Ályktun Dómarafélags Íslands um hagsmunaskráningu og upplýsingar um aukastörf dómara

Samþykkt á fundi félagsins 1. febrúar 2017

 

Í tilefni af umfjöllun í fjölmiðlum um skráningu aukastarfa og fjárhagslega hagsmuna dómara, svo og opinbera birtingu slíkra upplýsinga, árétta dómarar í Dómarafélagi Íslands mikilvægi þess að um þessi efni gildi skýrar reglur sem tryggi gagnsæi og trúverðugleika dómskerfisins.

Dómarar hafa jafnframt skilning á því að heimildir þeirra til að sinna aukastörfum og eiga hluti í félögum þurfi að sæta takmörkunum og einnig að eðlilegt er að upplýsingar um þessi atriði séu að ákveðnu marki aðgengilegar almenningi.

Í ljósi framangreinds telja dómarar rétt að gildandi lög og reglur um skráningu aukastarfa og fjárhagslegra hagsmuna þeirra, svo og opinber birting þessara upplýsinga, verði teknar til endurskoðunar með það fyrir augum að herða reglurnar til samræmis við það þar sem lengst er gengið í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Meðal annars verði að því stefnt að eignarhlutir dómara í fyrirækjum yfir ákveðnum mörkum verði birtar opinberlega. Lýsa dómarar sig reiðubúna til að taka þátt í vinnu við slíka tafarlausa endurskoðun.