25. júlí – Alþjóðlegur dagur heilbrigðs dómskerfis
Sameinuðu þjóðirnar samþykktu 4. mars 2025 að 25. júlí ár hvert yrði alþjóðlegur dagur heilbrigðs dómskerfis. Sjá nánar hér:
og hér:
Dómar Evrópudómstólsins um tengsl sjálfstæðis dómsvaldsins og ákvarðana um launakjör dómara
Með dómi 25. febrúar 2025 í sameinuðum málum nr. C-146/23 kvað Evrópudómstóllinn upp úr um að ákvarðanir um laun dómara og breytingar á þeim þurfi að eiga sér lagastoð og uppfylla skilyrði um hlutlægni, fyrirsjáanleika, stöðugleika og gagnsæi. Þá kom fram að öll frávik frá því sem annars gildir um launaákvarðanir dómara þurfi að vera nauðsynleg út frá almannahagsmunum, samræmast meðalhófsreglu og gilda tímabundið.
Fréttatilkynningu um efni dómsins má sjá hér: https://curia.europa.eu/jcms/upload/docs/application/pdf/2025-02/cp250020en.pdf
og dóminn má sjá hér:
Ungverskir dómarar fóru í kröfugöngu og kröfðust þess að sjálfstæði dómsvalds þar í landi væri virt
Hinn 22. febrúar 2025 fóru ungverskir dómarar í kröfugöngu og kröfðust þess að sjálfstæði dómsvalds þar í landi væri virt. Sjá nánari upplýsingar í frétt á heimasíðu IAJ: https://www.iaj-uim.org/iuw/hungarian-judges-march-for-the-rule-of-law/
Dómaranefnd Evrópuráðsins samþykkir álit og tilmæli um agaviðurlög dómara
Ráðgjafarnefnd Evrópskra dómara (CCJE) sem starfar á vettvangi Evrópuráðsins samþykkti á fundi sínum í Strasbourg 6. desember 2024 álit og tilmæli um agaviðurlög dómara nr. 27(2024). Álitið má sjá hér.
Í álitinu er fjallað um mikilvægi þess að skýrar og fyrirsjánlegar reglur séu í aðildarríkjunum um skilyrði þess að dómarar sæti agaviðurlögum vegna háttsemi innan eða utan embættis. Slíkt fyrirkomulag sé nauðsynlegt bæði til að tryggja sjálfstæði dómstóla og styrkja traust almennings til dómskerfisins. Jafnframt er lýst áhyggjum af því að á undanförnum árum hafi stjórnvöld í nokkrum Evrópurríkjum í auknum mæli beitt dómara agaviðurlögum sem úrræði til að þagga niður í eða leysa frá störfum dómara sem ekki hafa dæmt stjórnvöldum í vil.
Ítarlega er fjallað um lagalega umgjörð um agaviðurlög dómara í álitinu, ástæður þess að þeim verði beitt, hverjir fari með vald til að rannsaka mál og ákveða að beita agareglum og raunhæf réttarúrræði dómara vegna slíkra ákvarðana. Í lok álitsins eru sett fram tilmæli til aðildarríkja um hvernig rétt sé að skipa agamálum dómara og atriði sem rétt sé að líta sérstaklega til í því sambandi.
Álitið um agaviðurlög dómara er tengt fyrra áliti nefndarinnar um siðareglur og ábyrgð dómara nr. 3(2002) sem var samþykkt árið 2002 og má sjá hér. Í hinu nýja áliti er farið yfir þróun sem orðið hefur undanfarna tvo áratugi varðandi agaviðurlög dómara og ný álitaefni sem þar hafa vaknað og eru til þess fallin að vekja áhyggjur af sjálfstæði dómsvaldsins.
Ráðgjafarnefnd Evrópskra dómara er skipuð dómurum frá 46 ríkjum Evrópuráðsins og eru þeir að jafnaði tilnefndir af dómarafélögum viðkomandi ríkja. Hlutverk nefndarinnar er að vera stofnunum Evrópuráðsins til ráðgjafar um hvers kyns álitaefni sem tengjast sjálfstæði og hlutleysi dómstóla og stöðu dómara í aðildarríkjunum. Fulltrúi Íslands í nefndinni er Björg Thorarensen hæstaréttardómari.
Lista yfir álit nefndarinnar frá síðustu árum má sjá hér.
Skýrsla starfshóps um nýtt launamódel fyrir norska dómara
Norska þingið fól starfshópi í desember 2023 að rannsaka og gera tillögu að nýju launamódeli fyrir dómara á öllum dómstigum. Hinn 16. nóvember 2024 skilaði nefndin skýrslu með tillögum sínum að nýju launakerfi.
Með tillögunum er í afar stuttu máli gert ráð fyrir að laun norskra dómara verði ákvörðuð með lögum að tillögu sjálfstæðrar nefndar og kemur fram að sú leið þykir henta best vegna sjónarmiða sem lúta að sjálfstæði dómsvaldsins. Til upplýsingar er bent á að á síðum 44-47 í skýrslunni er að finna upplýsingar um fyrirkomulag launasetninga dómara á Norðurlöndunum.
Hér má nálgast tillögur starfshópsins:
Fundur formanna norrænna dómarafélaga haldinn í Osló
Reglulegur fundur formanna norrænna dómarafélaga var haldinn í Osló 8. nóvember 2024. Formaður Dómarafélags Íslands, Kristbjörg Stephensen, sótti fundinn.
Á fundinum var kynntur undirbúningur að notkun gervigreindar við norska dómstóla og ræddar aðferðir við launasetningu dómara á Norðurlöndum og sérstaklega kynntar nýjar leiðir að launasetningu norskra dómara sem gert er ráð fyrir að taki gildi á komandi misserum.
Niðurstöður vinnuhópa á ársfundi IAJ 2024 í Höfðaborg 19.-21. október 2024
Fjórir fastir vinnuhópar IAJ skiluðu niðurstöðum um eftirtalin efni:
Fyrsti vinnuhópur, 1st Study Commission, sem fjallar um skipulag og stöðu dómskerfisins og réttindi einstaklinga (Organisation of the Judiciary – Status of the Judiciary – Rights of the Individuals), tók fyrir efnið: The Effects of Artificial Intelligence on the Judiciary.
Niðurstöður má nálgast hér: https://www.iaj-uim.org/iuw/1st-study-commission/
Annar vinnuhópur, 2nd Study Commission, sem fjallar um einkamál og einkamálaréttarfar (Civil Law and Procedure), tók fyrir efnið: Written Submissions – when do they turn from a help to a hindrance?
Niðurstöður má nálgast hér: https://www.iaj-uim.org/iuw/2nd-study-commission/
Þriðji vinnuhópur, 3rd Study Commission, sem fjallar um sakamál og sakamálaréttarfar (Criminal Law and Procedure), tók fyrir efnið: The rapid evolution of illicit drug manufacturing and the challenges this unstoppable process poses to successful prosecution.
Niðurstöður má nálgast hér: https://www.iaj-uim.org/iuw/3rd-study-commission/
Fjórði vinnuhópur, 4th Study Commission, sem fjallar um allsherjarrétt og félaga- og félagsmálarétt (Public and Social Law), tók fyrir efnið: Digital Revolution Impact on the Labour Market: Platform og Gig Economy and Artificial Intelligence.
Niðurstöður má nálgast hér: https://www.iaj-uim.org/iuw/4th-study-commission/
Ársfundur IAJ 2024 í Höfðaborg í S-Afríku 19.-21. október 2024
Ársfundur IAJ 2024 var haldinn í Höfðaborg í Suður-Afríku dagana 19. til 21. október 2024. Fulltrúar Dómarafélags Íslands á fundinum voru formaður félagsins, Kristbjörg Stephensen og Hlynur Jónsson stjórnarmaður.
Á fundinum var meðal annars samþykkt ályktun um Túnis, sem má sjá hér:
https://www.iaj-uim.org/iuw/iaj-statement-on-tunisia/
og fundargerð fundarins má sjá hér:
https://www.iaj-uim.org/iuw/wp-content/uploads/2024/10/minutes-CC-2024-Cape-Town-En.pdf
Samhliða ársfundi IAJ fundaði Evrópudeild IAJ (EAJ) eins og venja er og var sá fundur haldinn daginn áður eða 18. október 2024. Kristbjörg og Hlynur sátu jafnframt þann fund.
Á fundinum voru meðal annars samþykktar ályktanir varðandi Armeníu, Búlgaríu og Svíþjóð sem sjá má hér:
https://www.iaj-uim.org/iuw/eaj-resolutions-adopted-in-cape-town-2024/
Umsögn um áform um breytingu á lögum nr. 50/2016 um dómstóla (leyfi dómara)
Umsögn um áform um breytingu á lögum nr. 50/2016 um dómstóla (leyfi dómara)
Dómsmálaráðuneytið birti 19. ágúst sl. áform um breytingu á lögum nr. 50/2016 um dómstóla (leyfi dómara). Dómarafélag Íslands lýsir yfir stuðningi við boðuð áform en félagið hefur bæði með erindi til dómsmálaráðherra 11. janúar sl. og í umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis 29. mars 2023 vakið athygli á að núverandi skipan mála þegar kemur að leyfi dómara sé til þess fallin að stefna sjálfstæði dómara í hættu.
Þrátt fyrir að félagið sé sammála boðuðum áformum er vakin athygli á því að í framangreindum erindum þess til dómsmálaráðherra og allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis voru settir fram tveir valkostir að lagabreytingu, þ.e. að fjölga megi dómurum tímabundið við dómstól þegar dómari kemur til baka úr leyfi frá störfum vegna starfa hjá alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun eða að dómarinn taki við embætti sem sé laust þegar hann snýr til baka úr slíku leyfi.
Í áformaskjali er einvörðungu síðari valkosturinn kynntur. Dómarafélag Íslands telur á hinn bóginn fyrri valkostinn æskilegri en bæði er hann hagfelldari þeim dómara sem snýr til baka úr leyfi þar sem hann kemur í veg fyrir að dómarinn þurfi jafnvel um lengri tíma að bíða eftir að staða losni auk þess sem óvissa um hvað bíði viðkomandi dómara er hann snýr til baka getur orðið til þess að draga úr áhuga dómara á að gefa kost á sér til starfa hjá alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun.
Fyrir hönd Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen
Mótmæli gegn ítrekuðum kjaraskerðingum dómara
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis
19. júní 2024
Efni: Mótmæli gegn ítrekuðum kjaraskerðingum dómara
Dómarafélag Íslands vísar til framkomins frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna launa þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna (hækkun launa) þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að 4. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sem kveður á um að laun dómara skuli 1. júlí ár hvert hækka miðað við „hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár“, verði með lögum vikið til hliðar. Fyrir liggur að dómarar eiga á grundvelli þessa lagaákvæðis von á því að laun þeirra hækki um 8%. Gangi boðaðar skerðingar á kjörum dómara eftir munu á hinn bóginn laun dómara þess í stað hækka um tæp 3% eða um 66.000 krónur. Hér er því um fyrirhugaða skerðingu að ræða á lögbundnum rétti dómara til leiðréttingar launa til samræmis við hlutfallslegar launahækkanir annarra ríkisstarfsmanna sem þegar hafa komið til framkvæmda.
Í greinargerð með framangreindu frumvarpi kemur fram að í lok mars 2023 hafi náðst rammasamningar milli opinberra launagreiðenda og bandalaga opinbers starfsfólks sem kjarasamningar við stéttarfélög á opinberum vinnumarkaði hafi byggst á. Þeir hafi falið í sér samkomulag um framlengingu á kjarasamningum til eins árs þar sem viðræðum um önnur atriði en launalið var frestað. Útfærsla kjarasamninga hafi verið sambærileg því sem samið var um á almennum vinnumarkaði, sem hafi falið í sér blöndu krónutölu- og prósentuhækkana auk hámarks krónutöluhækkana. Með frumvarpinu sé lagt til að laun þeirra sem taki laun samkvæmt nánar tilgreindum lagaákvæðum hækki um 66.000 krónur í stað 8%. Með krónutöluhækkuninni sé horft til þeirrar krónutöluhækkunar í kjarasamningum sem gerðir voru viðmiðunarárið 2023, þ.e. næstliðið almanaksár og að með þessari hækkun sé gengið fram með góðu fordæmi á tímum hárrar verðbólgu og vaxta.
Framangreindar röksemdir halda ekki að mati Dómarafélags Íslands. Ákvæði 4. mgr. 44. gr. laga um dómstóla gerir ráð fyrir að laun hækki til samræmis við launaþróun ríkisstarfsmanna, það er hækki til samræmis við launahækkanir ríkisstarfsmanna sem þegar eru komnar fram. Fram hjá því verður ekki litið að meðaltalshækkun reglulegra launa ríkisstarfsmanna er 8% vegna ársins 2023. Laun þessa hóps hafa því hækkað meira en sem nemur framangreindri krónutöluhækkun sem mun hafa verið samið um á árinu 2023, hækkun sem dómarar munu þá ekki njóta, gangi frumvarpið eftir, þar sem laun þeirra taka hækkun hverju sinni á miðju ári næsta árs eftir að laun viðmiðunarhópsins hafa hækkað.
