Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum nr. 91/1991 og 88/2008 – frásögn af skýrslutöku

Alþingi

b.t. allsherjar- og menntamálanefndar

 

 

Kópavogi, 30. maí 2023

Efni:  Umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (frásögn af skýrslutöku), 923. mál.

Vísað er til umsagnarbeiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sem send var Dómarafélagi Íslands 8. maí sl.

Dómarafélag Íslands tekur undir með flutningsmönnum frumvarpsins að samfélagið hafi ríka hagsmuni af því að starfsemi dómstóla sé gagnsæ og fari fram fyrir opnum tjöldum. Jafnframt telur félagið að fjölmiðlar gegni mikilvægu hlutverki við að miðla upplýsingum um dómsmál til almennings og það sé til þess fallið að auka skilning á hlutverki og störfum dómsvaldsins sem að sama skapi sé til þess fallið að auka traust almenning til dómstóla. Dómarafélag Íslands bendir á hinn bóginn á að hagsmunir aðila að dómsmálum og hætta á sakarspjöllum geta gert það að verkum að takmarka verður fréttaflutning af dómsmálum. Af þeim sökum leggst félagið gegn frumvarpinu.

Ákvæðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var breytt í núverandi horf með lögum nr. 76/2019 í því skyni að treysta réttaröryggi. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum var áréttað að 3. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 hefði að geyma þá mikilvægu reglu að hvert vitni skuli að jafnaði prófa sér án þess að önnur vitni hlýði á. Ákvæðinu væri ætlað að tryggja að framburður vitnis í dómsmáli mengist ekki af framburði annarra vitna sem þegar hefðu gefið skýrslu þannig að áhrif gæti haft a niðurstöðu dómsmáls. Ákvæði sama efnis er í 4. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómarafélag Íslands leggur áherslu á að framangreindar varúðarreglur séu til lítils ef vitni getur fylgst með því í gegnum fjölmiðla eða annars konar miðla hvað önnur vitni hafa borið fyrir dómi áður en það gefur skýrslu. Réttaröryggissjónarmið að baki tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 91/1991 og 88/2008, vegi þyngra en þau sjónarmið sem flutningsmenn frumvarpsins tefli fram. Þá er þess að gæta að í ákvæðinu er gert ráð fyrir að dómari geti veitt undanþágu frá banni við að greina frá skýrslum vitna.

Í athugasemdum með frumvarpinu er rakið að skýrslutökur af aðilum og vitnum við aðalmeðferð tiltekins máls í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í vetur hefðu tekið sjö vikur og hafi fjölmiðlum verið óheimilt að greina frá því sem fram kom við skýrslutökur allan þann tíma. Dómarafélag Íslands tekur fram að til algjörra undantekninga heyri að skýrslur fyrir dómi taki svo langan tíma.

 

Fyrir hönd Dómarafélags Íslands,

 

 

Kristbjörg Stephensen

 

 

  

Previous
Previous

Mótmæli gegn ítrekuðum kjaraskerðingum dómara

Next
Next

Umsögn um frumvarp – sameining héraðsdómstólanna