Umsögn um drög að frumvarpi um breytingu lögræðislaga

Dómsmálaráðuneytið
Borgartúni 26
Reykjavík

27. september 2023

Efni: Umsögn Dómarafélags Íslands um drög að frumvarpi um breytingu lögræðislaga

Vísað er til draga að frumvarpi til breytinga á lögræðislögum nr. 71/1997, sem nýverið birtust í samráðsgátt stjórnvalda.

Dómarafélagið telur eitt og annað til bóta í frumvarpsdrögunum en leyfir sér að setja fram eftirfarandi ábendingar.

Í 1. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á a-lið 4. gr. laganna sem felur í sér breytta hugtakanotkun, þannig að rætt verði framvegis um „geðröskun“ í stað „geðsjúkdóms“. Þar sem hér virðist um veigamikla breytingu að ræða hefði verið eðlilegt að henni fylgdu ítarlegri lögskýringargögn, þar sem meðal annars yrði sett fram skilgreining á hugtakinu „geðröskun“, enda er viðbúið að tekist verði á um þetta atriði fyrir dómi. Þó nokkuð vantar upp á í þessum efnum í frumvarpsdrögunum. Lagt er því til að þetta atriði verði skoðað nánar.

  • Í 3. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á d-lið 2. mgr. 7. gr. laganna og er orðunum „á dvalarstað varnaraðila“ skipt út fyrir fyrir orðið „dvelst“. Æskilegt væri að skýra nánar í athugasemdum með frumvarpi til slíkrar lagabreytingar hvaða skilning leggja eigi í þetta hugtak. Algengt er að einstaklingar með lögheimili á landsbyggðinni séu til meðferðar á sjúkrahúsi í Reykjavík þegar til stendur að krefjast tímabundinnar sviptingar lögræðis. Skammvinnri dvöl á geðdeild, til dæmis vegna 21 dags nauðungarvistunar, teldist vart „dvalarstaður“ í skilningi gildandi laga. Hér má jafnframt minna á að aðild þess sveitarfélags sem gerir kröfuna verður að fara saman við varnarþingið. Þetta verður ráðið af dómi Hæstaréttar í máli nr. 143/2017 og úrskurði Landsréttar í máli nr. 626/2021. Sveitarfélag á landsbyggðinni getur þannig ekki gert kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem byggt er á að fastur dvalarstaður varnaraðila sé, en byggt samt aðild sína að málinu á lögheimilinu.

  • Í 5. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á 2. mgr. 11. gr. laganna sem virðist misráðin og skortir verulega á fullnægjandi rökstuðning að baki tillögunni. Aðalatriðið þegar kemur að öflun læknisvottorðs í máli um sviptingu lögræðis er að viðkomandi læknir þekki vel til einstaklingsins sem krafan beinist að, eins og áréttað var í lögskýringargögnum að baki upphaflegu ákvæði 11. gr. lögræðislaga. Í frumvarpsdrögunum er miðað við að fortakslaust þurfi að afla tveggja læknisvottorða og að viðkomandi læknar þurfi að vera „óháðir“ hvor öðrum í störfum sínum. Það getur þó gerst að þeir læknar sem best þekki til sjúklings séu samstarfsmenn á spítala. Sú tortryggni í garð lækna sem virðist búa að baki frumvarpsdrögunum er ekki rökstudd með vísan til vandkvæða sem birst hafi í framkvæmd, enda þótt fyrir liggi mikill fjöldi dómsúrlausna sem unnt væri að skoða ef til stæði að vanda til verka í þessum efnum. Þá getur það gerst að einstaklingar séu ekki í meðferðarsambandi við fleiri en einn lækni og jafnvel ekki reiðubúnir að hitta aðra lækna, af ýmsum ástæðum. Í öðrum tilvikum, svo sem þegar um einstakling er að ræða sem liggur í dái, eða til dæmis á deild fyrir heilabilaða, þá má spyrja sig hvort raunveruleg þörf sé á að kalla annan lækni til að staðfesta það sem þegar hefur verið staðfest um þetta í einu læknisvottorði. Í þessum efnum virðast höfundar frumvarpsdraganna loks líta algjörlega fram hjá því að dómari skipar einstaklingum ávallt verjanda, þ.e. sjálfstætt starfandi lögmann sem gætir hagsmuna umbjóðanda síns til hins ítrasta. Telji verjendur til dæmis að vottorð sem fyrir liggi sé ekki nægilegt eða að á því kunni að vera annmarkar, en um þetta hafa þeir samráð við umbjóðanda sinn, þá ber framkvæmd á þessu sviði með sér að verjendur óski gjarnan eftir öðru læknisvottorði eða, í undantekningartilvikum, dómkvaðningu matsmanns til að meta ástand einstaklingsins. Vert er að halda því til haga að málsmeðferð í málum sem þessum, þar á meðal hvað varðar málsmeðferðartíma, verður ekki jafnað til þeirrar sem á sér stað í málum um nauðungarvistun. Loks skal þess getið að ófrávíkjanleg skylda til að afla viðbótarvottorðs óháðs læknis myndi fela í sér þó nokkra útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð, gagnstætt því sem haldið er fram í almennum athugasemdum við frumvarpið.

