Ávarp fráfarandi formanns á aðalfundi DÍ 24. nóvember 2017
Skúli Magnússon héraðsdómari lét af störfum sem formaður DÍ á aðalfundi félagsins 24. nóvember sl. Hann hefur verið formaður félagsins sl. fjögur ár. Voru honum færðar þakkir félagsmanna fyrir góð störf í þágu félagsmanna og dómstólanna í landinu.
Hér fyrir neðan má lesa ávarp Skúla sem hann flutti á fundinum.
Ávarp formanns DÍ á aðalfundi 2017
forseti Hæstaréttar Íslands
frú dómsmálaráðherra
formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis
formaður Lögmannafélags Íslands
formaður dómstólasýslunnar
ágætu dómarar og aðrir félagsmenn í DÍ
dömur mínar og herrar.
Ég vil sérstaklega bjóða velkomna á þennan aðalfund Dómarafélags Íslands nýskipaða dómara við Landsrétt. Ég leyfi mér að vona að hinn 1. janúar nk., þegar Landsréttur tekur á ný til starfa eftir 98 ára hlé, munið þið kjósa að vera félagsmenn í Dómarafélagi Íslands.
Dómarafélag Íslands á rætur sínar í félagi héraðsdómara sem stofnað var í október árið 1941. Félagið á sér því nálægt 76 ára sögu. Félagið státar af þeim einstæða árangri, leyfi ég mér að segja, að allir starfandi dómarar landsins eru meðlimir í félaginu. Ekki vegna þess að það sé skylt með lögum – svo er auðvitað ekki – heldur vegna þess að þeir kjósa að vera félagar. Af þessu má draga þá ályktun að dómarar á Íslandi styðji eindregið það grundvallarhlutverk félagsins að standa vörð um sjálfstæði dómara og dómstóla og telji mikilvægt að fyrir hendi sé félag sem getur verið málssvari dómarastéttarinnar.
Því miður er staða félaga dómara úti í hinum stóra heimi ekki alls staðar góð. Í Tyrklandi hefur félag dómara, skst. YARSAV, verið leyst upp og stjórnvöld beitt sér fyrir stofnun nýs félags. Þetta nýja félag hefur sótt um inngöngu í alþjóðasamtök dómara sem DÍ er aðili að. Hinu nýja félagi hefur verið synjað um inngöngu af þeirri augljósu ástæðu að við dómarar föllumst ekki á umrædda aðgerð tyrkneskra stjórnvalda og lítum svo á að YARSAV sé áfram réttur fulltrúi tyrkneskra dómara á okkar vettvangi, alþjóðasamtaka dómara. YARSAV, og reyndar einnig alþjóðasamtök dómara, hafa í framhaldinu verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök af tyrkneskum stjórnvöldum. Í landinu bíða fleiri hundruð dómara – eða þúsundir – þetta vitum við ekki með vissu – réttarhalda vegna saka sem í besta falli eru óljósar og mjög almenns eðlis. En eitt af því sem dómurunum virðist gefið að sök er að hafa tekið virkan þátt í starfi tyrkneska dómarafélagsins og alþjóðasamtaka dómara. Alþjóðasamtök dómara eru með öðrum orðum talin hryðjuverkasamtök.
Í fleiri löndum er sótt að félögum dómara. Í Búlgaríu hafa dómarar verið skyldaðir til þess að skrá opinberlega aðild sína að félagi dómara þar í landi. Þessi aðgerð varð til þess að umtalsverður fjöldi dómara taldi hag sínum best borgið með því að skrá sig úr félaginu. Þannig náðu stjórnvöld markmiði sínu.
Allt vekur þetta upp spurninguna: Til hvers eru félög dómara? Hvers vegna er réttur dómara til að hafa með sér félag sérstaklega áréttaður í alþjóðasáttmálum og yfirlýsingum? Og hvers vegna er þar einnig sérstaklega minnst á rétt dómara til að taka þátt í alþjóðlega samstarfi.
Svarið er í grófum dráttum það að félög dómara gegna veigamiklu hlutverki við að stuðla að og tryggja sjálfstæði dómara, sem og dómsvaldsins í heild. Félag dómara færir hverjum og einum dómara heim sanninn um að hann eða hún er aðili að samfélagi – samfélagi sem veitir stuðning með bæði beinum og óbeinum hætti, ekki síst með miðlun upplýsinga.
