Umsögn um áform um breytingu á lögum nr. 50/2016 um dómstóla (leyfi dómara)
Umsögn um áform um breytingu á lögum nr. 50/2016 um dómstóla (leyfi dómara)
Dómsmálaráðuneytið birti 19. ágúst sl. áform um breytingu á lögum nr. 50/2016 um dómstóla (leyfi dómara). Dómarafélag Íslands lýsir yfir stuðningi við boðuð áform en félagið hefur bæði með erindi til dómsmálaráðherra 11. janúar sl. og í umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis 29. mars 2023 vakið athygli á að núverandi skipan mála þegar kemur að leyfi dómara sé til þess fallin að stefna sjálfstæði dómara í hættu.
Þrátt fyrir að félagið sé sammála boðuðum áformum er vakin athygli á því að í framangreindum erindum þess til dómsmálaráðherra og allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis voru settir fram tveir valkostir að lagabreytingu, þ.e. að fjölga megi dómurum tímabundið við dómstól þegar dómari kemur til baka úr leyfi frá störfum vegna starfa hjá alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun eða að dómarinn taki við embætti sem sé laust þegar hann snýr til baka úr slíku leyfi.
Í áformaskjali er einvörðungu síðari valkosturinn kynntur. Dómarafélag Íslands telur á hinn bóginn fyrri valkostinn æskilegri en bæði er hann hagfelldari þeim dómara sem snýr til baka úr leyfi þar sem hann kemur í veg fyrir að dómarinn þurfi jafnvel um lengri tíma að bíða eftir að staða losni auk þess sem óvissa um hvað bíði viðkomandi dómara er hann snýr til baka getur orðið til þess að draga úr áhuga dómara á að gefa kost á sér til starfa hjá alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun.
Fyrir hönd Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen