Lög félagsins

LÖG DÓMARAFÉLAGS ÍSLANDS

 

  1. gr.

Félagið heitir Dómarafélag Íslands.

 

  1. gr.

Félagar eru hæstaréttardómarar, landsréttardómarar og héraðsdómarar.

Íslenskir dómarar við alþjóðlega dómstóla geta sótt um inngöngu í félagið.

Löglærðir aðstoðarmenn dómara, þ.á m. aðstoðarmenn landsréttardómara og hæstaréttardómara, svo og þeir sem settir eru dómarar geta sótt um inngöngu í félagið.

Þeir félagsmenn, sem látið hafa af störfum fyrir aldurs sakir eða heilsubrests, teljast félagsmenn nema þeir óski eftir að víkja úr félaginu.

Allir félagsmenn eiga jöfn réttindi og bera jafnar skyldur. Löglærðir aðstoðarmenn dómara og þeir sem settir hafa verið dómarar eiga þó ekki atkvæðisrétt.

 

  1. gr.

Tilgangur félagsins er:

a)           að standa vörð um sjálfstæði dómara og dómstóla,
b)           að stuðla að velferð dómarastéttarinnar og vera málsvari hennar m.a. í kjaramálum,
c)           að stuðla að samræmi í allri lagaframkvæmd,
d)           að vera ráðgefandi gagnvart ríkisstjórn og Alþingi um nýmæli í löggjöf, sem vænta má að snerti verksvið félagsmanna,
e)           að hlynna að fræðimennsku og útgáfu tímarits um lögfræðileg efni í samstarfi við önnur félög lögfræðinga eða einstaklinga,
f)           að halda dómsmálaþing í samvinnu við Sýslumannafélag Íslands og dómsmálaráðuneytið eftir reglum þar um.

 

  1. gr.

Stjórn Dómarafélags Íslands skipa 5 menn, formaður og 4 meðstjórnendur kjörnir á aðalfundi. Kjósa skal að lágmarki einn fulltrúa hvers dómstigs sem aðalmann í stjórn, að því gefnu að framboð berist frá dómara á hverju dómstigi fyrir sig. Við kosninguna skal fyrst kosinn formaður úr hópi allra félagsmanna sem falla undir 1. mgr. 2. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr. Því næst skal kosinn í stjórn einn dómari úr hópi hæstaréttardómara sem gefið hafa kost sér. Að því loknu skal sambærilegur háttur hafður á um kjör eins stjórnarmanns úr hópi landsréttardómara. Því næst skal sami háttur hafður á um kjör eins stjórnarmanns úr hópi héraðsdómara. Fjórði meðstjórnandi og tveir varamenn skulu kjörnir úr hópi félagsmanna óháð starfsvettvangi. Á aðalfundi skulu jafnframt kjörnir 2 varamenn.

Stjórnarmenn verða ekki endurkjörnir þegar þeir hafa setið í aðalstjórn samfellt í 6 ár. Þó má kjósa stjórnarmann, er þannig háttar til um, formann félagsins og kemur fyrri stjórnarseta hans þá ekki til frádráttar.

Framboð til formanns og stjórnar félagsins skal tilkynna til stjórnar félagsins eigi síðar en sjö dögum fyrir boðaðan aðalfund. Ber stjórn að tilkynna félagsmönnum um framboð eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn.

Atkvæðisrétt hafa einungis þeir félagsmenn sem staddir eru á aðalfundi. Félagsmaður sem tengist fundi með fjarfundabúnaði telst staddur á aðalfundi í skilningi ákvæðisins.

 

  1. gr.

Til aðalfundar félagsins skal boða með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara. Á aðalfundi ber stjórninni að flytja skýrslu um störf sín og leggja fram endurskoðaða félagsreikninga til samþykktar. Á aðalfundi skal kjósa einn endurskoðanda fyrir félagið til næsta árs. Loks fjallar aðalfundurinn um önnur mál, sem um er getið í fundarboði, eða upp kunna að vera borin af fundarmönnum. Aðalfund má sækja með fjarfundabúnaði og skal stjórn hlutast til um að slíkt sé félagsmönnum gert tæknilega kleift.

Í aðalfundarboði skal tilkynnt hvort stjórn gefur kost á sér til endurkjörs.

Kosning félagsformanns, sem kosinn er sérstaklega og meðstjórnenda, skal vera skrifleg ef óskað er.

 

  1. gr.

Afl atkvæða ræður úrslitum á félagsfundum og stjórnarfundum. Lögum félagsins verður þó aðeins breytt á aðalfundi og þarf til þess samþykki a.m.k. tveggja þriðju hluta fundarmanna.

 

  1. gr.

Félagsmenn greiða árgjald til félagsins eftir ákvörðun aðalfundar hverju sinni.

Kostnað við störf félagsins og félagsdeilda skal greiða úr félagssjóði. Þeir félagsmenn sem látið hafa af störfum fyrir aldurs sakir eða heilsubrests greiði hálft árgjald. Sama á við um löglærða aðstoðarmenn dómara og setta dómara sem ganga í félagið.

Heimilt er að leggja 20% árgjalda í sérstakan sjóð ,,utanfararsjóð” sem varið skal til þess að stuðla að samskiptum dómara á alþjóðavettvangi.

 

Lög þessi tóku gildi 1. júlí 1992. Skáletraður texti eru breytingar sem tóku gildi 21. nóvember 2014, 24. nóvember 2017 og 8. september 2022.