Innan dómarafélags ræða dómarar mál sem brenna á dómurum og dómskerfinu. Eitt slíkt framfaramál eru siðareglur dómara sem verða til umfjöllunar hér síðar í dag og kunna að verða bornar upp til samþykktar, ef sá er almennur vilji félagsmanna.
Dómarafélag er einnig málssvari dómara og í sumum tilvikum málssvari dómskerfisins í heild. Dómarafélag getur verið í þeirri stöðu að þurfa að veita ríkisvaldinu aðhald, t.d. þegar um er að ræða breytingar á dómskerfinu. Dómarafélag getur þó einnig þurft að bregðast við þrýstingi úr öðrum áttum ef það á að standa undir nafni sem málssvari dómara. Að því mun ég víkja nánar síðar í ræðu minni.
DÍ er því ekki hádegisverðarklúbbur eða fordild vel haldinna embættismanna heldur stofnun sem er í reynd hluti af gangverki sjálfstæðs dómsvalds og ein af forsendunum fyrir viðhaldi réttarríkis. Með hliðsjón af því samfélagslega hlutverki sem félagið gegnir höfum við dómarar því talið eðlilegt að við nytum einhvers stuðnings hins opinbera, enda erum við það fáir að félagsgjöld hrökkva skammt. Misvel hefur gengið að afla þessa stuðnings svo ekki sé meira sagt. Í ár var framlag dómsmálaráðuneytisins til félagsins aðeins 500.000 krónur.
Við núverandi aðstæður leyfi ég mér að spyrja hvort yfirhöfuð sé unnt sé halda uppi trúverðugu starfi félags dómara. DÍ hefur ekki aðgang að starfsmanni eða starfsaðstöðu. Allt starf er unnið í sjálfboðavinnu án þess að þeir sem þar koma að málum fái einhvers konar afslátt af sínum vinnuskyldum, svo sem tíðkast á flestum norðurlöndum. Heimasíða félagsins er úrelt og ekkert fé er til þess að uppfæra hana eða halda henni uppfærðri. Helsti kostnaður félagsins er útlagður kostnaður vegna þátttöku í alþjóðasamstarfi dómara. Miðað við núverandi fjárhagsforsendur er erfiðleikum bundið að taka þátt í alþjóðasamvinnu dómara.
Einn valkostur, sem ræddur hefur verið á göngum dómhúsa landsins, er sá að leggja félagið niður í núverandi mynd. Verkefni félagsins færu þá með einum eða öðrum hætti til nýstofnaðrar dómstólasýslu sem er fyrirkomulag sem við þekkjum hjá ríkjum sem við viljum helst ekki bera okkur saman við. Ég vona auðvitað að sú verði ekki niðurstaðan og að hagur félagsins vænkist. Hitt er ljóst að núverandi forsendur fyrir rekstri félagsins eru ófullnægjandi svo að félagið geti gegnt hlutverki sínu með viðunandi hætti.
Ég kalla því eftir auknum skilningi ráðamanna á eðli þeirra starfa sem DÍ vinnur, ekki í þágu þröngra hagsmuna dómara, heldur í þágu dómskerfisins í heild sinni og þar með til almannaheilla.
Góðir fundarmenn:
Svo sem ég hef nú vikið að er eitt af hlutverkum DÍ að vera málssvari dómara, ekki aðeins gagnvart stjórnvöldum heldur einnig gagnvart samfélaginu. Í reynd hefur það ítrekað fallið í hlut DÍ að vera málssvari dómskerfisins á breiðari grundvelli, enda er ekki alltaf einfalt að greina á milli hagsmuna dómara og þeirra stofnana sem þeir hafa helgað ævistarf sitt.
Ég árétta þetta hér og nú vegna þess að þegar litið er yfir fjölmiðlaumfjöllun síðustu ára er ljóst að íslenskir dómarar og dómstólar hafa ítrekað þurft að sæta mjög neikvæðri og í ýmsum tilvikum ómálefnalegri umfjöllun í opinberri umræðu.
Umræða um ofurlaunahækkanir dómara á árinu 2015 var einkum rekin áfram af Fréttablaðinu en teygði einnig anga sína til annarra fjölmiðla samsteypunnar 365 miðla. Ítrekað voru fluttar fréttir af margra tuga prósenta launahækkun dómara þegar allir þeir sem vildu kynna sér málið gátu séð að raunveruleg hækkun á launum dómara samkvæmt úrskurði Kjararáðs í árslok 2014 hafði numið 6-7%. Umfjöllunin þjónaði þeim augljósa tilgangi að skapa þá mynd af dómurum hjá almenningi að þeir væru einhvers konar forréttindahópur. Engu máli skipti þótt umfjöllunin væri leiðrétt, blaðið hélt við sinn keip. Það var ekki fyrr en ítrekuð skrif blaðsins voru kærð til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sem þessu linnti.
En þá var nýr þráður fundinn hjá Fréttablaðinu til þess að ræða dómara með neikvæðum hætti – atriði sem vinsælt er að nota víða um heim þegar ráðast á að dómurum og dómskerfinu: Aukastörf dómara og fjármál þeirra. Tekið var til við að fjalla um reglur um hagsmunaskráningu dómara. Og það er auðvelt að selja almenningi þá hugmynd að dómarar eigi að vera algerlega upphafnir, lausir við öll hagsmunatengsl og án hvers kyns fyrirframgefinna skoðana. Og það er einnig auðvelt að selja þá hugmynd að allt eigi að vera uppi á borðum: Að líf dómara eigi að vera eins og opin bók, hverjum sem vill aðgengileg.
Ég minnist þess að hafa átt samtal við blaðamann Fréttablaðsins sem spurði mig hvers vegna í ósköpunum dómarar þyrftu að eiga hlutabréf eða hluti í hlutabréfasjóðum. Hvers vegna þeir gætu ekki haft sinn sparnað inn á sparisjóðsbók? Þegar leið á samtalið varð mér ljóst að blaðamaðurinn hafði hringt í mig til tjá sínar skoðanir á málinu en ekki til þess að taka eiginlegt viðtal. Það þurfti svo sem ekki að koma á óvart. Fréttablaðið flutti reyndar frétt um aukastörf þess sem hér talar. Sú frétt er væntanlega fæstum í minni enda var þar afskaplega lítið kjöt á beinunum.
Síðastliðinn desember, fyrir tæpu ári, keyrði svo um þverbak. Þá birti Fréttablaðið á forsíðu sinni myndir af persónulegum gögnum þáverandi forseta Hæstaréttar sem augljóslega stöfuðu frá fyrrum viðskiptabanka hans. Gögnin hlutu því að hafa verið illa fengin. Kvöldið áður hafði Kastljós RÚV flutt langa frétt sem greinilega var byggð á sömu gögnum. Á næstu dögum birti Fréttablaðið myndir af fleiri nafngreindum hæstaréttardómurum og upplýsingar um hlutabréfaeignir þeirra.
Upphaflega var fréttin sú að tilteknir dómarar, þ.á m. forseti Hæstaréttar, hefðu ekki tilkynnt um hlutabréfaeign sína samkvæmt gildandi lögum og reglum. Sá fréttaflutningur reyndist þó fljótt haldlaus, a.m.k. að öllu verulegu leyti. Þeir dómarar sem um var að ræða, a.m.k. þeir sem fjölmiðillinn hafði mestan áhuga á, höfðu tilkynnt um hlutabréfaeign sína samkvæmt reglum þótt nefnd um störf dómara hefði illa haldið á skráningu upplýsinga hjá sér. Þetta skipti þó litlu máli því nú var kvæðinu einfaldlega vent í kross og hafin umfjöllun um að hlutaðeigandi dómarar hefðu verið vanhæfir í málum þess banka sem þeir höfðu átt hlutabréf í en samt sem áður tekið þátt í afgreiðslu þeirra. Og enn og aftur var boltinn gefinn upp með það að reglur á Íslandi um aukastörf dómara og skráningu þessara starfa væru með einhverjum hætti stórgallaðar og frábrugðnar því sem almennt tíðkast. Almenningur í landinu átti að fá það á tilfinninguna að eitthvað meiriháttar væri að í dómskerfinu.