Dómarafélag Íslands minnir á að dómarar skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins, sbr. 2., 59., 61. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 er rakið að áskilnaður 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um óháða dómstóla feli í sér að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og „ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins“. Er skírskotað til þess að „kjör sem dómendum eru tryggð“ séu einn af efnisþáttum í mati á hvort dómstólarnir teljist sjálfstæðir þannig að fullnægt sé kröfum stjórnarskrárinnar. Er þetta fyrirkomulag meðal annars í samræmi við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. (2010)12 frá 17. nóvember 2010 um sjálfstæði, skilvirkni og skyldur dómenda. Þar er ekki aðeins lögð áhersla á að mælt skuli fyrir um launakjör dómara í lögum heldur einnig að tryggt skuli með lögum að ekki verði gripið til launalækkunar sem beinist sérstaklega að dómurum.
Gangi fyrirhugaðar breytingar eftir yrði það í fjórða sinn á rétt rúmum fjórum árum sem dómarar þyrftu að sæta því að laun þeirra séu skert, en með 20. gr. laga nr. 25/2020 var launahækkun dómara í samræmi við 4. mgr. 44. gr. laga um dómstóla frestað frá 1. júlí 2020 til 1. janúar 2021. Þá var viðmiði við endurskoðun launa dómara breytt til lækkunar með ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem boðuð var með bréfi Fjársýslu ríkisins 29. júní 2022 og tók gildi 1. júlí sama ár, og dómarar að auki endurkrafðir um það sem ráðuneytið taldi vera ofgreidd laun þeirra. Með dómi Hæstaréttar Íslands 22. desember 2023 í máli nr. 39/2023 var íslenska ríkið gert afturreka með þær ákvarðanir. Í þriðja sinn voru laun dómara skert þegar Alþingi, með sama hætti og nú er fyrirhugað, ákvað að laun dómara skyldu aðeins hækka um 2,5% í stað 7,1%. Með réttu má halda því fram að dómstólar hér á landi séu ekki fyllilega sjálfstæðir í störfum sínum ef löggjafarvald og framkvæmdarvald skerða ítrekað lögbundin launakjör dómara.
Þótt rétt sé að Feneyjarnefnd Evrópuráðsins hafi fallist á að almenn lækkun launa opinberra starfsmanna þegar harðnar verulega á dalnum megi ná til dómara eins og það er orðað í greinargerð með frumvarpinu og verði ekki talin brot á sjálfstæði dómara er rétt að benda á að annað gildir um ítrekaðar skerðingar á launum dómara, skerðingar á launum sem aðrar stéttir hafa notið. Aftur er minnt á að nú er stefnt að fjórðu skerðingunni á fjórum árum án þess að því verði haldið fram að hér á landi hafi á þessum árum verið ríkjandi miklir efnahagslegir erfiðleikar. Þá verður einnig að benda á að sú aðgerð, að taka af dómurum launahækkun sem aðrar stéttir hafa notið, verður ekki talin hluti af almennri efnahagslegri aðgerð.
Dómarar í landinu eru 65 talsins. Samkvæmt því eru þeir rúmlega þriðjungur þeirra sem verða fyrir skerðingu af völdum laganna. Ef 63 alþingismenn eru teknir út fyrir sviga, en þeim sem fara með löggjafarvaldið er vitanlega hverju sinni heimilt að lækka laun sín án þess að sú lækkun verði að ná til annarra opinberra starfsmanna sem ekki hafa samningsrétt á vinnumarkaði, þá eru dómarar rúmlega helmingur þess hóps sem fyrir skerðingunni verður. Ef saksóknarar í landinu eru taldir með dómurum, en um nauðsyn sjálfstæðis þeirra gilda svipuð sjónarmið og eiga við um dómara, þá eru dómarar og saksóknarar um 2/3 hluti þeirra sem fyrir skerðingunni verða. Hér er því langt í frá um að ræða almenna aðgerð gagnvart breiðum hópi embættismanna sem eðlilegt er að dómarar taki þátt í, heldur beinist hún í raun einkum að dómurum og saksóknurum.
Dómarafélag Íslands leggst því gegn því að frumvarpið verði látið ná til dómara og leggur til að 4. gr. þess verði felld á brott.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen
Breytingar á dómstólakafla norsku stjórnarskrárinnar
Norska stórþingið samþykkti 21. maí 2024 heildarendurskoðun á þeim kafla norsku stjórnarskrárinnar sem fjallar um dómsvaldið (86.gr. - 91. gr.) Helstu nýmælin sem verða með breytingunum eru eftirfarandi.
Öll dómstigin þrjú eru talin upp í stjórnarskránni, en áður var þar aðeins getið Hæstaréttar Noregs (87. gr.)
Mælt er fyrir um hámarksfjölda dómara í Hæstarétti og mega þeir ekki vera fleiri en 22, áður var aðeins getið um fimm dómara lágmarksfjölda (88. gr.)
Nýtt ákvæði bættist við um að konungur skipi dómara að fenginni umsögn frá óháðri nefnd og nánari fyrirmæli um nefnd um skipun dómara skuli sett með lögum (90. gr.)
Nýtt ákvæði bættist við um að dómara verði hvorki vikið úr embætti né hann fluttur í annað embætti gegn vilja sínum fyrir 70 ára aldur nema með dómi (90. gr.)
Nýtt ákvæði bættist við sem mælir fyrir um að tryggja skuli sjálfstæði stjórnsýslu dómstólanna (91. gr.)
Norsku stjórnarskrána með áorðnum breytingum má sjá hér
Umsögn um frumvarp til breytinga á lögræðislögum
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis
Kópavogi, 27. maí 2024
Umsögn Dómarafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögum nr. 71/1997 (nauðungarvistanir, yfirlögráðendur o.fl.)
Dómarafélag Íslands þakkar fyrir tækifæri til að fá að koma á framfæri ábendingum við framkomið frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á lögræðislögum. Félagið kom áður á framfæri tillögum við frumvarpsdrög í samráðsgátt og fagnar því að dómsmálaráðuneytið hefur í vinnu sinni litið til þeirra að miklu leyti.
Á þessu stigi málsins er félagið einungis með eina tillögu, sem þó gæti reynst brýn. Annars vegar vegna þess að hún dregur úr valdbeitingu við framkvæmd lögræðislaga. Hins vegar vegna þess að hún getur stuðlað að því að aukin virðing verði borin fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks, þar á meðal fatlaðra einstaklinga, sbr. það sem greinir hér á eftir um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Í 11. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er fjallað um málsmeðferð í málum þar sem krafist er sviptingar lögræðis einstaklings. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að í því skyni að leggja sjálfstætt mat á hæfi varnaraðila skuli dómari kalla varnaraðila fyrir dóm, kynna honum kröfuna og gefa honum kost á að tjá sig um hana nema ástandi hans sé svo háttað samkvæmt vottorði læknis að það sé ekki mögulegt. Neiti varnaraðili að koma fyrir dóm án þess að slíkt læknisvottorð liggi fyrir er komin upp sú staða sem vikið er að í 3. mgr. 11. gr. lögræðislaga en þar er dómara heimilað að leita liðsinnis lögreglu við að sækja varnaraðila. Lögreglu er skylt að verða við slíkum fyrirmælum dómara. Í reynd getur dómari af réttarfarslegum ástæðum verið tilneyddur til að beita þessu úrræði. Augaleið gefur að slík valdbeiting getur verið harkaleg en hafa ber í huga að hér er gjarnan um að ræða einstaklinga sem glíma við veikindi af andlegum toga.
Að mati stjórnar Dómarafélags Íslands væri rétt endurskoða ákvæði 11. gr. í því skyni að heimila dómara að grípa til vægari úrræða þannig að dómara verði veitt heimild til að virða þann vilja veiks einstaklings sem kýs að koma ekki fyrir dóm, til dæmis ef það veldur viðkomandi mikilli vanlíðan að mæta fyrir dóm, enda þótt í sjálfu sér sé ekki talið ómögulegt að mati lækna að einstaklingurinn komi fyrir dóm. Slík heimild væri einnig í betra samræmi við a-lið 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þar kemur fram meginreglan um virðingu „fyrir meðfæddri göfgi, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði þeirra“.
Í 4. mgr. 11. gr. lögræðislaga er nú þegar fyrir hendi heimild fyrir dómara til að fara á þann stað þar sem varnaraðili dvelst og kynna sér ástand hans af eigin raun. Sú heimild hefur reynst vel en hún er bundin við tilvik þar sem ekki er unnt að kveðja varnaraðila fyrir dóm, sbr. það sem áður segir um að læknisvottorð þurfi að liggja fyrir í slíkum tilvikum um að einstaklingnum sé ómögulegt að koma fyrir dóm. Því er lagt til að nýjum málslið verði bætt við í beinu framhaldi af 2. málslið 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga:
„Dómara er þó ávallt heimilt að fara þess í stað á þann stað þar sem varnaraðili dvelst og kynna sér ástand hans af eigin raun, svo sem ef varnaraðili kýs að koma ekki fyrir dóm.“
Með framangreindri breytingu yrði dómara gert kleift að fara mildari leið við að ná fundi þess einstaklings, sem krafa um sviptingu lögræðis beinist að, auk þess sem áður segir um að hún dragi úr valdbeitingu gagnvart veiku fólki og geri sjálfsákvörðunarrétti þeirra hærra undir höfði.
Virðingarfyllst,
f.h. Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen
Umsögn um fjármálaáætlun 2025-2029
Fjárlaganefnd Alþingis
Kópavogi, 22. maí 2024
Fjárheimildir til dómstóla í fjármálaáætlun 2025-2029
Stjórn Dómarafélags Íslands lýsir áhyggjum yfir því að í framlagðri tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2025-2029 sé gert ráð fyrir „sértækum aðhaldsráðstöfunum“ á málefnasviði dómstóla sem nemi 40 mkr. á árinu 2026, 50 mkr. á árinu 2027 og 60 mkr. á árinu 2028.
Um nokkurn tíma hefur legið fyrir að héraðsdómstólar landsins eru undirfjármagnaðir. Sá halli sem verið hefur á rekstri þeirra hefur verið fjármagnaður undanfarin ár af nokkurs konar „varasjóði“ sem myndaðist fyrir nokkrum árum þegar ákvarðaðar fjárheimildir voru ekki fullnýttar vegna aðstæðna sem þá voru uppi. Nú er svo komið að þessi „varasjóður“ er svo til uppurinn og liggur þá fyrir að óbreyttu að halli verður á rekstri héraðsdómstóla en af rekstraráætlun héraðsdómstóla fyrir árið 2024 má ráða að framlög til þeirra á fjárlögum 2024 eru um 90 mkr. undir grunnrekstrarþörfum þeirra.
Að framangreindu gættu horfir sérkennilega við að ætla að ná fram tugmilljóna króna aðhaldi í rekstri dómstóla þegar rúmlega 95% af kostnaði við rekstur dómstóla eru laun og launatengd gjöld ásamt húsnæðiskostnaði. Svigrúmið til aðhalds er því afar takmarkað. Í því sambandi er vert að hafa í huga að fjöldi dómara og föst laun þeirra eru lögbundin auk þess sem öðru starfsfólki hefur ekki fjölgað síðustu áratugi þrátt fyrir fjölgun verkefna.
Í þessu sambandi er einnig minnt á að með lögum nr. 23/2023, sem samþykkt voru á Alþingi 23. maí 2023, var dómurum við Landsrétt fjölgað úr 15 í 16. Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 23/2023 kom fram að fjölgunin miðaði að því unnt yrði að halda ásættanlegum málshraða við réttinn. Jafnframt kom fram að launa- og starfstengdur kostnaður eins dómara við Landsrétt næmi um 30 mkr. árlega og að gert væri ráð fyrir að sú útgjaldabreyting rúmaðist innan útgjaldaramma dómstólanna. Skýtur það mjög skökku við ef styrking Landsréttar gæti þýtt fækkun dómara á öðrum dómstigum. Verði það niðurstaðan verður að ætla að það muni koma niður á málshraða fyrir dómstólum landsins og þar með réttaröryggi borgaranna þvert á það sem kveðið er á um í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.
Virðingarfyllst,
f.h. Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen
Fundur EAJ í Varsjá í Póllandi 25.-27. apríl 2024
Fyrri ársfundur Evrópudeildar IAJ (EAJ) 2024 var haldinn í Varsá í Póllandi dagana 25 til 27. apríl 2024. Fulltrúar Dómarafélags Íslands á fundinum voru formaður félagsins, Kristbjörg Stephensen og Hlynur Jónsson stjórnarmaður.
