Mótmæli gegn ítrekuðum kjaraskerðingum dómara
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis
19. júní 2024
Efni: Mótmæli gegn ítrekuðum kjaraskerðingum dómara
Dómarafélag Íslands vísar til framkomins frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna launa þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna (hækkun launa) þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sem kveður á um að laun dómara skuli 1. júlí ár hvert hækka miðað við „hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár“, verði með lögum vikið til hliðar. Fyrir liggur að dómarar eiga á grundvelli þessa lagaákvæðis von á því að laun þeirra hækki um 8%. Gangi boðaðar skerðingar á kjörum dómara eftir munu á hinn bóginn laun dómara þess í stað hækka um tæp 3% eða um 66.000 krónur. Hér er því um fyrirhugaða skerðingu að ræða á lögbundnum rétti dómara til leiðréttingar launa til samræmis við hlutfallslegar launahækkanir annarra ríkisstarfsmanna sem þegar hafa komið til framkvæmda.
Í greinargerð með framangreindu frumvarpi kemur fram að í lok mars 2023 hafi náðst rammasamningar milli opinberra launagreiðenda og bandalaga opinbers starfsfólks sem kjarasamningar við stéttarfélög á opinberum vinnumarkaði hafi byggst á. Þeir hafi falið í sér samkomulag um framlengingu á kjarasamningum til eins árs þar sem viðræðum um önnur atriði en launalið var frestað. Útfærsla kjarasamninga hafi verið sambærileg því sem samið var um á almennum vinnumarkaði, sem hafi falið í sér blöndu krónutölu- og prósentuhækkana auk hámarks krónutöluhækkana. Með frumvarpinu sé lagt til að laun þeirra sem taki laun samkvæmt nánar tilgreindum lagaákvæðum hækki um 66.000 krónur í stað 8%. Með krónutöluhækkuninni sé horft til þeirrar krónutöluhækkunar í kjarasamningum sem gerðir voru viðmiðunarárið 2023, þ.e. næstliðið almanaksár og að með þessari hækkun sé gengið fram með góðu fordæmi á tímum hárrar verðbólgu og vaxta.
Framangreindar röksemdir halda ekki að mati Dómarafélags Íslands. Ákvæði 4. mgr. 44. gr. laga um dómstóla gerir ráð fyrir að laun hækki til samræmis við launaþróun ríkisstarfsmanna, það er hækki til samræmis við launahækkanir ríkisstarfsmanna sem þegar eru komnar fram. Fram hjá því verður ekki litið að meðaltalshækkun reglulegra launa ríkisstarfsmanna er 8% vegna ársins 2023. Laun þessa hóps hafa því hækkað meira en sem nemur framangreindri krónutöluhækkun sem mun hafa verið samið um á árinu 2023, hækkun sem dómarar munu þá ekki njóta, gangi frumvarpið eftir, þar sem laun þeirra taka hækkun hverju sinni á miðju ári næsta árs eftir að laun viðmiðunarhópsins hafa hækkað.
Dómarafélag Íslands minnir á að dómarar skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins, sbr. 2., 59., 61. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 er rakið að áskilnaður 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um óháða dómstóla feli í sér að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og „ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins“. Er skírskotað til þess að „kjör sem dómendum eru tryggð“ séu einn af efnisþáttum í mati á hvort dómstólarnir teljist sjálfstæðir þannig að fullnægt sé kröfum stjórnarskrárinnar. Er þetta fyrirkomulag meðal annars í samræmi við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. (2010)12 frá 17. nóvember 2010 um sjálfstæði, skilvirkni og skyldur dómenda. Þar er ekki aðeins lögð áhersla á að mælt skuli fyrir um launakjör dómara í lögum heldur einnig að tryggt skuli með lögum að ekki verði gripið til launalækkunar sem beinist sérstaklega að dómurum.
Gangi fyrirhugaðar breytingar eftir yrði það í fjórða sinn á rétt rúmum fjórum árum sem dómarar þyrftu að sæta því að laun þeirra séu skert, en með 20. gr. laga nr. 25/2020 var launahækkun dómara í samræmi við 4. mgr. 44. gr. laga um dómstóla frestað frá 1. júlí 2020 til 1. janúar 2021. Þá var viðmiði við endurskoðun launa dómara breytt til lækkunar með ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem boðuð var með bréfi Fjársýslu ríkisins 29. júní 2022 og tók gildi 1. júlí sama ár, og dómarar að auki endurkrafðir um það sem ráðuneytið taldi vera ofgreidd laun þeirra. Með dómi Hæstaréttar Íslands 22. desember 2023 í máli nr. 39/2023 var íslenska ríkið gert afturreka með þær ákvarðanir. Í þriðja sinn voru laun dómara skert þegar Alþingi, með sama hætti og nú er fyrirhugað, ákvað að laun dómara skyldu aðeins hækka um 2,5% í stað 7,1%. Með réttu má halda því fram að dómstólar hér á landi séu ekki fyllilega sjálfstæðir í störfum sínum ef löggjafarvald og framkvæmdarvald skerða ítrekað lögbundin launakjör dómara.
Þótt rétt sé að Feneyjarnefnd Evrópuráðsins hafi fallist á að almenn lækkun launa opinberra starfsmanna þegar harðnar verulega á dalnum megi ná til dómara eins og það er orðað í greinargerð með frumvarpinu og verði ekki talin brot á sjálfstæði dómara er rétt að benda á að annað gildir um ítrekaðar skerðingar á launum dómara, skerðingar á launum sem aðrar stéttir hafa notið. Aftur er minnt á að nú er stefnt að fjórðu skerðingunni á fjórum árum án þess að því verði haldið fram að hér á landi hafi á þessum árum verið ríkjandi miklir efnahagslegir erfiðleikar. Þá verður einnig að benda á að sú aðgerð, að taka af dómurum launahækkun sem aðrar stéttir hafa notið, verður ekki talin hluti af almennri efnahagslegri aðgerð.
Dómarar í landinu eru 65 talsins. Samkvæmt því eru þeir rúmlega þriðjungur þeirra sem verða fyrir skerðingu af völdum laganna. Ef 63 alþingismenn eru teknir út fyrir sviga, en þeim sem fara með löggjafarvaldið er vitanlega hverju sinni heimilt að lækka laun sín án þess að sú lækkun verði að ná til annarra opinberra starfsmanna sem ekki hafa samningsrétt á vinnumarkaði, þá eru dómarar rúmlega helmingur þess hóps sem fyrir skerðingunni verður. Ef saksóknarar í landinu eru taldir með dómurum, en um nauðsyn sjálfstæðis þeirra gilda svipuð sjónarmið og eiga við um dómara, þá eru dómarar og saksóknarar um 2/3 hluti þeirra sem fyrir skerðingunni verða. Hér er því langt í frá um að ræða almenna aðgerð gagnvart breiðum hópi embættismanna sem eðlilegt er að dómarar taki þátt í, heldur beinist hún í raun einkum að dómurum og saksóknurum.
Dómarafélag Íslands leggst því gegn því að frumvarpið verði látið ná til dómara og leggur til að 4. gr. þess verði felld á brott.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen