Vestrahorn

Um félagið

Árið 1991 tók Davíð Þór Björgvinsson, nú dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, saman sögu Dómarafélags Íslands og birtist grein hans um sögu félagsins í Tímariti lögfræðinga 3. hefti, 41. árgangi. Eftirfarandi samantekt er byggt á því sem fram kemur í grein Davíðs Þórs.

Segja má að skipta megi sögu Dómarafélags Íslands í nokkur tímabil.

Í fyrsta lagi tímabilið frá 1941-1957, en upphaf félagsins miðast við stofnun félagsins dagana 10.-17. október 1941. Á þessu tímabili hét félagið ,,Félag héraðsdómara”, en árið 1957 var gerð breyting á lögum félagsins og var þá aðild ekki lengur bundin við héraðsdómara og fengu hæstaréttardómarar inngöngu í félagið. Um leið var nafni félagsins breytt í Dómarafélag Íslands, en það nafn hefur félagið borið æ síðan. Starf félagsins á þessu tímabili einkenndist af áherslu á sérstök hagsmunamál bæjarfógeta og sýslumanna.

Annað tímabil félagsins hófst árið 1957, en þá voru eins og áður segir gerðar breytingar á lögum þess. Lauk því tímabili árið 1964 þegar stofnaðar voru sérstakar deildir innan félagsins sem hétu Sýslumannafélagið og Dómarafélag Reykjavíkur. Á þessum tíma fjölgaði héraðsdómurum og fóru hagsmunir þeirra og sýslumanna og bæjarfógeta ekki ávallt saman. Þótti ýmsum dómurum í þéttbýlinu sem of mikil áhersla væri lögð á hagsmunamál dómara á landsbyggðinni. Leiddi það til þeirra skipulagsbreytinga sem gerðar voru árið 1964.

Á tímabilinu frá 1964-1977 virðist sem mönnum hafi gengið illa að finna félaginu tilgang þegar eiginleg kjara-og hagsmunabarátta varð minni hluti af starfi félagsins. Virðist sem tímabil þetta hafi einkennst af mikilli félagslegri deyfð.

Eftir 1977 hljóp fjörkippur í starfsemi félagsins. Þess má geta að það ár og fram til ársins 1984 var Ármann Snævarr formaður félagsins. Félagið jók fræðastarf meðal félaga sinna til muna með málþingum og fyrirlestrahaldi. Umsögnum um lagafrumvörp fór fjölgandi og erlend samskipti færðust mjög í aukana. Dómarar fóru í hópferðir til útlanda, tengsl við dómarafélög á Norðurlöndunum styrktust og Dómarafélag Íslands fékk aðild að alþjóðasamtökum dómara.

Mikill hluti starfs stjórnar í dag fer í gefa umsagnir um lagafrumvörp, rækta tengsl við dómarafélög á hinum norðurlöndunum og taka þátt í fundum Alþjóðasamtökum dómara og Evrópusamtökum dómara, sem eru undirdeild Alþjóðasamtaka dómara. Þá tekur Dómarafélag Íslands þátt í málþingum með Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands, m.a. Lagadegi. Einnig hefur félagið skipulagt fræðaferðir dómara til hinna ýmsu landa. Þá hefur félagið séð um fræðafundi og fyrirlestra á almennum félagsfundum.

Kjarabarátta dómara hefur orðið æ snarari þáttur í starfsemi stjórnar DÍ og hefur mikill tími stjórnar farið í að sinna þeirri baráttu. Liður í kjarabaráttunni er að svara fyrirspurnum fjölmiðla, veita viðtöl og upplýsingar.

Formenn Dómarafélagsins

1941-1947 Gísli Sveinsson
1947-1961 Jón Steingrímsson
1961-1964 Páll Hallgrímsson
1964-1970 Hákon Guðmundsson
1970-1971 Björn Fr. Björnsson
1971-1972 Sigurgeir Jónsson
1972-1973 Björgvin Bjarnason
1973-1975 Björn Ingvarsson
1975-1977 Unnsteinn Beck
1977-1984 Ármann Snævarr
1984-1986 Ásgeir Pétursson
1986-1987 Jón Skaftason
1987-1991 Friðgeir Björnsson
1991-1994 Valtýr Sigurðsson
1994-1997 Allan Vagn Magnússon
1997-1999 Garðar Gíslason
1999-2003 Helgi I. Jónsson
2003-2005 Hjördís Hákonardóttir
2005-2009 Eggert Óskarsson
2009-2011 Ingveldur Einarsdóttir
2011-2013 Hjörtur O. Aðalsteinsson
2013-2017 Skúli Magnússon
2017-2019 Ingibjörg Þorsteinsdóttir
2020-2022 Kjartan Bjarni Björgvinsson
2023- Kristbjörg Stephensen