Bréf til dómsmálaráðherra um setningu í embætti dómara til sex ára

 Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra

 

 

 

11. janúar 2024

 Efni: Um setningu í embætti dómara til sex ára

 Dómarafélag Íslands sendi í mars á þessu ári umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla nr. 50/2016 (822. mál) sem fjallaði um fjölgun dómara við Landsrétt. Við það tækifæri vakti félagið einnig athygli á því að taka þyrfti til endurskoðunar ákvæði laga um dómstóla, sem mæla fyrir um setningu dómara  á öllum dómstigum til sex ára við ákveðnar aðstæður. Markmið þessa bréfs félagsins til dómsmálaráðherra er að ítreka athugasemdir við slíkt fyrirkomulag.

Í febrúar á þessu ári var auglýst laust til setningar embætti dómara við Landsrétt til 28. febrúar 2029 í tengslum við leyfi skipaðs landsréttardómara sem tekið hefur sæti í alþjóðlegum dómstóli. Var  þetta í fyrsta skipti sem auglýst var setning dómara til svo langs tíma, eða sex ár samfleytt, en áður hafði verið auglýst embætti dómara við Hæstarétt til setningar í þrjú ár vegna leyfis dómara af sömu ástæðu.

Dómarafélag Íslands bendir á að dómarar við hina almennu dómstóla landsins eru eina stétt embættismanna sem skipaðir eru ótímabundið, sbr. ákvæði laga um dómstóla nr. 50/2016. Þótt ekki séu bein fyrirmæli þess efnis í stjórnarskránni hefur verið leitt af orðalagi 61. gr. hennar að dómarar skuli skipaðir til óákveðins tíma þar til þeir brjóta af sér eða fullnægja ekki lengur almennum hæfisskilyrðum og færu því lagafyrirmæli um fimm ára skipunartíma gegn þessu ákvæði. Þessi tilhögun hvílir á þeirri grundvallarreglu að tryggja beri sjálfstæði dómara og að þeir eigi ekki yfir höfði sér lausn frá embætti að loknum styttri skipunartíma vegna verka sinna.

Þótt þeir, sem settir eru til að gegna starfi dómara til fyrirfram ákveðins tíma, njóti sömu stöðu og skipaðir dómarar á setningartímanum og sjálfstæði þeirra sé tryggt geta skapast álitaefni um hvort tímabundin setning geti í raun haft áhrif á sjálfstæði og störf dómarans, stefni hann að því að setning verði framlengd eða hann leiti síðar eftir skipun í embætti.

Til að viðhalda skilvirkni dómskerfisins getur verið nauðsynlegt að manna stöður dómara tímabundið, svo sem vegna veikinda eða forfalla fastra dómara. Við slíkar aðstæður er heimilt samkvæmt ákvæðum laga um dómstóla nr. 50/2016 að setja dómara til allt að tólf mánaða. Þegar slík málefnaleg rök eru fyrir tímabundinni setningu dómara og úrræðið er aðeins nýtt í afmörkuðum og lögmæltum tilvikum verður ekki talið að það fari gegn meginreglunni um sjálfstæði dómara.

Heimild laga um dómstóla til að setja dómara á öllum dómstigum til sex ára, sbr. 3. mgr. 18. gr. um Hæstarétt, 3. mgr. 26. gr. um Landsrétt og 3. mgr. 35. gr. um héraðsdóm, vegna leyfis skipaðs dómara til að starfa hjá alþjóðastofnun er hins vegar af öðrum toga. Hún vekur upp spurningar um hvort svo langur setningartími í dómaraembætti samrýmist sjónarmiðum um sjálfstæði dómstóla sem fyrr er lýst og varið er í stjórnarskrá.

Þegar sex ára setning í embætti dómara við Landsréttar var sem fyrr greinir fyrst auglýst í febrúar á þessu ári voru allir umsækjendur héraðsdómarar. Verði héraðsdómari settur af þessari ástæðu sem landsréttardómari skal embætti þess fyrrnefnda auglýst laust til setningar annars dómara á leyfistímanum, þ.e. einnig í sex ár, sbr. 3. mgr. 35. gr. laga um dómstóla. Sama gildir ef landsréttardómari er settur hæstaréttardómari til sex ára, sbr. 3. mgr. 26. gr. laganna.

Af þessu fyrirkomulagi leiðir að einhvers konar keðja getur skapast í sex ára setningum dómara á öllum dómstigum fái dómari við Hæstarétt leyfi frá störfum til svo langs tíma. Setningartími miðast við þann tíma sem leyfi hins fasta dómara stendur. Af ákvæðum laga er hins vegar ekki ljóst hvernig skuli fara með ef leyfi fasts dómara reynist styttra en áætlað var eða hann lætur af embætti. Þannig er öryggi hins setta dómara enn minna en ella, enda er starfstími hans í raun þá háður því að engar breytingar verði á leyfi þess dómara sem hann er settur fyrir. Það sama gildir ef dómari, sem settur er við Landsrétt eða Hæstarétt í sex ár, fær skipun í embætti áður en setningartíma hans lýkur.

Þær áhyggjur sem Dómarafélag Ísland lýsti í umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í vor um slíka keðjuverkun milli Landsréttar og héraðsdómstóla hafa ræst. Þannig hefur sá héraðsdómari sem fyrst var settur landsréttardómari til sex ára síðar fengið fast embætti við Landrétt og þurfti þá á ný að auglýsa embætti við réttinn laust til setningar til ársins 2029. Þá hlaut annar héraðsdómari setningu við Landsrétt til sex ára og var embætti hans við héraðsdóm því auglýst laust til setningar.

Dómarafélag Íslands telur að lagafyrirmæli um setningu í embætti dómara til sex ára geti dregið úr festu sem þarf að ríkja um skipun dómara og skapað óvissu um stöðu þeirra sem settir eru í embætti til svo langs tíma. Félagið hvetur dómsmálaráðherra til að leggja til lagabreytingar á fyrirkomulagi um setningu í embætti fyrir dómara sem fær sex ára leyfi frá störfum til að starfa hjá alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun. Einn valkostur gæti verið að bæta við lög um dómstóla ákvæði um að fjölga megi dómurum tímabundið við dómstól þegar dómari kemur til baka úr slíku leyfi eða að hann geti tekið við embætti sem er laust þegar störfum hans við alþjóðastofnun lýkur. Félagið telur að núverandi skipan sé til þess fallin að stefna sjálfstæði dómara í hættu. Leita þarf leiða til bæta úr því og lýsir félagið sig viljugt til samvinnu í þeim efnum.

 

Virðingarfyllst,

 

f.h. stjórnar Dómarafélags Íslands

 

 

Kristbjörg Stephensen

Previous
Previous

Umsögn um fjármálaáætlun 2025-2029

Next
Next

Álit dómaranefndar Evrópuráðsins um notkun gervigreindar í dómskerfinu