Á fundinum voru meðal annars samþykktar ályktanir varðandi Ítalíu, Slóveníu, Spán og Ungverjaland ásamt ályktun varðandi tyrkneska dómarann Murat Arslan en þessar ályktanir má hér: https://eaj.iaj-uim.org/eaj-meeting-in-warsaw-resolutions/
Bréf til dómsmálaráðherra um setningu í embætti dómara til sex ára
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra
11. janúar 2024
Efni: Um setningu í embætti dómara til sex ára
Dómarafélag Íslands sendi í mars á þessu ári umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla nr. 50/2016 (822. mál) sem fjallaði um fjölgun dómara við Landsrétt. Við það tækifæri vakti félagið einnig athygli á því að taka þyrfti til endurskoðunar ákvæði laga um dómstóla, sem mæla fyrir um setningu dómara á öllum dómstigum til sex ára við ákveðnar aðstæður. Markmið þessa bréfs félagsins til dómsmálaráðherra er að ítreka athugasemdir við slíkt fyrirkomulag.
Í febrúar á þessu ári var auglýst laust til setningar embætti dómara við Landsrétt til 28. febrúar 2029 í tengslum við leyfi skipaðs landsréttardómara sem tekið hefur sæti í alþjóðlegum dómstóli. Var þetta í fyrsta skipti sem auglýst var setning dómara til svo langs tíma, eða sex ár samfleytt, en áður hafði verið auglýst embætti dómara við Hæstarétt til setningar í þrjú ár vegna leyfis dómara af sömu ástæðu.
Dómarafélag Íslands bendir á að dómarar við hina almennu dómstóla landsins eru eina stétt embættismanna sem skipaðir eru ótímabundið, sbr. ákvæði laga um dómstóla nr. 50/2016. Þótt ekki séu bein fyrirmæli þess efnis í stjórnarskránni hefur verið leitt af orðalagi 61. gr. hennar að dómarar skuli skipaðir til óákveðins tíma þar til þeir brjóta af sér eða fullnægja ekki lengur almennum hæfisskilyrðum og færu því lagafyrirmæli um fimm ára skipunartíma gegn þessu ákvæði. Þessi tilhögun hvílir á þeirri grundvallarreglu að tryggja beri sjálfstæði dómara og að þeir eigi ekki yfir höfði sér lausn frá embætti að loknum styttri skipunartíma vegna verka sinna.
Þótt þeir, sem settir eru til að gegna starfi dómara til fyrirfram ákveðins tíma, njóti sömu stöðu og skipaðir dómarar á setningartímanum og sjálfstæði þeirra sé tryggt geta skapast álitaefni um hvort tímabundin setning geti í raun haft áhrif á sjálfstæði og störf dómarans, stefni hann að því að setning verði framlengd eða hann leiti síðar eftir skipun í embætti.
Til að viðhalda skilvirkni dómskerfisins getur verið nauðsynlegt að manna stöður dómara tímabundið, svo sem vegna veikinda eða forfalla fastra dómara. Við slíkar aðstæður er heimilt samkvæmt ákvæðum laga um dómstóla nr. 50/2016 að setja dómara til allt að tólf mánaða. Þegar slík málefnaleg rök eru fyrir tímabundinni setningu dómara og úrræðið er aðeins nýtt í afmörkuðum og lögmæltum tilvikum verður ekki talið að það fari gegn meginreglunni um sjálfstæði dómara.
Heimild laga um dómstóla til að setja dómara á öllum dómstigum til sex ára, sbr. 3. mgr. 18. gr. um Hæstarétt, 3. mgr. 26. gr. um Landsrétt og 3. mgr. 35. gr. um héraðsdóm, vegna leyfis skipaðs dómara til að starfa hjá alþjóðastofnun er hins vegar af öðrum toga. Hún vekur upp spurningar um hvort svo langur setningartími í dómaraembætti samrýmist sjónarmiðum um sjálfstæði dómstóla sem fyrr er lýst og varið er í stjórnarskrá.
Þegar sex ára setning í embætti dómara við Landsréttar var sem fyrr greinir fyrst auglýst í febrúar á þessu ári voru allir umsækjendur héraðsdómarar. Verði héraðsdómari settur af þessari ástæðu sem landsréttardómari skal embætti þess fyrrnefnda auglýst laust til setningar annars dómara á leyfistímanum, þ.e. einnig í sex ár, sbr. 3. mgr. 35. gr. laga um dómstóla. Sama gildir ef landsréttardómari er settur hæstaréttardómari til sex ára, sbr. 3. mgr. 26. gr. laganna.
Af þessu fyrirkomulagi leiðir að einhvers konar keðja getur skapast í sex ára setningum dómara á öllum dómstigum fái dómari við Hæstarétt leyfi frá störfum til svo langs tíma. Setningartími miðast við þann tíma sem leyfi hins fasta dómara stendur. Af ákvæðum laga er hins vegar ekki ljóst hvernig skuli fara með ef leyfi fasts dómara reynist styttra en áætlað var eða hann lætur af embætti. Þannig er öryggi hins setta dómara enn minna en ella, enda er starfstími hans í raun þá háður því að engar breytingar verði á leyfi þess dómara sem hann er settur fyrir. Það sama gildir ef dómari, sem settur er við Landsrétt eða Hæstarétt í sex ár, fær skipun í embætti áður en setningartíma hans lýkur.
Þær áhyggjur sem Dómarafélag Ísland lýsti í umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í vor um slíka keðjuverkun milli Landsréttar og héraðsdómstóla hafa ræst. Þannig hefur sá héraðsdómari sem fyrst var settur landsréttardómari til sex ára síðar fengið fast embætti við Landrétt og þurfti þá á ný að auglýsa embætti við réttinn laust til setningar til ársins 2029. Þá hlaut annar héraðsdómari setningu við Landsrétt til sex ára og var embætti hans við héraðsdóm því auglýst laust til setningar.
Dómarafélag Íslands telur að lagafyrirmæli um setningu í embætti dómara til sex ára geti dregið úr festu sem þarf að ríkja um skipun dómara og skapað óvissu um stöðu þeirra sem settir eru í embætti til svo langs tíma. Félagið hvetur dómsmálaráðherra til að leggja til lagabreytingar á fyrirkomulagi um setningu í embætti fyrir dómara sem fær sex ára leyfi frá störfum til að starfa hjá alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun. Einn valkostur gæti verið að bæta við lög um dómstóla ákvæði um að fjölga megi dómurum tímabundið við dómstól þegar dómari kemur til baka úr slíku leyfi eða að hann geti tekið við embætti sem er laust þegar störfum hans við alþjóðastofnun lýkur. Félagið telur að núverandi skipan sé til þess fallin að stefna sjálfstæði dómara í hættu. Leita þarf leiða til bæta úr því og lýsir félagið sig viljugt til samvinnu í þeim efnum.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen
Álit dómaranefndar Evrópuráðsins um notkun gervigreindar í dómskerfinu
Ráðgjafarnefnd Evrópskra dómara (CCJE) sem starfar á vettvangi Evrópuráðsins, samþykkti á fundi sínum Strasbourg 1. desember 2023 álit um notkun gervigreindar í dómskerfinu nr. 26(2023). Álitið má sjá hér.
