Umsögn um drög að frumvarpi – sameining héraðsdómstólanna
Dómsmálaráðuneytið
Borgartúni 26
105 Reykjavík
21. febrúar 2023
Efni: Umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarpsdrög í samráðsgátt – sameining héraðsdómstólanna
Vísað er til draga að lagafrumvarpi um sameiningu héraðsdómstólanna sem birtist í samráðsgátt stjórnvalda 10. febrúar sl.
Af hálfu Dómarafélags Íslands er vakin athygli á því að verði þær breytingar, sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum, að lögum yrði þar um að ræða stærstu breytingu á skipan héraðsdómstólanna í rúmlega 30 ára sögu þeirra. Komi til þess að ráðherra leggi fram á Alþingi frumvarp um slíka sameiningu mun félagið fjalla nánar um málið og skila umsögn um það.
Dómarafélagið bendir á að dómstólar hafa sérstaka stöðu samkvæmt 2. gr. og ákvæðum V. kafla stjórnarskrárinnar. Því er mikilvægt að hafa að leiðarljósi við skipulagsbreytingar af þessum toga að þær ógni ekki stjórnskipulegu sjálfstæði dómstóla, bæði sem stofnana svo og sjálfstæði einstaka dómara í störfum sínum. Þótt frumvarpsdrögin feli í sér grundvallarbreytingar á skipulagi héraðsdómstóla í landinu verður ekki séð að í undirbúningnum hafi verið metið sérstaklega hvort og þá hvaða áhrif slík nýskipan hefur mögulega á sjálfstæði dómstóla þar á meðal starfskjör dómara og hvernig er tryggt að breytingarnar standist þær kröfur sem leiddar verða af ákvæðum stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga í þessum efnum. Dómarafélagið telur mikilvægt að slík vinna fari fram komi til þess að frumvarp byggt á fyrirliggjandi drögum verði lagt fram á Alþingi, enda er löggjafanum nauðsynlegt að geta metið breytingar út frá þessum fyrirmælum stjórnarskrárinnar.
Virðingarfyllst,
Stjórn Dómarafélags Íslands