Hádegisverðarfundur 29. maí 2018
Samtal um siðmenningu
#metoo byltingin og lögfræðingastéttin
Lögmannafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Dómarafélag Íslands efna til hádegisverðarfundar þriðjudaginn 29. maí kl. 12.00-13.15 um #metoo byltinguna og ávinning hennar í H sal á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2. Þessi stórmerkilega bylting hefur afhjúpað hegðun og framferði innan fjölmargra stétta, þar á meðal lögfræðinga, sem hefur legið í þagnarhjúpi og þannig verið samþykkt og viðurkennd. En ekki meir og ekki lengur, þökk sé þeim sem hafa opnað umræðuna og deilt reynslu sinni.
Á fundinum mun Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari fjalla um hin skráðu lög og dr. Salvör Nordal heimspekingur, umboðsmaður barna, um óskráðar reglur í samfélagi manna.
Að loknum erindum munu formenn félaganna þriggja sem standa að fundinum, þau Berglind Svavarsdóttir lögmaður, verðandi formaður Lögmannafélags Íslands, Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari, formaður Lögfræðingafélags Íslands og Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari, formaður Dómarafélags Íslands, ræða um hvort og þá hvað félögin geti gert til að koma í veg fyrir brot á óskráðum meginreglum um mannleg samskipti. Hver eru næstu skref og hvaða aðgerða er þörf? Er hægt að koma á hugarfarsbreytingu um ásættanlega hegðun í samfélaginu og hvernig ætlum við að breyta því ástandi sem sögur í #metoo byltingunni hafa afhjúpað?
Fundarstjóri verður Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður, formaður Félags kvenna í lögmennsku.
Skráning stendur yfir til kl. 13.00 mánudaginn 28. maí 2018. Verð kr. 4.000,- hádegisverður innifalinn.
Skráning á lmfi.is