Dómaranefnd Evrópuráðsins samþykkir álit og tilmæli um agaviðurlög dómara

Ráðgjafarnefnd Evrópskra dómara (CCJE) sem starfar á vettvangi Evrópuráðsins samþykkti á fundi sínum í Strasbourg 6. desember 2024 álit og tilmæli um agaviðurlög dómara nr. 27(2024). Álitið má sjá hér.

Í álitinu er fjallað um mikilvægi þess að skýrar og fyrirsjánlegar reglur séu í aðildarríkjunum um skilyrði þess að dómarar sæti agaviðurlögum vegna háttsemi innan eða utan embættis. Slíkt fyrirkomulag sé nauðsynlegt bæði til að tryggja sjálfstæði dómstóla og styrkja traust almennings til dómskerfisins. Jafnframt er lýst áhyggjum af því að á undanförnum árum hafi stjórnvöld í nokkrum Evrópurríkjum í auknum mæli beitt dómara agaviðurlögum sem úrræði til að þagga niður í eða leysa frá störfum dómara sem ekki hafa dæmt stjórnvöldum í vil.

Ítarlega er fjallað um lagalega umgjörð um agaviðurlög dómara í álitinu, ástæður þess að þeim verði beitt, hverjir fari með vald til að rannsaka mál og ákveða að beita agareglum og raunhæf réttarúrræði dómara vegna slíkra ákvarðana. Í lok álitsins eru sett fram tilmæli til aðildarríkja um hvernig rétt sé að skipa agamálum dómara og atriði sem rétt sé að líta sérstaklega til í því sambandi.

Álitið um agaviðurlög dómara er tengt fyrra áliti nefndarinnar um siðareglur og ábyrgð dómara nr. 3(2002) sem var samþykkt árið 2002 og má sjá hér. Í hinu nýja áliti er farið yfir þróun sem orðið hefur undanfarna tvo áratugi varðandi agaviðurlög dómara og ný álitaefni sem þar hafa vaknað og eru til þess fallin að vekja áhyggjur af sjálfstæði dómsvaldsins.

Ráðgjafarnefnd Evrópskra dómara er skipuð dómurum frá 46 ríkjum Evrópuráðsins og eru þeir að jafnaði tilnefndir af dómarafélögum viðkomandi ríkja. Hlutverk nefndarinnar er að vera stofnunum Evrópuráðsins til ráðgjafar um hvers kyns álitaefni sem tengjast sjálfstæði og hlutleysi dómstóla og stöðu dómara í aðildarríkjunum. Fulltrúi Íslands í nefndinni er Björg Thorarensen hæstaréttardómari.

Lista yfir álit nefndarinnar frá síðustu árum má sjá hér.

Previous
Previous

Ungverskir dómarar fóru í kröfugöngu og kröfðust þess að sjálfstæði dómsvalds þar í landi væri virt

Next
Next

Skýrsla starfshóps um nýtt launamódel fyrir norska dómara