  • Í 5. gr. frumvarpsdraganna er einnig lögð til sú breyting á 4. mgr. 11. gr. laganna að dómari geti ekki undir nokkrum kringumstæðum sleppt því að kynna sér ástand aðila af eigin raun. Í framkvæmd hafa dómarar lagt mikið á sig til að hitta einstaklinga sem krafa um lögræðissviptingu beinist að og hefur tilhneigingar gætt til að sýna þeim eins mikla tillitssemi og kostur er, til dæmis með því að fara á heimili veikra einstaklinga fremur en að nýta heimild 3. mgr. 11. gr. laganna til að láta lögreglu sækja viðkomandi. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpsdrögum að markmiðið sé að dómari „geti ekki vikið sér undan því“ að hitta varnaraðila. Þekkir félagið ekki dæmi þess að dómari víkist undan þeirri skyldu, sé þörf á því að hann kynni sér ástand varnaraðila af eigin raun. Það getur gerst að ekki sé talin þörf á að dómari hitti einstakling, til dæmis í málum þar sem læknir hefur vottað að hann liggi í dái og dómari hefur skipað einstaklingnum verjanda, þ.e. sjálfsætt starfandi lögmann, sem hefur farið og kynnt sér ástand umbjóðanda síns. Telji ráðuneytið rétt að skoða hvort tilefni sé til að breyta þessari undantekningarreglu þá myndi það heyra til vandaðra vinnubragða að slík tillaga byggðist á skoðun á þeirri framkvæmd sem viðhöfð hefur verið, til dæmis hvort einhver vísbending sé uppi um að þessari undantekningarheimild 4. mgr. 11. gr. laganna hafi verið beitt í meiri mæli en viðbúið var þegar lögræðislög voru upphaflega samþykkt á Alþingi. Á það er minnt í þessu sambandi að dómari hefur heimild til að kalla vitni fyrir dóm, til dæmis umönnunaraðila sem borið geta um aðstæður og ástand varnaraðila. Er því eindregið lagt til að horfið verði frá því að fella niður annan málslið 4. mgr. 11. gr. laganna um að heimsókn dómara sé ekki þörf ef telja megi að hún sé þýðingarlaus fyrir úrlausn málsins.

