarana sjálfa. Það er hins vegar munur á gagnrýnni umræðu og svo hreinni niðurrifsstarfsemi.
Við verðum því að verulegu leyti að treysta á fjölmiðlana sjálfa og, þegar mikið gengur á, aðrar stofnanir ríkisins, þ.á m. stjórnsýslu dómstólanna og ráðherra dómsmála. Að mínu mati hafa þessir innviðir reynst vera fyrir hendi í mjög takmörkuðum mæli á þessum síðustu árum þegar dómskerfið hefur þurft að takast á við holskeflu mála sem rætur eiga í hruni á fjármálamörkuðum haustið 2008.
Þegar á allt þetta er litið er það þar af leiðandi e.t.v. ekki furðulegt þótt tiltekinn dómari hafi nýlega misst þolinmæðina og ákveðið að nota það úrræði sem lögin bjóða honum, þ.e. að höfða meiðyrðamál vegna alvarlegra ávirðinga um störf hans og annarra dómara í tilteknu dómsmáli.
Ég get ekki tekið afstöðu til þess máls. Ég get hins vegar ekki annað en haft skilning á því sjónarmiði að þær ásakanir sem hér eru bornar á dómara séu þess eðlis að þær verði ekki einfaldlega látnar liggja frammi óhreyfðar og ósvarað.
Góðir fundarmenn: Umfjöllun hér á landi um íslenska dómstóla og dómara einkennist því miður alltof oft af þekkingarleysi á þeim stofnunum sem hér er um að ræða og í sumum tilvikum af hreinu virðingarleysi fyrir dómsvaldinu. Þar eru stjórnmálamenn ekki undanskildir.
Á þeim árum sem ég hef gegnt formennsku í DÍ höfum við í stjórn félagsins gert það sem höfum getað til að rétta þessa slagsíðu af. Og við höfum góðan málsstað vegna þess að íslenskt dómskerfi er í það heila tekið skilvirkt og gott, íslenskir dómarar eru heiðarlegir og vinna sín störf almennt af kunnáttu og samkvæmt bestu vitund og samvisku, stundum við erfiðar aðstæður.
Á þessum tímamótum, þegar ég vík sem formaður DÍ, get ég ekki neitað því að það er sárt til þess að vita að það sem við höfum þó gert, hefur ekki verið nóg og staðan í dag er að ýmsu leyti verri en hún var fyrir nokkrum árum.
Góðir fundarmenn:
Í ávarpi mínu á aðalfundi DÍ fyrir ári síðan ítrekaði ég mikilvægi þess að eins mikill friður ríkti um skipan landsréttardómara og kostur væri. Vonir mínar um þetta gengu því miður ekki eftir eins og öllum er kunnugt.
Í ávarpi mínu fyrir ári ítrekaði ég einnig mikilvægi þess að finna nýjum dómstól viðeigandi húsnæði sem endurspeglar hlutverk og stöðu hans með viðeigandi hætti. Það bráðabirgðahúsnæði í Kópavogi sem ætlað er dómstólnum fullnægir ekki þessu skilyrði og áhyggjur eru meðal dómara um að bygging eiginlegs dómhúss geti dregist úr hófi, jafnvel ótiltekið. Engin yfirlýsing liggur enn sem komið fyrir um að byggt verði nýtt dómhús miðsvæðis í Reykjavík fyrir Landsrétt.
Því er ekki að leyna að ég hefði viljað sjá Landsrétt hefja störf við annan og jákvæðari aðdraganda. Engu að síður er stofnun nýs Landsréttar enn sem fyrr ljósið í myrkrinu þessa stundina. Í þessari kerfisbreytingu felst hið stóra sóknarfæri okkar í dag, ekki síst vegna þess að samhliða Landsrétti mun sameiginleg stjórnsýsla dómstólanna einnig verða efld.
Við stöndum því nú á tímamótum í íslenskri dómstólaskipan og hljótum fyrst og fremst að horfa fram á veginn. Látum þetta tækifæri ekki úr höndum okkar ganga til að ná í orði og á borði þeim markmiðum sem stefnt er að með stofnun nýs Landsréttar og tilkomu þriggja dómstiga og efla með þessu traust á íslensku dómskerfi.
Að þessu sögðu segi ég aðalfund Dómarafélags Íslands árið 2017 settan.
Nýr formaður DÍ
Á aðalfundi DÍ 24. nóvember sl. var Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, kosin nýr formaður DÍ.
Á aðalfundi DÍ 24. nóvember sl. var Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, kosin nýr formaður Dómarafélags Íslands en hún hefur verið varaformaður félagsins sl. þrjú ár. Skúli Magnússon, sem verið hefur formaður DÍ frá árinu 2013, gaf ekki kost á sér til embættisins. Þá var Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, kosinn í stjórn félagsins í fyrsta sinn. Auk Ingibjargar og Kjartans sitja í stjórninni þau Hildur Briem, dómstjóri Héraðsdóms Austurlands, Karl Axelsson hæstaréttardómari og Sandra Baldvinsdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness.
Siðareglur dómara
Siðareglur íslenskra dómara voru samþykktar samhljóða á síðasta aðalfundi Dómarafélags Íslands 24. nóvember sl.
Siðareglurnar hafa verið í undirbúningi frá því á aðalfundi félagsins í nóvember 2014 en rætt hefur þó verið til lengri tíma innan félagsins um að skrásetja slíkar reglur. Á fundinum var ákveðið að setja á fót vinnuhóp á vegum félagsins sem stýrði undirbúningi og gerð siðareglnanna. Vinnuhópinn skipuðu héraðsdómararnir Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Sandra Baldvinsdóttir og Hjördís Hákonardóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari.
Afrakstur vinnu hópsins eru tillögur að fyrstu skrásettu siðareglum íslenskra dómara sem samþykktar voru óbreyttar á síðasta aðalfundi, 24. nóvember 2017. Siðareglurnar má finna hér.
Frekari upplýsingar veitir Ingibjörg Þorsteindóttir formaður félagsins.
Siðareglurnar má lesa hér á síðunni.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands 2017
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15, Reykjavík, föstudaginn 24. nóvember 2017.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15, Reykjavík, föstudaginn 24. nóvember 2017.
Dagskrá fundarins er að finna hér fyrir neðan.
D A G S K R Á
Kl. 14:00 Fundarsetning og ávarp: Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands
Ávarp dómsmálaráðherra
Ávarp formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar
Ávarp formanns LMFÍ
Kl. 15:00 Kaffi
Kl. 15.20 Siðareglur dómara – Kynning á drögum, umræður og atkvæðagreiðsla.
Kl. 16:30 Aðalfundarstörf:
a) skýrsla stjórnar
b) reikningar félagsins
c) ákvörðun árgjalds
d) kosning stjórnar og varamanna
e) kosning endurskoðanda
f) önnur mál
Athygli er vakin á 3. og 4. mgr. 4. gr. laga félagsins sem hljóðar svo: Framboð til formanns og stjórnar félagsins skal tilkynna til stjórnar félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir boðaðan aðalfund. Ber stjórn að tilkynna félagsmönnum um framboð eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn. [/] Atkvæðisrétt hafa einungis þeir félagsmenn sem staddir eru á aðalfundi.
Í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga félagsins er tilkynnt að Skúli Magnússon formaður gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Að öðru leyti gefur sitjandi stjórn kost á sér til endurkjörs: Hildur Briem, Karl Axelsson, Sandra Baldvinsdóttir og Ingibjörg Þorsteindóttir.
Kl. 17:00 Fundarslit – Léttar veitingar
Tilkynningu um þátttöku á fundinn skal senda eigi síðar en miðvikudaginn 20. nóvember á netfangið skuli (hjá) domstolar.is.
Ályktun Dómarafélags Íslands um hagsmunaskráningu og upplýsingar um aukastörf dómara
Samþykkt á fundi félagsins 1. febrúar 2017
Í tilefni af umfjöllun í fjölmiðlum um skráningu aukastarfa og fjárhagslega hagsmuna dómara, svo og opinbera birtingu slíkra upplýsinga, árétta dómarar í Dómarafélagi Íslands mikilvægi þess að um þessi efni gildi skýrar reglur sem tryggi gagnsæi og trúverðugleika dómskerfisins.
Dómarar hafa jafnframt skilning á því að heimildir þeirra til að sinna aukastörfum og eiga hluti í félögum þurfi að sæta takmörkunum og einnig að eðlilegt er að upplýsingar um þessi atriði séu að ákveðnu marki aðgengilegar almenningi.
Í ljósi framangreinds telja dómarar rétt að gildandi lög og reglur um skráningu aukastarfa og fjárhagslegra hagsmuna þeirra, svo og opinber birting þessara upplýsinga, verði teknar til endurskoðunar með það fyrir augum að herða reglurnar til samræmis við það þar sem lengst er gengið í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Meðal annars verði að því stefnt að eignarhlutir dómara í fyrirækjum yfir ákveðnum mörkum verði birtar opinberlega. Lýsa dómarar sig reiðubúna til að taka þátt í vinnu við slíka tafarlausa endurskoðun.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands 2016
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn í Safnahúsinu (áður Þjóðmenningarhúsið), Hverfisgötu 15, Reykjavík, föstudaginn 13. nóvember 2014 og hefst kl. 15:30.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn föstudaginn 25. nóvember 2016, í Safnahúsinu (áður Þjóðmenningarhúsið), Hverfisgötu 15, Reykjavík, og hefst kl. 13:00.