Álitið er mjög ítarlegt en þar er fjallað um þau áhrif sem stafræn tækni og gervigreind hefur á starfsemi dómstóla og dómskerfið í víðu samhengi. Þá er fjallað um framtíðarmöguleika gervigreindar til að auka skilvirkni dómstóla í margvíslegu tilliti svo sem í stjórnsýslu þeirra, málaskrárkerfum og rafrænni málsmeðferð en einnig við sáttameðferð fyrir dómstólum, sönnunarfærslu og ákvarðanatöku í tilteknum málaflokkum. Í álitinu er sjónum sérstaklega beint að kostum og göllum þess að dómstólar nýti sér gervigreindartækni í auknum mæli við úrlausn mála. Þá er lagt mat á hugsanlegar áskoranir sem tæknin skapar gagnvart sjálfstæði dómstóla, réttinum til réttlátrar málsmeðferðar, upplýsingaöryggi og persónuvernd.
Ráðgjafarnefnd Evrópskra dómara er skipuð dómurum frá 46 ríkjum Evrópuráðsins og eru þeir að jafnaði tilnefndir af dómarafélögum viðkomandi ríkja. Hlutverk nefndarinnar er að vera stofnunum Evrópuráðsins til ráðgjafar um hvers kyns álitaefni sem tengjast sjálfstæði og hlutleysi dómstóla og stöðu dómara í aðildarríkjunum.
Fulltrúi Íslands í nefndinni er Björg Thorarensen hæstaréttardómari. Nefndin fundar í Strasbourg eina viku í nóvember ár hvert og samþykkir þá að jafnaði álit um efni sem tengjast sjálfstæði dómara og dómstóla og byggjast meðal annars á rannsókn á stöðu mála og lagaumhverfi í aðildarríkjunum. Á síðasta fundi nefndarinnar var ákveðið að hefja vinnu við gerð álits um reglur og framkvæmd aðildarríkjanna varðandi agaviðurlög gagnvart dómurum.
Lista yfir álit nefndarinnar frá síðustu árum má sjá hér.
Fundur formanna norrænna dómarafélaga haldinn í Kaupmannahöfn
Reglulegur fundur formanna norrænna dómarafélaga var haldinn í Kaupmannahöfn 3. nóvember 2023. Formaður Dómarafélags Íslands, Kristbjörg Stephensen, sótti fundinn.
Á fundinum var rætt um áskoranir sem felast í því að laða að hæfa dómara til starfa við dómstóla á Norðurlöndunum, s.s. í dreifbýli en launasetning og starfsaðstæður hafa ekki þótt stuðla sérstaklega að því að hæf dómaraefni sæki nægilega í störf dómara. Þá voru kynnt viðbrögð við svonefndum gengjastríðum sem hafa verið að færast í vöxt á undanförnum árum auk þess sem kynnt var mismunandi fyrirkomulag á rekstri dómarafélaga í löndunum fimm.
Umsögn um drög að frumvarpi um breytingu lögræðislaga
Dómsmálaráðuneytið
Borgartúni 26
Reykjavík
27. september 2023
Efni: Umsögn Dómarafélags Íslands um drög að frumvarpi um breytingu lögræðislaga
Vísað er til draga að frumvarpi til breytinga á lögræðislögum nr. 71/1997, sem nýverið birtust í samráðsgátt stjórnvalda.
Dómarafélagið telur eitt og annað til bóta í frumvarpsdrögunum en leyfir sér að setja fram eftirfarandi ábendingar.
Í 1. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á a-lið 4. gr. laganna sem felur í sér breytta hugtakanotkun, þannig að rætt verði framvegis um „geðröskun“ í stað „geðsjúkdóms“. Þar sem hér virðist um veigamikla breytingu að ræða hefði verið eðlilegt að henni fylgdu ítarlegri lögskýringargögn, þar sem meðal annars yrði sett fram skilgreining á hugtakinu „geðröskun“, enda er viðbúið að tekist verði á um þetta atriði fyrir dómi. Þó nokkuð vantar upp á í þessum efnum í frumvarpsdrögunum. Lagt er því til að þetta atriði verði skoðað nánar.
Í 3. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á d-lið 2. mgr. 7. gr. laganna og er orðunum „á dvalarstað varnaraðila“ skipt út fyrir fyrir orðið „dvelst“. Æskilegt væri að skýra nánar í athugasemdum með frumvarpi til slíkrar lagabreytingar hvaða skilning leggja eigi í þetta hugtak. Algengt er að einstaklingar með lögheimili á landsbyggðinni séu til meðferðar á sjúkrahúsi í Reykjavík þegar til stendur að krefjast tímabundinnar sviptingar lögræðis. Skammvinnri dvöl á geðdeild, til dæmis vegna 21 dags nauðungarvistunar, teldist vart „dvalarstaður“ í skilningi gildandi laga. Hér má jafnframt minna á að aðild þess sveitarfélags sem gerir kröfuna verður að fara saman við varnarþingið. Þetta verður ráðið af dómi Hæstaréttar í máli nr. 143/2017 og úrskurði Landsréttar í máli nr. 626/2021. Sveitarfélag á landsbyggðinni getur þannig ekki gert kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem byggt er á að fastur dvalarstaður varnaraðila sé, en byggt samt aðild sína að málinu á lögheimilinu.