  • Í 6. gr. frumvarpsdraganna er fjallað um atriði sem þörf er á að dómari fjalli um í rökstuðningi fyrir niðurstöðu úrskurðar. Ekki kemur fram að skort hafi á rökstuðning í framkvæmd eða að úrlausnir dómstóla hafi verið rannsakaðar í þessum efnum af ráðuneytinu. Eftir því sem best verður séð er í dómsúrslausnum í málum um sviptingu lögræðis jafnan vísað til þess sem fram kemur í 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga, um að svipting lögræðis sé heimil standi brýn þörf til, enda hafi önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar verið fullreynd. Ef til stendur að hnykkja á þessu atriði þá kemur vel til greina að svipuð breyting verði gerð á 8. gr. laganna þannig að sá sem setur fram kröfu skuli einnig rökstyðja beiðni sína út frá þessu sjónarmiði. Þetta mætti gera með því að bæta nýjum staflið við 8. gr. laganna. Til þess að dómari hefði á faglegri rökum að byggja í þessu efni í forsendum sínum þyrfti jafnframt að gera kröfur um að um þetta atriði, þ.e. um vægari úrræði sem stæðu til boða og hvers vegna þau komi ekki að gagni, yrði fjallað í læknisvottorðum sem leggja ber fram með kröfu um sviptingu lögræðis, eftir atvikum með sambærilegum hætti og lagt er til að breytingar verði gerðar á f-lið 21. gr. laganna í 11. gr. frumvarpsdraganna.

  • Í 9. gr. frumvarpsdraganna er notað hugtakið „geðröskun“ í stað „geðsjúkdóms“, sbr. það sem áður greinir um 1. gr. frumvarpsdraganna hér að framan. Ítarlegri skýringar er að finna í athugasemdum að baki 9. gr. frumvarpsdraganna samanborið við 1. gr. þeirra, en lagt er til að ráðuneytið vinni nánari skýringar í þessum efnum. Viðbótarskilyrði frá núgildandi ákvæðum fyrir nauðungarvistun í 72 tíma, sem jafnframt verða efnisskilyrði fyrir vistun í 21 dag samkvæmt 3. mgr., eru meðal annars þau að vistun verði ekki ákveðin nema sýnt þyki að meðferðinni verði ekki komið við á annan hátt en með nauðungarvistun. Þetta kallar á nánari fyrirmæli um það hvernig sýnt verði á fram á það fyrir dómi, af hálfu sjúkrahúss eða sýslumanns, með hliðsjón af knöppum tíma til úrlausnar mála, að þeim skilyrðum sé fullnægt þegar ákvarðanir þessara aðila eru bornar undir dóm á grundvelli 30. gr. laganna.

  • Í 11. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á 3. mgr. 21. gr. laganna. Tillagan felur í sér auknar kröfur um fylgigögn með beiðni til sýslumanns og hefur ekki sem slík bein áhrif á störf dómstóla, heldur álag fyrir heilbrigðiskerfið. Í dag er það þannig að meðferðarlæknir viðkomandi metur það svo að þörf sé á nauðungarvistun (án þess að rita vottorð um það) og lætur þá kalla til óháðan lækni, þ.e. lækni sem ekki þekkir til sjúklingsins til að meta það sjálfstætt. Sá læknir starfar þó yfirleitt á annarri deild Landspítala. Það er vandkvæðum bundið að finna geðlækna sem hafa engin tengsl við Landspítala og óljóst hvort næg rök standa til þess að setja þessa kröfu fram í frumvarpsdrögunum. Hugsanlega mætti orða ákvæðið svo að viðkomandi skuli vera óháður þeim lækni sem kallar hann til og þeirri deild sem sjúklingurinn er vistaður á. Lagt er til að þetta atriði verði skoðað nánar í samráði við geðsvið Landspítala. Í frumvarpsdrögunum er ekki lögð til breyting á 23. gr. laganna um heimild sýslumanns til að leita jafnframt til trúnaðarlæknis áður en veitt er heimild til nauðungarvistunar. Samkvæmt þessu yrði sýslumönnum gert að afla allt að þriggja vottorða frá þremur læknum áður en ákvörðun um nauðungarvistun er tekin, sem gerast skal án tafar samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laganna. Lagt er til að lagt sé frekara mat á nauðsyn í þessum efnum.