Öll þessi uppákoma byggði á illa fengnum gögnum frá Glitni banka. Því gat ekki farið á milli mála hvaða tilgangi afhending gagnanna til blaðamanna átti að þjóna. Allt ber þetta að sama brunni: Um var að ræða þaulskipulagða aðgerð til að koma höggi á trúverðugleika íslenskra dómstóla, hugsanlega að reyna knýja tiltekna dómara til að segja af sér embætti.
Í nýjum grunnsáttmála dómara (Universal Charter of the Judge) sem samþykktur var einróma fyrir rúmri viku á fundi alþjóðasamtaka dómara í Santiago í Chile segir meðal annars að dómari eigi að geta farið með vald sitt án félagslegs, efnahagslegs og pólitísks þrýstings.
The judge, as holder of judicial office, must be able to exercise judicial powers free from social, economic and political pressure, and independently from other judges and the administration of the judiciary.
Þar segir einnig að forðast eigi gagnrýni á dóma, sem vegi að sjálfstæði dómsvaldsins eða grafi undan trúverðugleika þess gagnvart almenningi. Ef slíkar ásakanir séu settar fram eigi að vera fyrir hendi viðeigandi ferlar þannig unnt sé að hefja mál og hagsmunir viðkomandi dómara séu verndaðir.
Any criticism against judgements, which may compromise the independence of the judiciary or jeopardise the public’s confidence in the judicial institution, should be avoided. In case of such allegations, appropriate mechanisms must be put in place, so that lawsuits can be instigated and the concerned judges can be properly protected.
Sú staða sem upp var komin í lok sl. árs var augljóslega óviðunandi með hliðsjón af þessum kröfum. Öllum mátti vera ljóst að verið var að beita dómara, íslenska dómskerfið, þrýstingi og það með samstilltum aðgerðum.
Hvað gekk þeim aðila eða aðilum til sem öfluðu persónlegra gagna með ólögmætum hætti – væntanlega með því að greiða fyrir þau – og komu þeim til tiltekinna fjölmiðla? Þeirri spurningu hefur enn ekki verið svarað enda hafa fjölmiðlar – með örfáum undanteknum – ekki hirt um að spyrja hennar. Sami aðili eða sömu aðilar geta því endurtekið leikinn og munu eflaust gera það. Hverju hafa þeir að tapa?
Það hlýtur að vekja athygli að þegar þessar aðstæður voru komnar upp sá dómsmálaráðherra eða annar fulltrúi ríkisstjórnar enga ástæðu til þess að skerast í leikinn með einhverjum hætti, t.d. með því að lýsa því yfir að íslenskt dómskerfi væri í það heila tekið traust. Ekki verður heldur séð að Alþingi eða alþingismenn hafi brugðist við málinu með nokkrum hætti. Hugsanlega fannst stjórnmálamönnum þessa lands sú staða sem upp var komin bara allt í góðu lagi eða hvað?
Að síðustu verður ekki hjá því litið að einn af þeim sem harðast gekk fram í umræðunni, Jón Steinar Gunnlaugsson, var starfandi lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari. Hvort Jón Steinar tók þátt í því að skipuleggja þessar aðgerðir frá grunni eða hvort hann samsamaði sig þeim, þegar hann varð þeirra áskynja, verður hann svara sjálfur fyrir. Hver og einn getur einnig svarað því hvort og með hvaða hætti framganga Jóns Steinars var samræmanleg siðferðilegum skyldum hans sem starfandi lögmanns sem og skyldum hans sem fyrrverandi dómara við Hæstarétt Ísland. Ekki síst ætti Jón Steinar að reyna að gera það sjálfur.
Þeir sem ýttu úr vör þeirri umfjöllun sem ég hef hér gert að umtalsefni náðu kannski ekki ítrustu markmiðum sínum, hugsanlega þeim að knýja tiltekinn dómara eða tiltekna dómara til að segja af sér. Þeir náðu hins vegar vafalaust því markmiði sínu að skaða trúverðugleika íslenskra dómstóla. Í árslok 2016 mældist traust á íslenskum dómstólum skv. þjóðarpúlsi Gallup í sögulegu lágmarki eða einungis 32%.
Dómarar eru í afar þröngri stöðu til að tjá sig opinberlega og verjast ómálefnalegum málflutningi og röngum ásökunum. Og auðvitað má gagnrýna dómstóla og úrlausnir þeirra og jafnvel dómarana sjálfa. Það er hins vegar munur á gagnrýnni umræðu og svo hreinni niðurrifsstarfsemi.