Í 5. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á 2. mgr. 11. gr. laganna sem virðist misráðin og skortir verulega á fullnægjandi rökstuðning að baki tillögunni. Aðalatriðið þegar kemur að öflun læknisvottorðs í máli um sviptingu lögræðis er að viðkomandi læknir þekki vel til einstaklingsins sem krafan beinist að, eins og áréttað var í lögskýringargögnum að baki upphaflegu ákvæði 11. gr. lögræðislaga. Í frumvarpsdrögunum er miðað við að fortakslaust þurfi að afla tveggja læknisvottorða og að viðkomandi læknar þurfi að vera „óháðir“ hvor öðrum í störfum sínum. Það getur þó gerst að þeir læknar sem best þekki til sjúklings séu samstarfsmenn á spítala. Sú tortryggni í garð lækna sem virðist búa að baki frumvarpsdrögunum er ekki rökstudd með vísan til vandkvæða sem birst hafi í framkvæmd, enda þótt fyrir liggi mikill fjöldi dómsúrlausna sem unnt væri að skoða ef til stæði að vanda til verka í þessum efnum. Þá getur það gerst að einstaklingar séu ekki í meðferðarsambandi við fleiri en einn lækni og jafnvel ekki reiðubúnir að hitta aðra lækna, af ýmsum ástæðum. Í öðrum tilvikum, svo sem þegar um einstakling er að ræða sem liggur í dái, eða til dæmis á deild fyrir heilabilaða, þá má spyrja sig hvort raunveruleg þörf sé á að kalla annan lækni til að staðfesta það sem þegar hefur verið staðfest um þetta í einu læknisvottorði. Í þessum efnum virðast höfundar frumvarpsdraganna loks líta algjörlega fram hjá því að dómari skipar einstaklingum ávallt verjanda, þ.e. sjálfstætt starfandi lögmann sem gætir hagsmuna umbjóðanda síns til hins ítrasta. Telji verjendur til dæmis að vottorð sem fyrir liggi sé ekki nægilegt eða að á því kunni að vera annmarkar, en um þetta hafa þeir samráð við umbjóðanda sinn, þá ber framkvæmd á þessu sviði með sér að verjendur óski gjarnan eftir öðru læknisvottorði eða, í undantekningartilvikum, dómkvaðningu matsmanns til að meta ástand einstaklingsins. Vert er að halda því til haga að málsmeðferð í málum sem þessum, þar á meðal hvað varðar málsmeðferðartíma, verður ekki jafnað til þeirrar sem á sér stað í málum um nauðungarvistun. Loks skal þess getið að ófrávíkjanleg skylda til að afla viðbótarvottorðs óháðs læknis myndi fela í sér þó nokkra útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð, gagnstætt því sem haldið er fram í almennum athugasemdum við frumvarpið.
Í 5. gr. frumvarpsdraganna er einnig lögð til sú breyting á 4. mgr. 11. gr. laganna að dómari geti ekki undir nokkrum kringumstæðum sleppt því að kynna sér ástand aðila af eigin raun. Í framkvæmd hafa dómarar lagt mikið á sig til að hitta einstaklinga sem krafa um lögræðissviptingu beinist að og hefur tilhneigingar gætt til að sýna þeim eins mikla tillitssemi og kostur er, til dæmis með því að fara á heimili veikra einstaklinga fremur en að nýta heimild 3. mgr. 11. gr. laganna til að láta lögreglu sækja viðkomandi. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpsdrögum að markmiðið sé að dómari „geti ekki vikið sér undan því“ að hitta varnaraðila. Þekkir félagið ekki dæmi þess að dómari víkist undan þeirri skyldu, sé þörf á því að hann kynni sér ástand varnaraðila af eigin raun. Það getur gerst að ekki sé talin þörf á að dómari hitti einstakling, til dæmis í málum þar sem læknir hefur vottað að hann liggi í dái og dómari hefur skipað einstaklingnum verjanda, þ.e. sjálfsætt starfandi lögmann, sem hefur farið og kynnt sér ástand umbjóðanda síns. Telji ráðuneytið rétt að skoða hvort tilefni sé til að breyta þessari undantekningarreglu þá myndi það heyra til vandaðra vinnubragða að slík tillaga byggðist á skoðun á þeirri framkvæmd sem viðhöfð hefur verið, til dæmis hvort einhver vísbending sé uppi um að þessari undantekningarheimild 4. mgr. 11. gr. laganna hafi verið beitt í meiri mæli en viðbúið var þegar lögræðislög voru upphaflega samþykkt á Alþingi. Á það er minnt í þessu sambandi að dómari hefur heimild til að kalla vitni fyrir dóm, til dæmis umönnunaraðila sem borið geta um aðstæður og ástand varnaraðila. Er því eindregið lagt til að horfið verði frá því að fella niður annan málslið 4. mgr. 11. gr. laganna um að heimsókn dómara sé ekki þörf ef telja megi að hún sé þýðingarlaus fyrir úrlausn málsins.
Í 6. gr. frumvarpsdraganna er fjallað um atriði sem þörf er á að dómari fjalli um í rökstuðningi fyrir niðurstöðu úrskurðar. Ekki kemur fram að skort hafi á rökstuðning í framkvæmd eða að úrlausnir dómstóla hafi verið rannsakaðar í þessum efnum af ráðuneytinu. Eftir því sem best verður séð er í dómsúrslausnum í málum um sviptingu lögræðis jafnan vísað til þess sem fram kemur í 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga, um að svipting lögræðis sé heimil standi brýn þörf til, enda hafi önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar verið fullreynd. Ef til stendur að hnykkja á þessu atriði þá kemur vel til greina að svipuð breyting verði gerð á 8. gr. laganna þannig að sá sem setur fram kröfu skuli einnig rökstyðja beiðni sína út frá þessu sjónarmiði. Þetta mætti gera með því að bæta nýjum staflið við 8. gr. laganna. Til þess að dómari hefði á faglegri rökum að byggja í þessu efni í forsendum sínum þyrfti jafnframt að gera kröfur um að um þetta atriði, þ.e. um vægari úrræði sem stæðu til boða og hvers vegna þau komi ekki að gagni, yrði fjallað í læknisvottorðum sem leggja ber fram með kröfu um sviptingu lögræðis, eftir atvikum með sambærilegum hætti og lagt er til að breytingar verði gerðar á f-lið 21. gr. laganna í 11. gr. frumvarpsdraganna.
Í 9. gr. frumvarpsdraganna er notað hugtakið „geðröskun“ í stað „geðsjúkdóms“, sbr. það sem áður greinir um 1. gr. frumvarpsdraganna hér að framan. Ítarlegri skýringar er að finna í athugasemdum að baki 9. gr. frumvarpsdraganna samanborið við 1. gr. þeirra, en lagt er til að ráðuneytið vinni nánari skýringar í þessum efnum. Viðbótarskilyrði frá núgildandi ákvæðum fyrir nauðungarvistun í 72 tíma, sem jafnframt verða efnisskilyrði fyrir vistun í 21 dag samkvæmt 3. mgr., eru meðal annars þau að vistun verði ekki ákveðin nema sýnt þyki að meðferðinni verði ekki komið við á annan hátt en með nauðungarvistun. Þetta kallar á nánari fyrirmæli um það hvernig sýnt verði á fram á það fyrir dómi, af hálfu sjúkrahúss eða sýslumanns, með hliðsjón af knöppum tíma til úrlausnar mála, að þeim skilyrðum sé fullnægt þegar ákvarðanir þessara aðila eru bornar undir dóm á grundvelli 30. gr. laganna.
