Mótmæli gegn ítrekuðum kjaraskerðingum dómara

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra

 

 6. júní 2023

Efni: Mótmæli gegn ítrekuðum kjaraskerðingum dómara

Dómarafélag Íslands vísar til boðaðra aðgerða gegn verðbólgu hér á landi þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sem kveður á um að laun dómara skuli 1. júlí ár hvert hækka miðað við „hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár“, verði með lögum vikið til hliðar. Fyrir liggur að dómarar eiga á grundvelli þessa lagaákvæðis von á því að laun þeirra hækki um rúm 6%. Gangi boðaðar skerðingar á kjörum dómara eftir munu laun dómara þess í stað aðeins hækka um 2,5%.

Í því sambandi er vert að taka fram að þau rök, að dómarar og aðrir embættismenn eigi ekki að vera leiðandi þegar kemur að launahækkunum og að af þeim sökum sé farið fram með þessa aðgerð, halda ekki. Ákvæði 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 og annarra lagaákvæða, sem ná til um 220 annarra embættismanna, gerir þvert á móti ráð fyrir að laun hækki til samræmis við launaþróun ríkisstarfsmanna, það er hækki til samræmis við launahækkanir ríkisstafsmanna sem þegar eru komnar fram. Markmiðið að baki lagaákvæðinu var meðal annars að laun dómara yrðu gagnsæ og fyrirsjáanleg auk þess að koma í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir.

Dómarafélag Íslands minnir á að dómarar skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins, sbr. 2., 59., 61. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 er rakið að áskilnaður 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um óháða dómstóla feli í sér að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og „ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins“. Er skírskotað til þess að „kjör sem dómendum eru tryggð“ séu einn af efnisþáttum í mati á hvort dómstólarnir teljist sjálfstæðir þannig að fullnægt sé kröfum stjórnarskrárinnar. Er það meðal annars í samræmi við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R (94) frá 13. október 1994 um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómenda.

Gangi fyrirhugaðar breytingar eftir yrði það í þriðja sinn á rétt rúmum þremur árum sem dómarar þyrftu að sæta því að laun þeirra séu skert, en með 20. gr. laga nr. laga nr. 25/2020 var launahækkun dómara í samræmi við 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 frestað frá 1. júlí 2020 til 1. janúar 2021. Þá var útreikningi við ákvörðun launa dómara breytt til lækkunar með ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem  boðuð var með bréfi Fjársýslu ríkisins 29. júní 2022, og dómarar að auki endurkrafðir um það sem ráðuneytið taldi vera ofgreidd laun þeirra. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí sl. í máli nr. E-3847/2022 voru framangreindar ákvarðanir ráðuneytisins ógiltar. Íslenska ríkið hefur óskað eftir leyfi til að áfrýja þeim dómi til Hæstaréttar Íslands.

Með réttu má halda því fram að dómstólar hér á landi séu ekki fyllilega sjálfstæðir í störfum sínum ef löggjafarvald og framkvæmdavald skerða ítrekað lögbundin launakjör dómara.

Dómarafélag Íslands skorar því á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá fyrirhugaðri skerðingu á lögbundinni hækkun launa dómara 1. júlí næstkomandi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Dómarafélags Íslands

Kristbjörg Stephensen

Previous
Previous

Tillögur um breytingar á dómstólakafla stjórnarskrárinnar

Next
Next

Fundur EAJ í Aþenu í Grikklandi 1.-3. júní 2023