Álit dómaranefndar Evrópuráðsins um notkun gervigreindar í dómskerfinu

Ráðgjafarnefnd Evrópskra dómara (CCJE) sem starfar á vettvangi Evrópuráðsins, samþykkti á fundi sínum Strasbourg 1. desember 2023 álit um notkun gervigreindar í dómskerfinu nr. 26(2023). Álitið má sjá hér.

Álitið er mjög ítarlegt en þar er fjallað um þau áhrif sem stafræn tækni og gervigreind hefur á starfsemi dómstóla og dómskerfið í víðu samhengi. Þá er fjallað um  framtíðarmöguleika gervigreindar til að auka skilvirkni dómstóla í margvíslegu tilliti svo sem í stjórnsýslu þeirra, málaskrárkerfum og rafrænni málsmeðferð en einnig við sáttameðferð fyrir dómstólum, sönnunarfærslu og ákvarðanatöku í tilteknum málaflokkum. Í álitinu er sjónum sérstaklega beint að kostum og göllum þess að dómstólar nýti sér gervigreindartækni í auknum mæli við úrlausn mála. Þá er lagt mat á hugsanlegar áskoranir sem tæknin skapar gagnvart sjálfstæði dómstóla,  réttinum til réttlátrar málsmeðferðar, upplýsingaöryggi og persónuvernd.

Ráðgjafarnefnd Evrópskra dómara er skipuð dómurum frá  46 ríkjum Evrópuráðsins  og eru þeir að jafnaði tilnefndir af dómarafélögum viðkomandi ríkja. Hlutverk nefndarinnar er að vera stofnunum Evrópuráðsins til ráðgjafar um hvers kyns álitaefni sem tengjast sjálfstæði og hlutleysi dómstóla og stöðu dómara í aðildarríkjunum.

Fulltrúi Íslands í nefndinni er Björg Thorarensen hæstaréttardómari. Nefndin fundar í  Strasbourg eina viku í nóvember ár hvert og samþykkir þá að jafnaði álit um efni sem tengjast sjálfstæði dómara og dómstóla og byggjast meðal annars á rannsókn á stöðu mála og lagaumhverfi í aðildarríkjunum. Á síðasta fundi nefndarinnar var ákveðið að hefja vinnu við gerð álits um reglur og framkvæmd aðildarríkjanna varðandi agaviðurlög gagnvart dómurum.

Lista yfir álit nefndarinnar frá síðustu árum má sjá hér.

Previous
Previous

Bréf til dómsmálaráðherra um setningu í embætti dómara til sex ára

Next
Next

Umsögn um drög að frumvarpi um breytingu lögræðislaga