Dagskrá fundarins er að finna hér fyrir neðan.
Dagskrá:
Kl. 13:00 Fundarsetning: Skúli Magnússon, formaður DÍ.
Ávarp ráðherra.
Ávarp formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Ávarp formanns LMFÍ.
Kl. 13:50 Hlé
Kl. 14:00 Framsaga: „Traust á íslenskum dómstólum“.
Daði Heiðar Kristinsson, lögfræðingur og félagsfræðingur.
Kl. 15:00 Pallborðsumræður í framhaldi af framsögu.
Kl. 16:00 Kaffihlé.
Kl. 16:15 Aðalfundarstörf:
1. skýrsla stjórnar
2. reikningar félagsins
3. ákvörðun árgjalds
4. kosning stjórnar og varamanna
5. kosning endurskoðanda
6. sjóður alþjóðasamtaka dómara til styrktar bágstöddum (tyrkneskum) dómurum
7. kynning á vinnu við mótun siðareglna dómara
8. önnur mál
Kl. 17:00 Fundarslit: Ingibjörg Þorsteinsdóttir varaformaður DÍ.
Að loknum fundi verður boðið upp á léttar veitingar í veitingasal á 2. hæð.
Athygli er vakin á 3. og 4. mgr. 4. gr. laga félagsins sem hljóðar svo:
Framboð til formanns og stjórnar félagsins skal tilkynna til stjórnar félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir boðaðan aðalfund. Ber stjórn að tilkynna félagsmönnum um framboð eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn.
Atkvæðisrétt hafa einungis þeir félagsmenn sem staddir eru á aðalfundi.
Í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga félagsins er tilkynnt að Skúli Magnússon formaður gefur kost á sér til endurkjörs og stjórnarmennirnir Hildur Briem, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Karl Axelsson og Sandra Baldvinsdóttir.
Tilkynningu um þátttöku á fundinn skal senda eigi síðar en miðvikudaginn 23. nóvember með svari á þennan póst, netfangið sandra (hjá) domstolar.is.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands 2015
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn í Safnahúsinu (áður Þjóðmenningarhúsið), Hverfisgötu 15, Reykjavík, föstudaginn 13. nóvember 2014 og hefst kl. 15:30.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn í Safnahúsinu (áður Þjóðmenningarhúsið), Hverfisgötu 15, Reykjavík, föstudaginn 13. nóvember 2014 og hefst kl. 15:30.
Dagskrá fundarins er að finna hér fyrir neðan.
D A G S K R Á
Kl. 15:30 Fundarsetning og ávarp: Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands
Ávarp innanríkisráðherra, Ólafar Nordal
Ávarp formanns eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis, Ögmundar Jónassonar
Ávarp formanns LMFÍ, Reimars Péturssonar hrl.
Kl. 16:15 Kaffi
Kl. 16:30 Aðalfundarstörf:
a) skýrsla stjórnar
b) reikningar félagsins
c) ákvörðun árgjalds
d) kosning stjórnar og varamanna
e) kosning endurskoðanda
f) kynning á starfi starfshóps um mótun siðareglna
g) önnur mál
Athygli er vakin á 3. og 4. mgr. 4. gr. laga félagsins sem hljóðar svo: Framboð til formanns og stjórnar félagsins skal tilkynna til stjórnar félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir boðaðan aðalfund. Ber stjórn að tilkynna félagsmönnum um framboð eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn. [/] Atkvæðisrétt hafa einungis þeir félagsmenn sem staddir eru á aðalfundi.
Í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga félagsins er tilkynnt að Skúli Magnússon formaður gefur kost á sér til endurkjörs og stjórnarmennirnir, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Hildur Briem og Sandra Baldvinsdóttir. Ólafur Börkur Þorvaldsson gefur ekki kost á sér til endurkjörs.
Kl. 17.15 Þorbjörn Broddason prófessur emeritus: Dómstólar og fjölmiðlar
Kl. 18:00 Fundarslit – Léttar veitingar
Tilkynningu um þátttöku á fundinn skal senda eigi síðar en miðvikudaginn 10. nóvember á netfangið skuli (hjá) domstolar.is. Gert er ráð fyrir því að fundarmenn geti sótt kvöldverð á eigin kostnað í sölum Safnahússins í beinu framhaldi af fundinum. Matseðill og skráning vegna þessa verður tilkynnt sérstaklega.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands 2014
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn í Safnahúsinu (áður Þjóðmenningarhúsið), Hverfisgötu 15, Reykjavík, föstudaginn 21. nóvember 2014 og hefst kl. 15:00.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn í Safnahúsinu (áður Þjóðmenningarhúsið), Hverfisgötu 15, Reykjavík, föstudaginn 21. nóvember 2014 og hefst kl. 15:00.