  • Í 14. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á 29. gr. a í lögunum, en það ákvæði snýr að framlengingu nauðungarvistunar. Í ljósi markmiðs ráðuneytisins, eins og það birtist í athugasemdum með frumvarpsdrögunum, virðist nærtækast að í stað orðsins „dvelur“ verði ritað „sætir nauðungarvistun“.

  • Í 16. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á 31. gr. laganna. Þar er rætt um „dóma“ Landsréttar þar sem með réttu ætti að ræða um „úrskurði“ réttarins. Sambærilega leiðréttingu þyrfti að gera í athugasemdum með frumvarpsdrögunum.

    Eftirfarandi atriði er ekki fjallað um í frumvarpsdrögunum en væri gagnlegt að huga að:

  • Þess er áður getið að í framkvæmd hafa dómarar lagt mikið á sig til að hitta einstaklinga sem krafa um lögræðissviptingu beinist að og hefur tilhneigingar gætt til að sýna þeim eins mikla tillitssemi og kostur er, til dæmis með því að fara á heimili veikra einstaklinga fremur en að nýta heimild 3. mgr. 11. gr. laganna til að láta lögreglu sækja viðkomandi. Þannig er nánast óþekkt að til þess komi að dómari nýti þá heimild, en hún hefur stundum orðið til þess að veikir einstaklingar, sem ekki vilja koma fyrir dóm, hafa fremur verið reiðubúnir til að fá heimsókn frá dómara. Í 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga segir að í því skyni að leggja sjálfstætt mat á hæfi varnaraðila skuli dómari kalla varnaraðila fyrir dóm, kynna honum kröfuna og gefa honum kost á að tjá sig um hana nema ástandi hans sé svo háttað samkvæmt vottorði læknis að það sé ekki mögulegt. Til greina kemur að endurskoða ákvæðið í því skyni að heimila dómara að grípa til vægari úrræða þannig að dómara verði veitt heimild til að virða þann vilja veiks einstaklings sem kýs að koma ekki fyrir dóm, til dæmis ef það veldur viðkomandi mikilli vanlíðan að mæta, enda þótt í sjálfu sér sé ekki talið ómögulegt að mati lækna að einstaklingurinn komi fyrir dóm.

  • Í framkvæmd hafa lögmenn, sem skipaðir hafa verið lögráðamenn eða ráðsmenn og setja fram kröfu um sviptingu lögræðis, almennt ekki verið taldir í þeirri stöðu að unnt sé að skipa þá sem sína eigin „talsmenn“ þegar þeir bera fram kröfu um lögræðissviptingu, sbr. b-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, sbr. úrskurð Landsréttar í máli nr. 704/2021 og úrskurð Landsréttar í máli nr. 97/2023. Til að tryggja að kostnaður af störfum lögráðamanns við þessar aðstæður greiðist úr ríkissjóði, en ekki af fjármunum þess einstaklings sem krafa beinist að, kemur til greina að lögfesta sérreglu um þóknun lögráðamanna og ráðsmanna við þessar aðstæður. Við 1. málslið 1. mgr. 17. gr. laganna gæti þá svohljóðandi nýr 2. málsliður: „Þegar löglærðum lögráðamanni eða ráðsmanni hefur ekki verið skipaður talsmaður, og hann hefur sjálfur flutt mál fyrir dómi um kröfu um lögræðissviptingu, er dómara heimilt að ákvarða honum þóknun úr ríkissjóði.“

Dómarafélagið er reiðubúið að fara nánar yfir þessi atriði með ráðuneytinu sem og önnur er snúa að réttarfari í málum sem rekin eru á grundvelli lögræðislaga. Í því skyni óskar félagið eftir fundi með fulltrúum ráðuneytisins.

Virðingarfyllst,

fyrir hönd Dómarafélags Íslands

Kristbjörg Stephensen
formaður stjórnar

Previous
Previous

Álit dómaranefndar Evrópuráðsins um notkun gervigreindar í dómskerfinu

Next
Next

Tillögur um breytingar á dómstólakafla stjórnarskrárinnar