Í 11. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á 3. mgr. 21. gr. laganna. Tillagan felur í sér auknar kröfur um fylgigögn með beiðni til sýslumanns og hefur ekki sem slík bein áhrif á störf dómstóla, heldur álag fyrir heilbrigðiskerfið. Í dag er það þannig að meðferðarlæknir viðkomandi metur það svo að þörf sé á nauðungarvistun (án þess að rita vottorð um það) og lætur þá kalla til óháðan lækni, þ.e. lækni sem ekki þekkir til sjúklingsins til að meta það sjálfstætt. Sá læknir starfar þó yfirleitt á annarri deild Landspítala. Það er vandkvæðum bundið að finna geðlækna sem hafa engin tengsl við Landspítala og óljóst hvort næg rök standa til þess að setja þessa kröfu fram í frumvarpsdrögunum. Hugsanlega mætti orða ákvæðið svo að viðkomandi skuli vera óháður þeim lækni sem kallar hann til og þeirri deild sem sjúklingurinn er vistaður á. Lagt er til að þetta atriði verði skoðað nánar í samráði við geðsvið Landspítala. Í frumvarpsdrögunum er ekki lögð til breyting á 23. gr. laganna um heimild sýslumanns til að leita jafnframt til trúnaðarlæknis áður en veitt er heimild til nauðungarvistunar. Samkvæmt þessu yrði sýslumönnum gert að afla allt að þriggja vottorða frá þremur læknum áður en ákvörðun um nauðungarvistun er tekin, sem gerast skal án tafar samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laganna. Lagt er til að lagt sé frekara mat á nauðsyn í þessum efnum.
Í 14. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á 29. gr. a í lögunum, en það ákvæði snýr að framlengingu nauðungarvistunar. Í ljósi markmiðs ráðuneytisins, eins og það birtist í athugasemdum með frumvarpsdrögunum, virðist nærtækast að í stað orðsins „dvelur“ verði ritað „sætir nauðungarvistun“.
Í 16. gr. frumvarpsdraganna er lögð til breyting á 31. gr. laganna. Þar er rætt um „dóma“ Landsréttar þar sem með réttu ætti að ræða um „úrskurði“ réttarins. Sambærilega leiðréttingu þyrfti að gera í athugasemdum með frumvarpsdrögunum.
Eftirfarandi atriði er ekki fjallað um í frumvarpsdrögunum en væri gagnlegt að huga að:
Þess er áður getið að í framkvæmd hafa dómarar lagt mikið á sig til að hitta einstaklinga sem krafa um lögræðissviptingu beinist að og hefur tilhneigingar gætt til að sýna þeim eins mikla tillitssemi og kostur er, til dæmis með því að fara á heimili veikra einstaklinga fremur en að nýta heimild 3. mgr. 11. gr. laganna til að láta lögreglu sækja viðkomandi. Þannig er nánast óþekkt að til þess komi að dómari nýti þá heimild, en hún hefur stundum orðið til þess að veikir einstaklingar, sem ekki vilja koma fyrir dóm, hafa fremur verið reiðubúnir til að fá heimsókn frá dómara. Í 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga segir að í því skyni að leggja sjálfstætt mat á hæfi varnaraðila skuli dómari kalla varnaraðila fyrir dóm, kynna honum kröfuna og gefa honum kost á að tjá sig um hana nema ástandi hans sé svo háttað samkvæmt vottorði læknis að það sé ekki mögulegt. Til greina kemur að endurskoða ákvæðið í því skyni að heimila dómara að grípa til vægari úrræða þannig að dómara verði veitt heimild til að virða þann vilja veiks einstaklings sem kýs að koma ekki fyrir dóm, til dæmis ef það veldur viðkomandi mikilli vanlíðan að mæta, enda þótt í sjálfu sér sé ekki talið ómögulegt að mati lækna að einstaklingurinn komi fyrir dóm.
Í framkvæmd hafa lögmenn, sem skipaðir hafa verið lögráðamenn eða ráðsmenn og setja fram kröfu um sviptingu lögræðis, almennt ekki verið taldir í þeirri stöðu að unnt sé að skipa þá sem sína eigin „talsmenn“ þegar þeir bera fram kröfu um lögræðissviptingu, sbr. b-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, sbr. úrskurð Landsréttar í máli nr. 704/2021 og úrskurð Landsréttar í máli nr. 97/2023. Til að tryggja að kostnaður af störfum lögráðamanns við þessar aðstæður greiðist úr ríkissjóði, en ekki af fjármunum þess einstaklings sem krafa beinist að, kemur til greina að lögfesta sérreglu um þóknun lögráðamanna og ráðsmanna við þessar aðstæður. Við 1. málslið 1. mgr. 17. gr. laganna gæti þá svohljóðandi nýr 2. málsliður: „Þegar löglærðum lögráðamanni eða ráðsmanni hefur ekki verið skipaður talsmaður, og hann hefur sjálfur flutt mál fyrir dómi um kröfu um lögræðissviptingu, er dómara heimilt að ákvarða honum þóknun úr ríkissjóði.“
Dómarafélagið er reiðubúið að fara nánar yfir þessi atriði með ráðuneytinu sem og önnur er snúa að réttarfari í málum sem rekin eru á grundvelli lögræðislaga. Í því skyni óskar félagið eftir fundi með fulltrúum ráðuneytisins.
Virðingarfyllst,
fyrir hönd Dómarafélags Íslands
Kristbjörg Stephensen
formaður stjórnar
Ársfundur IAJ 2023 í Taipei á Taiwan 18. - 21. september 2023
Ársfundur IAJ 2023 var haldinn í Taipei á Taiwan dagana 18. til 21. september 2023. Fulltrúi Dómarafélags Íslands á fundinum var formaður félagsins, Kristbjörg Stephensen.
Samhliða ársfundi IAJ fundaði Evrópudeild IAJ (EAJ) eins og venja er og var sá fundur haldinn daginn áður eða 17. september 2023. Kristbjörg sat jafnframt þann fund.
Á fundinum voru meðal annars samþykktar ályktanir varðandi Litháen og Moldavíu, sem sjá má hér:
https://www.iaj-uim.org/iuw/wp-content/uploads/2023/10/EAJ-Lithuania-Statement_September-2023.pdf
og
https://www.iaj-uim.org/iuw/wp-content/uploads/2023/09/EAJ-resolution-on-Moldova.pdf
Tillögur um breytingar á dómstólakafla stjórnarskrárinnar
Greinargerð um endurskoðun á dómstólakafla stjórnarskrárinnar hefur verið skilað til forsætisráðherra. Hún var rituð af Hafsteini Þór Haukssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og er liður í vinnu sem forsætisráðherra lagði til um að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 yrði endurskoðuð í áföngum. Um þá vinnu má nánar lesa hér.