Ýmislegt

Dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. lög nr. 45/2010, er gildi tóku 29. maí 2010 skipaði Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra fimm menn í dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara á grundvelli tilnefninga frá Hæstarétti Íslands, dómstólaráði, Alþingi og Lögmannafélagi Íslands. Er nefndinni falið að láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um dómaraembætti. Í umsögn sinni skal dómnefndin taka afstöðu til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið en heimilt er að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna. Hefur ráðherra sett nánari reglur um störf nefndarinnar sem birtar eru í Stjórnartíðindum B-deild.

Skipunartími í nefndina er fimm ár, en þó þannig að skipunartími eins manns rennur út hvert ár. Þegar skipað er í fyrsta sinn í dómnefndina, skal einn aðalmaður ásamt varamanni vera skipaður til eins árs, annar aðalmaður ásamt varamanni til tveggja ára og þannig koll af kolli svo að fimmti aðalmaðurinn ásamt varamanni sé skipaður til fimm ára. Skal skipunartími hvers ákveðinn af tilviljun þegar ráðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa. Hlutkesti um skipunartíma nefndarmanna hefur farið fram.

Nefndina skipa:

Gunnlaugur Claessen, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, og Stefán Már Stefánsson, fyrrv. prófessor, sem báðir eru tilnefndir af Hæstarétti,

Ragnhildur Helgadóttir lögfræðingur, sem kosin er af Alþingi,

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari, tilnefnd af dómstólaráði, og

Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður, tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands.

Varamenn, sem tilnefndir eru af sömu aðilum, eru Gréta Baldursdóttir hæstaréttardómari, Kristín Benediktsdóttir lektor, Ingibjörg Pálmadóttur, fyrrverandi ráðherra, Halldór Halldórsson dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands vestra og Guðrún Björk Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður.


Nefnd um dómarastörf

Innanríkisráðherra skipar þrjá menn til að sitja í nefnd um dómarastörf, svo og jafnmarga til vara. Einn nefndarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Dómarafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu lagadeildar Háskóla Íslands og einn skipar ráðherra án tilnefningar. Skal sá síðastnefndi vera formaður nefndarinnar og fullnægja skilyrðum til að verða skipaður í embætti hæstaréttardómara. Skipunartími nefndarmanna er sex ár en þó þannig að skipunartími eins þeirra rennur út annað hvert ár. Sömu reglur gilda um skipun varamanna. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í nefndinni oftar en tvisvar samfleytt.

 • Úrlausnum nefndar um dómarastörf verður ekki skotið til annars stjórnvalds.
 • Nefnd um dómarastörf skal hafa eftir þörfum samvinnu við dómstólaráð um starfsemi sína.
 • Nefnd um dómarastörf setur almennar reglur um hvers konar aukastörf geti samrýmst embættisstörfum dómara.
 • Nefnd um dómarastörf setur almennar reglur um að hvaða marki samrýmanlegt sé embætti dómara að hann eigi hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki.
 • Nefnd um dómarastörf fjallar um skriflegar kvartanir frá hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á hans hlut með störfum sínum. Kvartanir skal senda á netfangið hbha@simnet.is eða til Hjördísar Hákonardóttur, pósthólf 5, 151 Reykjavík.

Fjórði kafli laga um nr. 15/1998 um dómstóla fjallar um réttindi og skyldur dómara.

Nefndina skipa:

Til og með 14. maí 2022:

 • Hjördís Hákonardóttir, fyrrv. hæstaréttardómari, formaður nefndarinnar, skipuð af innanríkisráðherra.
  Varamaður hennar er Eiríkur Elís Þorláksson lektor.

Til og með 15. desember 2020:

 • Friðgeir Björnsson, fyrrv. dómstjóri, tilnefndur af Dómarafélagi Íslands.
  Varamaður hans er Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrv. héraðsdómari.

Til og með 14. maí 2018:

 • Ása Ólafsdóttir lektor, eftir tilnefningu lagadeildar Háskóla Íslands.
  Varamaður Pétur Dam Leifsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.