Umsögn um fjármálaáætlun 2025-2029

Fjárlaganefnd Alþingis

 

Kópavogi, 22. maí 2024

 Fjárheimildir til dómstóla í fjármálaáætlun 2025-2029

 Stjórn Dómarafélags Íslands lýsir áhyggjum yfir því að í framlagðri tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2025-2029 sé gert ráð fyrir „sértækum aðhaldsráðstöfunum“ á málefnasviði dómstóla sem nemi 40 mkr. á árinu 2026, 50 mkr. á árinu 2027 og 60 mkr. á árinu 2028.

Um nokkurn tíma hefur legið fyrir að héraðsdómstólar landsins eru undirfjármagnaðir. Sá halli sem verið hefur á rekstri þeirra hefur verið fjármagnaður undanfarin ár af nokkurs konar „varasjóði“ sem myndaðist fyrir nokkrum árum þegar ákvarðaðar fjárheimildir voru ekki fullnýttar vegna aðstæðna sem þá voru uppi. Nú er svo komið að þessi „varasjóður“ er svo til uppurinn og liggur þá fyrir að óbreyttu að halli verður á rekstri héraðsdómstóla en af rekstraráætlun héraðsdómstóla fyrir árið 2024 má ráða að framlög til þeirra á fjárlögum 2024 eru um 90 mkr. undir grunnrekstrarþörfum þeirra.

Að framangreindu gættu horfir sérkennilega við að ætla að ná fram tugmilljóna króna aðhaldi í rekstri dómstóla þegar rúmlega 95% af kostnaði við rekstur dómstóla eru laun og launatengd gjöld ásamt húsnæðiskostnaði. Svigrúmið til aðhalds er því afar takmarkað. Í því sambandi er vert að hafa í huga að fjöldi dómara og föst laun þeirra eru lögbundin auk þess sem öðru starfsfólki hefur ekki fjölgað síðustu áratugi þrátt fyrir fjölgun verkefna.

Í þessu sambandi er einnig minnt á að með lögum nr. 23/2023, sem samþykkt voru á Alþingi 23. maí 2023, var dómurum við Landsrétt fjölgað úr 15 í 16. Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 23/2023 kom fram að fjölgunin miðaði að því unnt yrði að halda ásættanlegum málshraða við réttinn. Jafnframt kom fram að launa- og starfstengdur kostnaður eins dómara við Landsrétt næmi um 30 mkr. árlega og að gert væri ráð fyrir að sú útgjaldabreyting rúmaðist innan útgjaldaramma dómstólanna. Skýtur það mjög skökku við ef styrking Landsréttar gæti þýtt fækkun dómara á öðrum dómstigum. Verði það niðurstaðan verður að ætla að það muni koma niður á málshraða fyrir dómstólum landsins og þar með réttaröryggi borgaranna þvert á það sem kveðið er á um í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Dómarafélags Íslands

 

 

Kristbjörg Stephensen

Previous
Previous

Umsögn um frumvarp til breytinga á lögræðislögum

Next
Next

Bréf til dómsmálaráðherra um setningu í embætti dómara til sex ára