Velkomin á heimasíðu Dómarafélags Íslands

Stjórn Dómarafélags Íslands ákvað á fundi sínum 17. október 2011 að ráðast í gerð heimasíðu fyrir félagið til að mæta nútímakröfum um aukinn sýnileika og gegnsæi, svo og til að auðvelda alþjóðleg samskipti félagsins. Það er ósk stjórnar Dómarafélagsins að með opnun heimasíðunnar skapist vettvangur til að efla fræðslu og miðla upplýsingum um starfsemi dómstólanna, en einnig vonast stjórnin til þess að heimasíðan komi að gagni sem upplýsingaveita um starfsemi félagsins og baráttumál þess hverju sinni. Standa vonir stjórnarinnar til þess að með auknum sýnileika og innsýn í störf dómstólanna aukist traust almennings til þeirra.

Félagsmenn í Dómarafélagi Íslands eru þeir dómarar sem skipaðir hafa verið hæstaréttardómarar og héraðsdómarar. Þeir félagsmenn sem látið hafa af störfum fyrir aldurs sakir eða heilsubrests teljast félagsmenn nema þeir óski eftir að víkja úr félaginu og þá geta íslenskir dómarar við alþjóðlega dómstóla sótt um inngöngu í félagið. Í nóvember 2012 eru félagsmenn alls 72.

Tilgangur félagsins er m.a. að standa vörð um sjálfstæði dómara og dómstóla og stuðla að velferð dómarastéttarinnar og vera málsvari hennar, m.a. í kjaramálum. Þá skal félagið stuðla að samræmi í allri lagaframkvæmd og vera ráðgefandi gagnvart ríkisstjórn og Alþingi um nýmæli í löggjöf sem vænta má að snerti verksvið félagsmanna. Félagið skal einnig hlynna að fræðimennsku og útgáfu tímarits um lögfræðileg efni í samstarfi við önnur félög lögfræðinga eða einstaklinga.

Félagið er aðili að Alþjóðasamtökum dómara (International Association of Judges) og Evrópusamtökum dómara (European Association of Judges) og leggur ríka áherslu á að senda fulltrúa á fundi þessara samtaka. Einnig er lögð áhersla á að rækta tengsl við dómarafélög annarra Norðurlandaþjóða og stuðla að náms- og kynnisferðum dómara til útlanda.