Umsögn um frumvarp til breytinga á lögræðislögum

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis

 

 

Kópavogi, 27. maí 2024

Umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögum nr. 71/1997 (nauðungarvistanir, yfirlögráðendur o.fl.)

Dómarafélag Íslands þakkar fyrir tækifæri til að fá að koma á framfæri ábendingum við framkomið frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á lögræðislögum. Félagið kom áður á framfæri tillögum við frumvarpsdrög í samráðsgátt og fagnar því að dómsmálaráðuneytið hefur í vinnu sinni litið til þeirra að miklu leyti.

Á þessu stigi málsins er félagið einungis með eina tillögu, sem þó gæti reynst brýn. Annars vegar vegna þess að hún dregur úr valdbeitingu við framkvæmd lögræðislaga. Hins vegar vegna þess að hún getur stuðlað að því að aukin virðing verði borin fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks, þar á meðal fatlaðra einstaklinga, sbr. það sem greinir hér á eftir um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í 11. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er fjallað um málsmeðferð í málum þar sem krafist er sviptingar lögræðis einstaklings. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að í því skyni að leggja sjálfstætt mat á hæfi varnaraðila skuli dómari kalla varnaraðila fyrir dóm, kynna honum kröfuna og gefa honum kost á að tjá sig um hana nema ástandi hans sé svo háttað samkvæmt vottorði læknis að það sé ekki mögulegt. Neiti varnaraðili að koma fyrir dóm án þess að slíkt læknisvottorð liggi fyrir er komin upp sú staða sem vikið er að í 3. mgr. 11. gr. lögræðislaga en þar er dómara heimilað að leita liðsinnis lögreglu við að sækja varnaraðila. Lögreglu er skylt að verða við slíkum fyrirmælum dómara. Í reynd getur dómari af réttarfarslegum ástæðum verið tilneyddur til að beita þessu úrræði. Augaleið gefur að slík valdbeiting getur verið harkaleg en hafa ber í huga að hér er gjarnan um að ræða einstaklinga sem glíma við veikindi af andlegum toga.

Að mati stjórnar Dómarafélags Íslands væri rétt endurskoða ákvæði 11. gr. í því skyni að heimila dómara að grípa til vægari úrræða þannig að dómara verði veitt heimild til að virða þann vilja veiks einstaklings sem kýs að koma ekki fyrir dóm, til dæmis ef það veldur viðkomandi mikilli vanlíðan að mæta fyrir dóm, enda þótt í sjálfu sér sé ekki talið ómögulegt að mati lækna að einstaklingurinn komi fyrir dóm. Slík heimild væri einnig í betra samræmi við a-lið 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þar kemur fram meginreglan um virðingu „fyrir meðfæddri göfgi, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði þeirra“.

Í 4. mgr. 11. gr. lögræðislaga er nú þegar fyrir hendi heimild fyrir dómara til að fara á þann stað þar sem varnaraðili dvelst og kynna sér ástand hans af eigin raun. Sú heimild hefur reynst vel en hún er bundin við tilvik þar sem ekki er unnt að kveðja varnaraðila fyrir dóm, sbr. það sem áður segir um að læknisvottorð þurfi að liggja fyrir í slíkum tilvikum um að einstaklingnum sé ómögulegt að koma fyrir dóm. Því er lagt til að nýjum málslið verði bætt við í beinu framhaldi af 2. málslið 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga:

„Dómara er þó ávallt heimilt að fara þess í stað á þann stað þar sem varnaraðili dvelst og kynna sér ástand hans af eigin raun, svo sem ef varnaraðili kýs að koma ekki fyrir dóm.“

Með framangreindri breytingu yrði dómara gert kleift að fara mildari leið við að ná fundi þess einstaklings, sem krafa um sviptingu lögræðis beinist að, auk þess sem áður segir um að hún dragi úr valdbeitingu gagnvart veiku fólki og geri sjálfsákvörðunarrétti þeirra hærra undir höfði.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Dómarafélags Íslands

  

 

Kristbjörg Stephensen

 

Previous
Previous

Breytingar á dómstólakafla norsku stjórnarskrárinnar

Next
Next

Umsögn um fjármálaáætlun 2025-2029