Við verðum því að verulegu leyti að treysta á fjölmiðlana sjálfa og, þegar mikið gengur á, aðrar stofnanir ríkisins, þ.á m. stjórnsýslu dómstólanna og ráðherra dómsmála. Að mínu mati hafa þessir innviðir reynst vera fyrir hendi í mjög takmörkuðum mæli á þessum síðustu árum þegar dómskerfið hefur þurft að takast á við holskeflu mála sem rætur eiga í hruni á fjármálamörkuðum haustið 2008.
Þegar á allt þetta er litið er það þar af leiðandi e.t.v. ekki furðulegt þótt tiltekinn dómari hafi nýlega misst þolinmæðina og ákveðið að nota það úrræði sem lögin bjóða honum, þ.e. að höfða meiðyrðamál vegna alvarlegra ávirðinga um störf hans og annarra dómara í tilteknu dómsmáli.
Ég get ekki tekið afstöðu til þess máls. Ég get hins vegar ekki annað en haft skilning á því sjónarmiði að þær ásakanir sem hér eru bornar á dómara séu þess eðlis að þær verði ekki einfaldlega látnar liggja frammi óhreyfðar og ósvarað.
Góðir fundarmenn: Umfjöllun hér á landi um íslenska dómstóla og dómara einkennist því miður alltof oft af þekkingarleysi á þeim stofnunum sem hér er um að ræða og í sumum tilvikum af hreinu virðingarleysi fyrir dómsvaldinu. Þar eru stjórnmálamenn ekki undanskildir.
Á þeim árum sem ég hef gegnt formennsku í DÍ höfum við í stjórn félagsins gert það sem höfum getað til að rétta þessa slagsíðu af. Og við höfum góðan málsstað vegna þess að íslenskt dómskerfi er í það heila tekið skilvirkt og gott, íslenskir dómarar eru heiðarlegir og vinna sín störf almennt af kunnáttu og samkvæmt bestu vitund og samvisku, stundum við erfiðar aðstæður.
Á þessum tímamótum, þegar ég vík sem formaður DÍ, get ég ekki neitað því að það er sárt til þess að vita að það sem við höfum þó gert, hefur ekki verið nóg og staðan í dag er að ýmsu leyti verri en hún var fyrir nokkrum árum.
Góðir fundarmenn:
Í ávarpi mínu á aðalfundi DÍ fyrir ári síðan ítrekaði ég mikilvægi þess að eins mikill friður ríkti um skipan landsréttardómara og kostur væri. Vonir mínar um þetta gengu því miður ekki eftir eins og öllum er kunnugt.
Í ávarpi mínu fyrir ári ítrekaði ég einnig mikilvægi þess að finna nýjum dómstól viðeigandi húsnæði sem endurspeglar hlutverk og stöðu hans með viðeigandi hætti. Það bráðabirgðahúsnæði í Kópavogi sem ætlað er dómstólnum fullnægir ekki þessu skilyrði og áhyggjur eru meðal dómara um að bygging eiginlegs dómhúss geti dregist úr hófi, jafnvel ótiltekið. Engin yfirlýsing liggur enn sem komið fyrir um að byggt verði nýtt dómhús miðsvæðis í Reykjavík fyrir Landsrétt.
Því er ekki að leyna að ég hefði viljað sjá Landsrétt hefja störf við annan og jákvæðari aðdraganda. Engu að síður er stofnun nýs Landsréttar enn sem fyrr ljósið í myrkrinu þessa stundina. Í þessari kerfisbreytingu felst hið stóra sóknarfæri okkar í dag, ekki síst vegna þess að samhliða Landsrétti mun sameiginleg stjórnsýsla dómstólanna einnig verða efld.
Við stöndum því nú á tímamótum í íslenskri dómstólaskipan og hljótum fyrst og fremst að horfa fram á veginn. Látum þetta tækifæri ekki úr höndum okkar ganga til að ná í orði og á borði þeim markmiðum sem stefnt er að með stofnun nýs Landsréttar og tilkomu þriggja dómstiga og efla með þessu traust á íslensku dómskerfi.
Að þessu sögðu segi ég aðalfund Dómarafélags Íslands árið 2017 settan.