Dagskrá fundarins er að finna hér fyrir neðan.
Dagskrá:
Kl. 15:00 Fundarsetning: Skúli Magnússon, formaður DÍ.
Ávarp ráðherra.
Ávarp formanns LMFÍ, Jónasar Þórs Guðmundssonar hrl.
Kl. 15:30 Aðalfundarstörf:
a) skýrsla stjórnar
b) reikningar félagsins
c) ákvörðun árgjalds
d) kosning stjórnar og varamanna
e) kosning endurskoðanda
f) Tillaga stjórnar um breytingu á lögum félagsins (aukaaðild settra dómara og aðstoðarmann)
g) önnur mál
Athygli er vakin á 3. og 4. mgr. 4. gr. laga félagsins sem hljóðar svo:
Framboð til formanns og stjórnar félagsins skal tilkynna til stjórnar félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir boðaðan aðalfund. Ber stjórn að tilkynna félagsmönnum um framboð eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn.
Atkvæðisrétt hafa einungis þeir félagsmenn sem staddir eru á aðalfundi.
Í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga félagsins er tilkynnt að Skúli Magnússon formaður gefur kost á sér til endurkjörs og stjórnarmennirnir Hildur Briem, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sandra Baldvinsdóttir. Áslaug Björgvinsdóttir gefur ekki kost á sér til endurkjörs.
Kl. 16:00 Kaffi.
Kl. 16:15 Erindi og umræður: Siðareglur starfstétta. Róbert H. Haraldsson heimspekingur.
Kl. 17:00 Fundarslit.
Kl. 17-18:00 Léttar veitingar.
Tilkynningu um þátttöku á fundinn skal senda eigi síðar en miðvikudaginn 19. nóvember á netfangið sandra (hjá) domstolar.is.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands 2013
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn á veitingastaðnum Höfnin, Geirsgötu 7c, Reykjavík, föstudaginn 29. nóvember 2013 og hefst kl. 13:30.
Aðalfundur Dómarafélags Íslands verður haldinn á veitingastaðnum Höfnin, Geirsgötu 7c, Reykjavík, föstudaginn 29. nóvember 2013 og hefst kl. 13:30.
Dagskrá fundarins verður sem hér segir:
Kl. 13:30 Fundarsetning: Hjörtur O. Aðalsteinsson formaður DÍ.
Ávarp ráðherra,
Ávarp formanns LMFÍ Jónasar Þórs Guðmundssonar hrl.
Kl. 14:00 Aðalfundarstörf
a) skýrsla stjórnar
b) reikningar félagsins
c) ákvörðun árgjalds
d) kosning stjórnar og varamanna
e) kosning endurskoðanda
f) önnur mál
Athygli er vakin á 2. mgr. 4. gr. laga félagsins en hún hljóðar svo:
Framboð til formanns og stjórnar félagsins skal tilkynna til stjórnar félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir boðaðan aðalfund. Ber stjórn að tilkynna félagsmönnum um framboð eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn.
Atkvæðisrétt hafa einungis þeir félagsmenn sem staddir eru á aðalfundi.
2. mgr. 5. gr. er svohljóðandi:
Í aðalfundarboði skal tilkynnt hvort stjórn gefur kost á sér til endurkjörs.
Í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga Dómarafélags Íslands er tilkynnt að Hjörtur O. Aðalsteinsson formaður gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Stjórnarmennirnir Ingimundur Einarsson, Ólafur Ólafsson og Ragnheiður Bragadóttir gefa heldur ekki kost á sér til endurkjörs.
Kl. 14:30 Kaffi.
Kl. 15:00 Fyrirlestur. Nánar tilkynnt síðar.
Kl. 16:00 Fundarslit.
———–
Kl. 19:00 Kvöldstund í Höfninni sem hefst með fordrykk.
Kl. 19:30 Kvöldverður, jólaveisla.
Matseðill, smellið á skjalið:
Hátíðarræða.
Tilkynning um þátttöku, annars vegar á fundinn og hins vegar í kvöldverðinn, óskast sendar eigi síðar en mánudaginn 25. nóvember nk. til Hjartar O. Aðalsteinssonar á netfangið hjortur (hjá) domstolar.is.